28.12.2010 | 09:56
"Snowstorm".
Enn sjáum við ensku vaða uppi í íslensku máli varðandi fyrirbæri, sem ættu að vera fólki töm á tungu í landi okkar. "Snowstorm" er þýtt hrátt sem snjóstormur eða snjóbylur.
Þar á ofan er talað um 50 sentimetra "jafnfallinn" snjó í New York, en snjór getur ekki orðið "jafnfallinn" í snjó"stormi" því að þá dregur hann í skafla. Jafnfallinn snjór fellur aðeins í logni eða litlum vindi.
Íslenska á fjölda orða sem getur lýst því fyrirbæri sem íslenskir fjölmiðlar tönnlast nú á að lýsa með enskum orðum. Um aldir hefur verið talað um hríð eða snjókomu og sé hríðin eða snjókoman mikil kallast það stórhrið.
Hvers vegna er nú verið að benda á þetta hér? Það er vegna þess að hjá nágrannaþjóðunum Grænlendingum og Íslendingum setja snjór og snjókoma mikið mark á tilveruna og besta dæmið um þessa sérstöðu er málfarið, sem af því hlýst.
Mér skilst að í grænlensku sé ekkert orð yfir snjó heldur ótal orð yfir mismunandi tegundur af snjó.
Á íslensku eru "hríð", "stórhríð" og "ofankoma" hliðstæða við hið grænlenska orðafar.
Sérstaða þjóða og lífsbarátta þeirra eru peninga virði þegar kemur að því að laða ferðamenn til landa og láta þá hrífast af og lifa sig inn í kjör íbúanna og sögu þeirra. Einn þáttur í því er að benda á það hvernig aðstæður hafa mótað orðafar landsmanna. Þess vegna er óþarfi að taka upp ensk orð yfir íslensk fyrirbæri úr því að íslensk tunga á sjálf hin ágætustu orð yfir það sem segja þarf.
"Bylur" er eitt af hinum íslensku orðum yfir hríð. Það þarf ekki að bæta neinu við og kalla þetta "snjóbyl" til þess að þýða enska orðið "snowstorm".
Hálfur metri af jafnföllnum snjó í Central Park | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hárrétt Ómar. Hér er engu við að bæta.
Sigurbjörn Sveinsson, 28.12.2010 kl. 10:40
Það er veðurstöð í Central Park. Á veðurstöðvum er alltaf reynt að mæla jafnfallna snjóhulu sem er reyndar erfitt en samt reynt á morgni hverjum þrátt fyrir vind. Það er hér átt við. En þetta með snjóbylinn er ótrúleg orðafátækt.
Sigurður Þór Guðjónsson, 28.12.2010 kl. 11:04
Er ekki úrkomumagnið umreiknað í "jafnfallin snjó", jafnvel þó enginn sé jafnfallinn snjórinn?
Nafnorðið; "bylur" er væntanlega dregið af lýsingarorðinu "bylur",samanber; regnið bylur (þt. buldi) á rúðunni. Þó er aldrei talað um "regnbyl", heldur er notað orðið slagveður. En væri rangt að segja "regnbylur", jafnvel þó það sé ekki venja í okkar ástkæra, ylhýra?
Mér finnst reyndar ekkert að því að nota orðið "snjóstormur", þó það hafi ekki verið venja í íslensku máli hingað til. Íslenskan er einmitt svo dásamleg og rík, vegna þess að menn hafa verið ófeimnir að smíða ný orð, jafnvel þó góð og gild orð séu til um viðkomandi hlut eða fyrirbrigði.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.12.2010 kl. 12:19
Þó almennt megi segja, að fjölbreytnin sé dyggð eins og skáldið orðaði svo vel, þá er óþarfi að leita í enskuna til að auðga íslenskuna. Það er eins og að fara í geitarhús að leita ullar. Atkvæðafjöldinn mælir að sínu leyti með byl frekar en snjóstormi.
Bylur hefur sérstaka merkingu sem tengist hvorki regni né sandi. Enskir tala um sandstorm en við um sandfok. Þarna er íslenskan strax dyggðugri en enskan og fjölbreytnin í fyrirrúmi. Svo er líka stormur í íslensku tjáning um vind og styrkleika hans en bylur um snjó og skyggni. "Með storminn í fangið óðu þeir skaflana; það var hörku bylur og hríðin svo þétt að ekki sá út úr augum."
Látum snjóstorminn sigla.
Sigurbjörn Sveinsson, 28.12.2010 kl. 13:18
Bylur hefur sérstaka merkingu sem tengist hvorki regni né sandi. segir Sigurbjörn.
Sandbylur er vel að merkja til í orðabókum
Svanur Gísli Þorkelsson, 28.12.2010 kl. 13:25
Kafaldsbylur hljómar vel.
Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 28.12.2010 kl. 13:51
Orðabækur hafa þá náttúru Svanur að birta fleira en gott þykir.
Sigurbjörn Sveinsson, 28.12.2010 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.