18.12.2010 | 00:41
Sýra í andlitið?
Lilja Mósesdóttir minntist á ýmislegt í Kastljósviðtali í kvöld, meðal annars það að skipulagsmál og skortur á orku hamli framgangi Helguvíkurálvers, alveg burtséð frá skoðunum VG í því efni.
Það munaði nokkrum klukkustundum að hún hefði getað greint frá máli, sem ég hef haft ávæning af síðustu misseri en ekki fengið staðfestingu á fyrr en nú, en þýðir einfaldlega það að langur, langur vegur er frá því að fyrir hendi séu þau 650 megavött af orku, sem Alcoa þarf fyrir 340 tonna álver sitt á Bakka.
Þetta sést í frétt á visir.is með afar jákvæðri fyrirsögn um það að Landsvirkjun ætli að fjárfesta 1,5 milljörðum króna í rannsóknir vegna orkuöflunar á Norðausturlandi. Búið að eyða 9 milljörðum og ætlunin að fara í 10,5.
Bravó! Hrópa þá flestir. Allt fyrir álverið! Þetta er á fullri ferð.
En þegar fréttin er lesin nánar kemur þveröfugt í ljós sem líkja má við það að menn fái sýru í andlitið.
Yfirleitt blogga ég ekki um það sama á blogginu hér og á eyjan.is en geri undantekningu í þetta sinn og vísa í ítarlegri pistil minn þar.
Gróf niðurstaða fréttarinnar á visir.is er þessi: Í stað 150 megavatta við Þeystareyki og 150 megavatta við Kröflu, samtals allt að 300 megavött, eru nú í hendi 45 megavött við Þeystareyki og 50-60 megavött við Kröflu ef hægt verður að ráða við sýruvandamál í borholunum þar, sem enn hefur ekki fengist lausan á!
Með öðrum orðum: Í stað allt upp í 300 megavött er nú verið að tala um allt niður í 45 megavött!
Þetta má nú kalla að fá sýru í andlitið.
Segist styðja ríkisstjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég vil bæta því við að eitt er stórlega jákvætt við fréttina frá Landsvirkjun: Loksins er greint frá þessum málum eins og þau eru en ekki eins og menn sjá þau í rósrauðum hillingum óskhyggju skammgróðavonarinnar.
Það er þakkarvert og þó fyrr hefði verið.
Ómar Ragnarsson, 18.12.2010 kl. 01:15
ég er sammála þér Ómar að það er þakkarvert að landsvirkjun sé farin að greina frá staðreyndum
Ætli það sé nýi forstjórinn sem hafi komið með ferska vinda þarna inn??
Magnús Ágústsson, 18.12.2010 kl. 03:05
Er ekki dálítill munur á súrri gufu og gufu með hátt sýrustig? Er það ekki eiginlega þveröfugt? Fékk fólkið ekki frekar vítissóda í andlitið?
Annars er þetta afar athyglivert allt saman.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.12.2010 kl. 09:20
Tek undir með Þorvaldi Sigurðssyni um að maður er alltaf með fyrirvara þegar blaðamenn tala um sýrustig. Vökvi (í þessu tilviki) með hátt pH gildi er því basískari sem pH gildið er hærra, eins og allir vita sem eitthvað muna úr efnafræðinni. En burtséð frá þessu, þá þykir manni nauðsynlegt að hlustað sé á boðskap manna eins og Ómars, sem vara við því að við göngum of nærri orkuauðlindum okkar. Þegar er búið að ráðstafa til langs tíma á allt of lágu verði of miklu af hagkvæmustu virkjunarkostum landsins, bæði háhitasvæðum og ekki síst orku fallvatna. Það eru ekki nema örfá ár þangað til við þurfum að nýta mikla raforku til þess að knýja samgöngutæki okkar, fiskiskip og aðrar aðdráttarleiðir með einhverjum hætti. Að einhverju marki gætum við notað methane, en það er reyndar takmörkunum háð. Rafgreining til að vinna vetni sem orkubera er afskaplega orkufrek, svo dæmi sé tekið. Er ekki nauðsynlegt að horfa til lengri tíma en næstu fimm til tíu ára og gera langtímaáætlun um notkun þeirra orkulinda, sem við eigum þó eftir óráðstöfuðum?
