31.12.2010 | 16:44
Sælustu augnablikin.
Líklega eru sælustu augnablik íþróttamanna þau þegar þeir sigrast á erfiðleikum og vinna sigur í kjölfarið eins og gerðist nú í Gamlárshlaupi míns gamla, góða félags, ÍR.
Ef Finninn Lasse Viren hefði unnið sigur í 10 kílómetra hlaupi á Ólympíuleikunum 1972 hefði það farið í sögubækurnar eins og hver annar Ólympíusigur og horfið inn í sæg slíkra sigra.
Í staðinn varð hlaup Virens eitt af eftirminnilegustu atvikum Ólympíusögunnar vegna þess að þegar hann hafði skapað sér forystu í lok hlaupsins, varð hann fyrir því óhappi að detta kyllflatur.
Þegar hann stóð upp voru skæðustu keppinautar hans, sem þá voru meðal allra fremstu langhlaupara heimsins, á bak og burt.
En Viren gafst ekki upp heldur stóð upp og tók sprettinn þótt ósigur blasti við. En hann barðist og smám saman dró hann keppinauta sína uppi, hvern af öðrum, og endaði hlaupið með því að koma fyrstur í mark.
Ég held að enn sælli stund sé sú þegar svona gerist í boðhlaupi, því að þá er þetta ekki aðeins spurning um einstaklingsárangur heldur útkomuna fyrir boðhlaupssveitina og félagið eða þjóðina eftir atvikum.
Ég var svo lánsamur að upplifa slíkt í 4x100 metra boðhlaupinu á drengjameistaramóti Íslands 1958 og fá á því samanburð að sigra í einstaklingsgreinum eða í blöndu af einstaklingsgrein og hópíþrótt, sem boðhlaupið er.
Mér var falið að hlaupa lokasprettinn fyrir ÍR en þegar ég tók við keflinu voru Ármenningurinn Grétar Þorsteinsson, síðar forseti ASÍ, og KR-ingurinn Úlfar Teitsson, á undan mér.
Mér tókst að draga þá uppi, og enn þann dag í dag minnist ég þeirrar ógleymanlegu tilfinningar að horfa á boðhlaupskeflið fyrir framan sig í hverju skrefi og láta það líkt og toga sig áfram til sigurs.
Svona augnablik hljóta að vera sælustu augnablikin í íþróttunum.
Ég meiddist illa á ökkla skömmu seinna og gutlaði aðeins nokkrar vikur í senn við spretthlaup sex árum síðar, sumrin 1964 og 1965.
Á meðan höfðu þeir Grétar og Úlfar haldið áfram að æfa, keppa og bæta sig, og komst Grétar í fremstu röð 400 metra hlaupara landsins og Úlfar náði best 11,1 í 100 metrunum ef ég man rétt.
Þeir voru báðir hættir að keppa 1964 og 1965 þannig að aldrei reyndi með okkur aftur.
Óska íþróttafólki og öllum þeim sem etja kappi við viðfangsefni lífsins árs og friðar.
Nýtt met þrátt fyrir fall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gleðilegt ár, Ómar minn, og hafðu það ætíð sem best!
Þorsteinn Briem, 31.12.2010 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.