6.1.2011 | 20:43
Við fengum handritin, þeir hótelið.
Það hefur gengið á ýmsu í samskiptum Dana og Íslendinga í gegnum aldirnar. Löngum var það Íslendingum þyrnir í augum grunur um að Danir arðrændu okkur, göturnar í Kaupmannahöfn væru lýstar upp með íslensku lýsi og ýmsar byggingar og mannvirki byggð fyrir gróða einokunarkaupmanna af verslun á Íslandi.
Sjálfstæðisbarátta Jóns Sigurðssonar byggðist á því að krefjast endurgreiðslna frá Dönum sem Íslendingar ættu inni hjá þeim.
Þegar Árni Magnússon safnaði íslensku handritunum og flutti til Kaupmannahafnar var það eðlileg ráðstöfun því að engar aðstæður voru á Íslandi til að sinna þessum verðmætum eða varðveita þau.
Í kjölfar stofnunar lýðveldis á Íslandi varð til það sem kallað var "handritamálið" og þá gerðu Danir það, sem ekki er vitað til að nokkur önnur þjóð hafi gert í hliðstæðu máli, að þeir afhentu Íslendinum þau að langmestu leyti.
Það hlakkaði dálítið í mörgum Íslendingum þegar útrásarvíkingar fóru að kaupa sum helstu tákn Kaupmannahafnar eins og Magasin De Nord og Hótel D´Angleterre og fannst sumum að nú væri verið að hefna fyrir maðkaða mjölið, götulýsinguna í Höfn og það sem þar var reist fyrir peninga, sem fengist hefði fyrir arðrán á Íslandi.
En nú hefur þetta gengið til baka og sem betur fer höldum við þó handritunum og leikar standa sæmilega jafnir: Við fengum handritin aftur og þeir fá Hótel D´Angleterre og fleiri eignir sínar til baka.
Hótel D'Angleterre selt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.