Einstakur heiðursmaður.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi strax á menntaskólaárum mínum að koma oft í heimsókn til Gylfa Þ. Gíslasonar á Aragötunni vegna vináttu minnar við Þorstein son hans og aðra jafnaldra okkar í skóla sem mynduðu ákveðna "klíku". 

Mér varð starsýnt á bókasafn þessa mikla menntamanns og heimsborgara, sem veitti glögga mynd af umfangsmikilli þekkingu hans sem menntamanns og heimsborgara. 

Víðsýni hans skein af bókakostinum og má sem dæmi nefna að ég, ástríðudellunörd varðandi bíla, rak augun í stóra erlenda bílabók með upplýsingum um alla bíla, sem þá voru framleiddir í heiminum. 

Þetta var á þeim árum sem ströng gjaldeyrishöft voru og bílainnflutningur sáralítill og svona bækur sá maður hvergi. 

Gylfi var menntamálaráðherra í 15 ár og annan eins menntamálaráðherra hefur þjóðin aldrei átt. 

Hann var svo háttvís og kurteis að með ólíkindum var.

Þegar ég byrjaði að skemmta komst ég brátt að því að hann var bókstaflega á öllum samkomum, sem skólar, menntastofnanir og menningarfélög héldu, stundum bæði á föstudagskvöldum og laugardagkvöldum. 

Það þýddi að hann varð að hlusta á prógramm mitt svo tugum skipti, áður en ég breytti næst til. 

En það brást aldrei að hann hló alltaf á sömu "réttu" stöðunum þótt hann væri auðvitað búinn að læra prógrammið utanað! 

Ekki hló hann minnst þegar ég gerði hlífðarlaust grín að honum, til dæmis með því að syngja um tíðar utanferðir hans undir laginu "Inn og út um gluggann" "...inn og út úr landi / og alltaf sömu leið." 

Á tímabili voru áberandi auglýsngar á nýjum Gilette-rakblöðum sem hétu Super-Gilett. Ég var fljótur að nýta mér það með tilbúinni auglýsingu um "Gylfa-súper-Gylfa". 

Og alltaf hló hann af sömu kurteisinni að öllu saman og ekki hvað minnst þegar ég hermdi eftir honum með því að fara með afbökun á "Ísland, farsælda frón" þar sem ég dró ríkisstjórn hans sundur og saman í háði. 

Ég tók langt viðtal við hann aldraðan þegar ég gerði sjónvarpsþáttinn "Takk" árið 1995 um afhendingu handritanna og nýtt mat á Dönum sem "nýlenduherrum" á Íslandi. 

Enginn einn maður átti eins mikinn þátt í því hvernig það mál leystist eins og Gylfi. 

Í tengslum við viðtalið sem er geymt í heild, þótt aðeins lítið brot hafi verið sýnt, röbbuðum við heilmikið um málið og þá sagði Gylfi mér í trúnaði frá tveimur einkasamtölum við íslenska stjórnmálamenn sem hann hafði átt og mér fannst svo merkileg að ég vildi endilega fá hann til að segja það fyrir framan myndavélina. 

Gylfi harðneitaði því með þessum orðum: "Þetta var tveggja manna tal og nú er annar aðilinn látinn. Þú lofaðir mér trúnaði og verður að halda það loforð. Þetta sagði ég þér aðeins til þess að þú glöggvaðir þig betur á málinu og öllum aðstæðum. Ég vitna aldrei í tveggja manna tal nema með samþykki þess sem ég talaði við." 

Rök Gylfa voru skýr. Trúnaðarsamtalið byggðist á því að trúnaður yrði haldinn. Annars hefði hann aldrei sagt mér þetta. 

Ég var svo ákveðinn í að halda þennan trúnað að nú er ég búinn, meðvitað eða ómeðvitað, að gleyma því sem Gylfi sagði. 


mbl.is Brjóstmynd af Gylfa afhjúpuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Tveir flottir!

Björn Birgisson, 27.12.2010 kl. 21:36

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Gylfi Þ. Gíslason var einstakur maður og ógeymanlegur. Ég geymi margar minningar um hann, -  allar góðar. Hann var  heiðarlegur  stjórnmálamaður. Slíkir eru ekki á hverju strái nú um stundir. Líklega hefur  samstarf hans og  Bjarna Benediktssonar verið heilladrýgsta og heiðarlegasta samstarf tveggja flokksformanna á Íslandi á liðinni öld.

Eiður Svanberg Guðnason, 28.12.2010 kl. 10:39

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

 Það til marks um heiðarleika og drengskap Gylfa eru eftirmál þess að hann lenti í alvarlegum persónulegum deilum við Ólaf Thors vegna mjög ósmekklegra og meiðandi orða Ólafs í hans garð sem urðu til þess að lögð var fram tillaga á Alþingi um að svipta Ólaf þinghelgi svo sækja mætti hann til saka fyrir meiðyrði.

Tillagan var felld og málið fjaraði út. Tíu árum síðar myndaði Ólafur stjórn með Gylfa innanborðs og unnu báðir að því af fullum heilindum að marka þá efnahagsstefnu, sem var grundvöllur Viðreisnarinnar. 

Ómar Ragnarsson, 28.12.2010 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband