30.12.2010 | 21:05
Sprettharði Maraþonmaðurinn.
Ég efast um að nokkur íslenskur ráðherra hafi í sögu lýðveldisins tekið að sér eins erfitt verkefni og Steingrímur J. Sigfússon gerði eftir Hrunið. Þetta var ekki bara verk fyrir skorpumann, heldur mann sem hefur þar að auki endalaust úthald.
Steingrímur lagði af stað á fullum spretti í pólitískt hlaup sem ekki sá fyrir endann á og verður helst líkt við Maraþonhlaup á spretthlaupshraða.
Menn getur greint á um ýmsar erfiðar ákvarðanir sem hann hefur orðið að taka, ekki síst ákvarðanir sem honum sýndist réttar í þeirri stöðu sem mál voru þegar voru teknar, en hafa síðan orkað tvímælis þegar aðstæður hafa breyst í aðra veru en Steingrímur óttaðist þegar hann tók þessar ákvarðanir.
En þessi ótrúlega seigi og harði stjórnmálajaxl virðist fáum líkur.
Í áratugi var embætti fjármálaráðherra talið eitthvert það erfiðasta og vanþakklátasta starf sem stjórnmálamaður gæti tekið að sér og í samsteypustjórnum fóru oddvitar flokka ekki í þetta embætti, heldur var hefð fyrir því að þeir yrðu utanríkisráðherrar.
Þessi hefð varð áreiðanlega oft til tjóns fyrir ríkisstjórnir, því að með henni kúpluðust viðkomandi formenn að miklu leyti út úr hringiðunni hér heima.
Kjarkmaðurinn Steingrímur lét það ekki hræða sig að eðlis málsins vegna væri fjármálaráðherraembættið í kjölfar Hruns jafngildi hættunnar á pólitísku sjálfsmorði.
Hann tók slaginn og að sjálfsögðu er hann fyrir vikið umtalaðasti stjórnmálamaðurinn í fjölmiðlum og í umræðunni í þjóðfélaginu.
Menn geta verið ósammála Steingrími í ýmsu en þessi burðarás ríkisstjórnarinnar minnir á fornmenn sem voru ekki einhamir, heldur komu sér þar fyrir í orrustum þar sem bardaginn var harðastur.
Þegar rykið hefur loksins sest eftir atganginn hygg ég að margir muni sjá Steingrím í nýju ljósi og meta dugnað hans á þeim tíma sem allt var að fara fjandans til eftir mestu ófarir Íslendinga á síðari tímum.
Mest fjallað um Steingrím | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rétt og vel mælt Ómar.
hilmar jónsson, 30.12.2010 kl. 21:21
Góður pistill, Ómar.
Steingrímur J. Sigfússon er mikilhæfasti stjórnmálamaður þjóðarinnar-á okkar tímum. Hann er ekki aðeins að takast á við risavaxin vandamál Hrunsins-að auki eru hælbítarnir í eigin flokk að gera honum verkið enn þungbærara.
Það þarf oft erlenda menn til að skynja mikilhæfa stjórnmálamenn-okkar þjóðar.
Lee Buchheit aðalsamningamaður okkar varðandi Icesave deiluna lýsti mikilli aðdáun á Steingrími J. Sigfússyni þegar hann hélt magnþrungna ræðu hjá AGS varðandi þvinganir á Islendinga við afgreiðslu lána ASG til okkar. Málflutningur Steingríms réð úrslitum - okkur í vil.
Steingrímur J.Sigfússon er tvímælalaust maður ársins á Íslandi....
Sævar Helgason, 30.12.2010 kl. 21:35
"Menn getur greint á um ýmsar erfiðar ákvarðanir sem hann hefur orðið að taka, ekki síst ákvarðanir sem honum sýndist réttar í þeirri stöðu sem mál voru þegar voru teknar, en hafa síðan orkað tvímælis þegar aðstæður hafa breyst í aðra veru en Steingrímur óttaðist þegar hann tók þessar ákvarðanir."