Serafina (IP-tala skráð) 18.12.2010 kl. 09:44
Serafina, hvað heldur þú að LV sé verið að gera með vísinda og rannsóknarvinnu sinni á þessum háhitasvæðum? Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur, eins og þú, Ómar og fleiri virðast halda.
Í upphafi voru framkvæmdirnar við Kröfluvirkjun gagnrýndar sem "gæluverkefni" Júlíusar Sólness og annarra "draumóramanna". Í dag er Kröfluvirkjun hornsteinn þess mannauðs og þekkingar í jarðvarmavísindum, sem Íslendingar monta sig af í dag á tillidögum.
Ómar, þú segir: "Bravó! Hrópa þá flestir. Allt fyrir álverið! Þetta er á fullri ferð."
Ertu að vitna í nafngreinda aðila sem segja þetta? Ég held reyndar að þú sért að búa þetta til, Ómar. Fólkið á N-Austurlandi er að vonast eftir því að eitthvað jákvætt komi út úr þessum orkurannsóknum, þannig að lífskjör og atvinnustig batni. Ekkert annað.
Orkan á svæðinu hefur ekki verið seld ennþá, en Alcoa er vissulega áhugasamur orkukaupandi. Fleiri eru að skoða málið, sem er hið besta mál.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.12.2010 kl. 11:45
Alcoa trónir efst á forgangsröðunarlista um orkukaupendur á svæðinu. Númer tvö er kínverskt álfyrirtæki.
Með svo er og orkusannleikurinn sá, sem nú blasir við, komast engir aðrir að.
Ég er ekki að mæla gegn rannsóknum í pistli mínum og ekki gegn því að við stöndum okkur og séum í fararbroddi á heimsvísu í að nýta jarðvarma. Ég er hins vegar að vara við því að menn sjái allt í svo rósrauðum hillingum að þúsundur megavatta spretti upp af sjálfu sér.
Ég er einmitt að benda á að þessar sýrurannsóknir hefði átt að hefja miklu fyrr og áður en menn settu á blað sem gefinn hlut á annað hundrað megavatt.
Ef menn skoða Kröfluþáttinn fræga sem ég stjórnaði 1978 sjá menn að hið raunverulega Kröfluhneyksli var ekki hugsanlegar mútur Mitsubishi til Jóns G. Sólness og ekki það að byrjað var að bora og huga að nýtingu jarðvarma til raforkuframleiðslu heldur hitt, að farið var á svig við þær sjálfsögðu öryggis- og varúðarreglur sem Guðmundur Pálmason hafði lagt sem grundvöll að slíkri nýtingu.
Ég var ánægður með að hafa fengið þetta fram í þættinum en þess meiri urðu vonbrigðin þegar í ljós kom að engir fjölmiðlar, heldur ekki minni eigin, hafði á þessu hinn minnsta áhuga.
Þegar litið er til baka er auðvelt að sjá í þessari þöggun og afneitun var lagður grunnur að þeirri æðibunustefnu, sem síðan hefur færst í aukana á svipaðan hátt og bankabólan gerði.
Aðvörunarorð og rannsóknir Guðmundar Pálmasonar, Sveinbjörns Björnssonar, Braga Árnasonar, Jóhannesar Zoega, Stefáns Arnórssonar og fleiri hafa fallið í grýtta jörð og þess vegna er frétt Landsvirkjunarl tímamótafrétt hvað þetta varðar.
Ég og aðrir höfum verið og erum enn taldir bera ábyrgð á ástandi mála á Húsavík þegar hitt blasir við að æðibunustefnan hefur valdið og veldur enn þeim usla, sem er að komast á stig bankabólunnar.
Mér finnst það tímanna tákn að efni fréttar sem þjóðfélagið þaggaði niður fyrir 32 árum, skuli fyrst nú vera að komast upp á yfirborðið.