Ég leyfi mér að vekja athygli á því að ofangreind orð bloggara bera í sér ærandi enduróm af einhverju sem áður hefur verið sagt. Ef fleira fólk tekur undir þessi orð er ekki spurning hvort heldur hvenær fjármálaráðherra verður kallaður fyrir landsdóm fyrir embættisafglöp. Sleppi hann við ákærur höfum við dæmi um hræðilega mismunun gagnvart dómsvaldinu, byggða á því hver heldur um tauma í stjórnarráðinu.
Flosi Kristjánsson, 30.12.2010 kl. 22:31
Ómar...
Þú virðist að öllu gleyma "gullaldarárum" vinstri manna 1980-89 þar sem verðbólgan var að meðaltali 38%...
Þú eins og Nágrímur og Norn virðast byggja allt á því að allir sem kjósi í dag séu annaðhvort vitskertir eða dauðir í dag....
ASNI!
Óskar Guðmundsson, 30.12.2010 kl. 23:09
Það er svona fólk eins og Óskar sem afhjúpa alveg einstaklega vel subbulegt eðli náhirðarinnar.
hilmar jónsson, 30.12.2010 kl. 23:14
Staðan, þegar Steingrímur ákvað að setja af stað samninga um Icesave var þannig, að þjóðirnar, sem gátu lánað okkur, gerðu slíka samninga að skilyrði fyrir því að við fengjum þessi lán og lánin frá AGS.
Steingrímur stóð frammi fyrir öðru hruni ef engin hjálp eða lán fengjust.
Menn tala eins og að við hefðu komist af án þessara lána, jafnvel sömu menn og sögðust geta fengið þúsund milljarða lán hjá Norðmönnum og lán hjá Rússum, sem síðar reyndust tálvonir.
Forseti Íslands heldur því fram í viðtali í dag að vendipunkturinn í "áróðursstríðinu" í þessu máli hafi orðið á ráðstefnu í Davos þegar breskur fréttamaður tók viðtal við hann og hljólaði síðan beint í ensku fulltrúana þar.
Það gerðist mun síðar og var ekki hægt að sjá fyrir.
Á sínum tíma bloggaði ég ákaft um það að þessu "áróðursstríði" þyrfti að sinna af miklu meiri krafti en gert var og að við ættum að halda fram "fair deal", þ.e. sanngjarnri lausn.
Á okkar tímum vinnast eða tapast stríð oft í fjölmiðlum og er Vietnamstríðið eitt besta dæmið um það.
Ómar Ragnarsson, 30.12.2010 kl. 23:20
Öllum ríkisstjórnum á tímabilinu 1973-1990 mistókst herfilega að ráða við verðbólguna og ég hef ekkert gleymt vinstri stjórnunum 1971-74 og 1978-79 í því efni.
Óskar er hins vegar óheppinn og lítt minnugur þegar hann velur árin 1980-89 sem tímabil vinstri stjórna, því að Sjálfstæðismenn voru í "hægri stjórn" 1983-87 og höfðu stjórnarforystu 1987-88.
Raunar var GunnarThoroddsen forsætisráðherra 1980-83 en sú stjórn var þó með vinstri slagsíðu.
Í lok áratugarins tók við "vinstri stjórn" og viti menn: Í stjórnartíð hennar tókst í fyrsta sinn í hálfa öld að stöðva verðbólguna!
Það var þó fyrst og fremst stórhuga forystumönnum verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda að þakka að þetta tókst en stjórnlægni Steingríms Hermannsonar hafði sitt að segja.
Ómar Ragnarsson, 30.12.2010 kl. 23:32
Ómar, þetta er einhver aumasta færsla sem ég hef lesið eftir þig. Mér leið eins og þegar ég heyri eða les lofræður um einræðisherra fyrri tíma.
Steingrímur hélt ítrekað því fram að einn helsti glæpur í íslenskri efnahagsögu væri einkavæðing bankanna. Ég gerði mjög alvarlegar athugasemdir við framkvæmd þeirrar einkavæðingar. Á sama tíma fer hann sjálfur í einkavæðingu bankanna sem er mun alvarlegri en fyrri einkavæðing. Bæði að nú var um einkavæðingu til erlendra útrásarvíkinga og einnig að einkavæðing nú kom í veg fyrir að hægt væri að leiðrétta mjög alvarleg brot fyrri banka.
Steingrímur gerðist sekur um að kerfast þess að íslenska þjóðin samþykkti fáránlegan Icesave samning. Steingrímur sagðist bera ábyrgð. Jóhanna sagði í sjónvarpsviðtali að eftirá væri ljóst að betur hefði verið að faglega hæfur aðili hefði verið valinn í samningastjórnina.
Þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi að Ómar Ragnarson er orðið gamalmenni. Ég harma það.
Sigurður Þorsteinsson, 31.12.2010 kl. 00:03
Dugnaður er ekki sama og hæfi. Steingrím skortir hæfi.
Billi bilaði, 31.12.2010 kl. 00:33
er mikið sammála þessu sem Sigurður segir,og jafnvel Billi bilaði !!!!/Kveðja
Haraldur Haraldsson, 31.12.2010 kl. 00:55
Hjartanlega sammála þér Ómar, Steingrímur er búinn að gera kraftaverk, aðeins lýðskrumarar eða einfaldir aðtrúa sauðir halda öðru fram.
Guðlaugur Jónasson (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 02:04
Þetta er algerlega rétt hjá þér, Ómar.
Ég stóð lengir í þeirri meiningu að Steingrímur væri eilífðarstjórnarandstæðingur og vildi vera það. Vildi bara vera á móti og gagnrýna.
En hann hefur heldur betur sannað sig. Þegar mesta áskorun sem nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur staðið frammi fyrir kom fram hikaði hann ekki og hefur sannað að hann er raunsær og þolgóður á ögurstund. Hann lætur hvorki svívirðingar sem dunið hafa á honum, né hælbítana í eigin flokki (sem hafa reynst vera eilífðarstjórnarandstæðingar) stöðva sig.
Steingrímur J. Sigfússon er tvímælalaust maður ársins. Ég vildi að ég hefði einhvern tímann kosið hann.
Gísli (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 02:43
Fín grein Ómar, en af lestri athugasemdanna lærðist mér að Sigurður Þorsteinsson er lítilmenni.
Pétur Sig, 31.12.2010 kl. 09:38
Maraþon er nokkuð sem ég þekki lítillega, ég og konan mín hlaupum bæði okkur til heilsubótar. þegar maður fer einn út að skokka getur maður farið hvert sem er og það er ekkert notalegra en að fara heiðmerkurhringinn í logni og frosti á veturna. þegar maður keppir í hlaupum þarf maður hinsvegar að vita í hvað átt maður á að hlaupa og síðan þarf maður að rata hringinn til að geta át von á árangri. Steingrímur hljóp í vitlausa át í startinu og eftir að forsetanum tókst að snúa honum við hefur honum gengið illa að rata til baka.
Á hann að fá hrós fyrir viðleitni ? Ef hann væri fimmára þá held ég að það væri rétt en hann er ekki fimmára.
Guðmundur Jónsson, 31.12.2010 kl. 09:38
Góð grein. Ég er sammála hverju orði. Þú ert umburðarlyndur maður , Ómar. Hér fyrir ofan eru nokkrar athugasemdir sem ég hefði hiklaust eytt.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 09:53
Ég er hjartanlega sammála þessum pistli.
Guðmundur Guðmundsson, 31.12.2010 kl. 10:36
kannski hann hafi gert einhver kraftaverk. verðbólgan minni en um langa hríð.
lítur vel úr á vef Seðlabankans.
ég er þó ekki að sjá nein kraftaverk í buddunni minni.
það er vitað að menn skattleggja sig ekki út úr kreppu. það er jafn fáránlegt og að ætla að rétta við hag heimilisins með að skera niður vasapeninga barnanna.
Joð er ekki að fatta það.
Brjánn Guðjónsson, 31.12.2010 kl. 11:10
Ómar, ég er sammál Sigurði Þorsteinssyni. Þessi lofræða er frekar aulaleg.