Ómar Ragnarsson, 18.12.2010 kl. 12:11
Hugsum okkur að æðibunustefnan hefði aldrei ríkt. Þá hefði stóriðjan ekki orðið eini kosturinn eins og strax varð, heldur verið leitað eftir minni kaupendum í stað þess að ráðstafa strax öllu til eins kaupanda.
Á meðan "gróðærið" ríkti hefði verið meiri von til þess að fá slík fyrirtæki inn í stað þess að ýta þeim í raun í burtu. Þá hefði kannski verið meiri von til þess að fá slíka fjárfestingu, hæfilega stóra og örugga, inn.
Ómar Ragnarsson, 18.12.2010 kl. 12:18
Og nú glymur fagnaðarboðskapur sveitarstjóra Norðurþings í eyjum þess efnis að "búið sé að tryggja orku fyrir fyrsta áfanga álvers á Bakka, eða 200 megavött.
Innifalið í því er að fundin verði ófundin lausn á því hvort hægt sé að ráða við sýrustig í borholunum sem eru undirstaða 50-60 megavatta orku við Kröflu.
200 megavött eru aðeins innan við þriðjungur af þeirri orku sem álver af nægri stærð þarf og 150 megavött, ef sýran er óviðráðanleg, aðeins innan við fjórðungur.
Samt er æðibunustefnan söm við sig og því fagnað að nú sé hægt að keyra af stað með álverið á fullu.
Hvar ætla menn síðan að krækja í 450-500 megavött sem standa út af? Skjálfandafljót að Aldeyjarfossi og fleiri fossum og Jökulsá á Fjöllum með Dettifoss og aðra fossa?
Ómar Ragnarsson, 18.12.2010 kl. 12:40
Það er ekki rétt hjá þér, Ómar, að stóriðjan sé eini kosturinn. Hún hefur hins vegar verið eini kosturinn sem eitthvað hefur komið út úr, undanfarin ár, en það hefur ekki alltaf verið svo. Flestir hljóta að muna eftir "Keilisness-áformunum" sem runnu út í sandinn.
Og þetta með "aðvörunarorðin", sem þér eru hugleikin í öllum framkvæmdum, Ómar.
Ég er nokkuð viss um að í hverjum einasta knerri víkinganna á landnámsöld, hafi fundist úrtölumenn sem sáu öll tormerki þess að ana út í óvissuna. Afsprengi þessara úrtölumanna, finnast enn meðal þjóðarinnar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.12.2010 kl. 12:48
Að baki siglinganna til Íslands lá tveggja alda þrógun og reynsla víkinga sem sigldu hægt og bítandi í sífellt lengri ferðir, en óðu ekki í fyrstu ferðina út á úthafið beint í vestur í átt til Ameríku.
Fyrstu siglingarnar voru vegna frétta frá sæförum, sem hröktust af leið og sáu Ísland.
Eftir að Ísland var fundið var það ekki spurningin um hvort, heldur hvænær Grænland fyndist, því að stysta leið þangað er mun styttri en leiðin til Færeyja.
Að jafna kenningum okkar virtustu jarðvísindamanna og kunnáttumanna um jarðvarma á borð við Guðmund Pálmason, Braga Árnason, Jóhannes Zoega, Sveinbjörn Björnsson, Stefán Arnórsson og fleiri við úrtölumenn er aldeilis kostulegt.
Og erum menn búnir að gleyma því hvað þeir voru kallaðir, sem gerðu athugasemdir við banka- og græðgisbóluna miklu? Jú, þeir voru kallaðir úrtölumenn, öfundarmenn, kverúlantar, öfgamenn og sérvitringar og einum þeirra var ráðlagt að fara í endurhæfingu í sérgrein sinni.
Ómar Ragnarsson, 18.12.2010 kl. 17:57
Hefði nú ekki mátt velja smekklegri fyrirsögn Ómar? Ég hélt að pistill þinn fjallaði um sýruárasir á konur, sem er einn af hryllilegustu glæpum sem til eru.
Jón Baldur Lorange, 18.12.2010 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.