Segjum sem svo að Ísland hefði ekki tekið þessi lán, hvað ættu útlendingar að koma með? Vopnaða árás á Ísland? Útilokun frá ESB? Meina Íslendingum að fá matvörur?
Fáránlegar hugdettur, í einu orði sagt ... lánið var fengið til að bjarga bönkunum, og þeim ríku ... bjarga þeim sem stofnuðu til hrunsins, á kostnað fólksins.
Steingrímur talaði og talaði um að ná olíu úr smugunni ... ekki er byrjað á umræðum enn. Tómt tal, sem ekki var annað en loftbóla.
Gamla ríkisstjórnin var kanski gölluð, en núverandi ríkisstjórn eru bara hrægammar sem gæða sér á hræinu Íslandi. Það er ekkert til að hrópa húrra fyrir, enda hvorki olía né icesave komið í höfn.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 12:11
Steingrímur er auðvitað umdeildur og ýmislegt sem hann gerir kallar á hörð viðbrögð.
Ætti ég minn uppáhaldsstjórnmálamann (hætt í því) þá væri Steingrímur J. þar fremstur í flokki.
Takk fyrir þennan pistil Ómar.
Jenný Anna Baldursdóttir, 31.12.2010 kl. 12:15
Var það kjarkur af Steingrími að krefjast þess af þjóð sinni að samþykkja nauðungarsamninga Breta og Hollendinga Ómar? Hvað með úrræðaleysi þessa sama ráðherra í skuldamálum heimilianna? Hvað með skattagleðina? Þetta er afar sérkennileg lofræða til kvalara síns. Meint úthald, harka og kjarkur er ekki það sama og skynsemi, útsjónarsemi og þjóðarást sem þessum sama ráðherra virðist skorta eins og augljóst var í öllu Icesave klúðrinu.
Guðmundur St Ragnarsson, 31.12.2010 kl. 12:47
Sagan mun dæma störf Steingríms J. Sigfússonar.
Það kæmi mér samt ekki á óvart ef dómurinn yrði honum í vil.
Enginn íslenskur stjórnmálamaður hefur tekið að sér annað eins verkefni og þessi maður.
Ég kýs frekar að falla með þessum foringja en ganga í lið með hælbítum hans.
Óli minn, 31.12.2010 kl. 13:18
Svona óháð pistlinum hjá Ómari sem mér finnst reyndar góður, þá verður maður eiginlega dapur á því að lesa jafn ömurleg komment og Sigurðar Þorsteinsson býður hér síðuhafa upp á.
hilmar jónsson, 31.12.2010 kl. 14:02
Já og gleðilegt komandi ár Ómar. Ég bind miklar vonir við þig á stjórnlagaþingi.
hilmar jónsson, 31.12.2010 kl. 14:13
Ómar Ragnarsson er ólkindartól og það er ekki annað hægt en að láta sér þykja vænt um hann, en að hann hafi alltaf rétt fyrir sér skrifa ég ekki undir frekar en ýmsar kröfur fláráðsins í Bretavinnunni.
Hafðu nægju og gæfu á nýju ári Ómar og láttu gott af leiða svo sem oft áður.
Hrólfur Þ Hraundal, 31.12.2010 kl. 15:43
Maður þarf ekki að vera sammála Ómari. Hann skrifar oft afar vel og hugsar, nokkuð sem sumir í athugasemdadálkinum ættu að taka sér til fyrirmyndar. Ég þekki mann sem tók að sér að stýra fyrirtæki. Sá var afburðagóður blikksmiður, sá besti á gólfinu. Fyrirtækið fór hins vegar á hausinn vegna þess að maraþonmaðurinn var í öðrum verkefnum en því sem hann var bestur í. StjÓrnun fyrirtækisins leið fyrir framkvæmdastjórann og á gólfinu gekk allt á afturfótunum vegna þess að verkstjórann vantaði.
Gleðilegt ár, Ómar, þú ert einlægur. Einu mistök þín á árinu 2010 voru þau að reyna við Fimmvörðuháls í upphafi goss.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 31.12.2010 kl. 18:26
Ekki veit ég hvað þú átt nákvæmlega við, Sigurður, varðandi Fimmvörðuháls. Ef þú átt við það að ég fór í humátt á eftir leiðangri vísindamanna, sem festust, og ég fór niður af hálsinum, til þess að kalla á hjálp handa þeim, skil ég ekki alveg hvað þú ert að fara.
Varðandi Steingrím dettur mér ekki í hug að halda því fram að hann sé eitthvert óskeikult ofurmenni. Ég hef sjálfur á bloggi mínu sett spurningarmerki við það að eyða milljörðum í að láta ríkið kaupa fyrirtæki í samkeppni á sama tíma og fyrirtækin, sem kepptu við þau og sýndu meiri fyrirhyggju, fengu ekki að njóta þess.
En ég hygg að þrátt fyrir að Steingrímur og margir aðrir hafi í upphafi gælt við vonir um að við gætum komist út úr þessu án utanaðkomandi hjálpar, hafi Steingrímur séð þegar hann komst í tæri við vandann í návígi, séð að ekki varð hjá því komist að fá hjálp.
Bjarni telur að við hefðum ekki þurft að óttast neitt, ekki árás á landið eða að fá ekki inngöngu í ESB, ekki skort á matvörum.
Í þessu mati felst það að Hrun upp á hundruð og þúsundir milljarða sem steyptust yfir okkur, væri lítið mál.
Mér finnst skrítið að sjá suma, sem halda svona fram, gagnrýna harðlega óhjákvæmilegan niðurskurð á ríkisútgjöldum og í sömu andrá halda því fram að betra hefði verið að fá enga erlenda hjálp, en það hefði að sjálfsögðu þýtt margfalt stærri niðurskurð.
Íslenskt efnahagslíf fór til fjandans vegna græðgisfíknar sem byggðist á firringu, afneitun og stigvaxandi brjálæði af svipuðum toga og áfengisfíkn eða fíkniefnafíkn.
Firring fíkilsins birtist í því að hann afneitar allri hjálp og telur sig geta ráðið við drykkjuna án "utanaðkomandi afskipta".
Ómar Ragnarsson, 31.12.2010 kl. 21:46
Ekki ætla ég Steingrími það að vera heimskan eða óduglegan. En hann nýttist virkilega betur í einhverju öðru en hann er í. t.a.m. bergsýnatöku.
Og sjálfsagt væri það betra starf en það sem hann kaus sér.
1 stk. gjaldþrota þjóðfélag.
En....það verður aldrei rétt við með sköttum. Það væri nær að grafa eftir gulli við Mógilsá.
Jón Logi (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 09:53
Þetta er einhver undarlegasta færsla sem ég hef lesið eftir þig. Ég velti fyrir mér tilgangi þínum með þessum lofsöngi.
Er fólk ekki að gera sér grein fyrir því hvar við værum stödd ef IceSave samningurinn Stingríms og Svavars hans hefði orðið? Fólk kvartar hér yfir niðurskurði, uppsögnum, skattahækkunum og lakar þjónustu. Hvernig væri þetta ef Steingrímur hefði ekki verið stoppaður? Þjóðin kom í veg fyrir að hann setti okkur algjörlega á hausinn, sem hefði orðið mesta glapræði og embættismistök sögunnar. Vissulega er hann duglegur og góður ræðumaður en algjörlega óhæfur í því hlutverki sem þjóðin í bræði kom honum í.
Halla Rut , 1.1.2011 kl. 18:03
Góð færsla og sanngjarnt mat á SJS. En margt er dusilmennið í netheimum.
Guðl. Gauti Jónsson (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 19:59
Færsla nr 14 segir allt sem segja þarf um Steingrím J, hann hefur hlaupið maraþonið í öfuga átt allt síðan hann settist í stól ráðherra og allt sem hann hefur gert er í engu samræmi við það sem hann talaði um áður. Vel má vera að hann sé duglegur og allt það, en ef dugnaðurinn felst í því að koma þjóðinni á hausinn vildi ég frekar að hann sæti bara heima í leti og borðaði súkkulaði, en það ku jú vera róandi.
(IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.