11.1.2011 | 09:39
Eðlileg spurning fréttamanns.
Það var rétt hjá Ögmundi Jónassyni í snubbóttu sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, að blaða- og fréttamenn eiga að leita eftir því að kafa ofan í málefnin sem rædd eru fundum hjá stjórnmálaflokkunum.
Hins vegar ætti hinn gamalreyndi fyrrum fréttamaður að vita hvaða orð notuð eru á erlendum málum um íslenska hugtakið frétt.
Orðin eru t. d. "news" og "nyheder", þ. e. eitthvað sem er nýtt í málum, sérstakt eða óvenjulegt.
Í því tilfelli, sem um ræddi í gærkvöldi, var það nýtt í þessu máli, að fyrir lá yfirlýsing þriggja þingmanna VG um það að þeir vildu að formaður þingflokks VG bæðist afsökunar á ummælum hans í þeirra garð.
Slíkt er fátítt í íslenskum stjórnmálum og því fullkomlega eðlilegt hjá fréttakonu RUV að spyrja um þetta efni.
Ögmundur atyrti hins vegar fréttamanninn fyrir að spyrja þessarar eðlilegu spurningar og taldi fréttamatið óeðlilegt.
Það er mjög skiljanlegt að deilur, eins og þær sem nú eiga sér stað í VG og hafa kostað erfið fundahöld sem senn má fara að telja í tugum klukkustunda, taki á taugar þeirra sem þurfa að standa í slíku.
Þetta er alveg sérstaklega lýjandi og tekur mikla orku frá þeim sem í því standa. Raunar sýnist mér ágreiningurinn innan VG vera þess eðlis, að jafnvel þótt einhver bráðabirgðaniðurstaða fáist endrum og sinnum blossi hann alltaf upp að nýju og verði illvígur, vegna þess að þá finnst viðkomandi eins og að þetta komi í bakið á þeim.
En það breytir ekki því sem mér finnst blasa við, að eðlilegt sé að fréttamenn spyrji um þau atriði sem hljóta að uppfylla kröfur um fréttir, það er, að hér beri eitthvað nýtt eða óvenjulegt við.
Það er ekki á hverjum degi sem þrír þingmenn í þingflokki krefjast þess svo skjalfest sé að þingflokksformaðurinn biðjist opinberlega afsökunar.
Raunar man ég ekki eftir að slíkt hafi gerst fyrr.
Enn tekist á hjá VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér fannst fullangt gengið að elta þingmenn inn í lyftu til að veiða einhverja bitastæða yfirlýsingu. Greinileg gúrkutíð virðist vera á RÚV sem spurning er að sé rekið eins og einkafjölmiðill útvarpsstjórans.
Þarf ekki að huga að skipta um kall í brúnni við Efstaleiti? Páll getur auðvitað haldið áfram að lesa fréttir og þess vegna skúra útvarpshúsið ef það leiddi til sparnaðar í opinberum rekstri. En ætli ódýrari starfskraftar séu ekki jafn góðir ef ekki betri til þess?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 11.1.2011 kl. 10:38
Spurningar blaðamanns voru fullkomlega eðlilegar. Held að fólk ætti að spyrja sig hvað það vildi vita í lok fundarins í gærkvöldi.
Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 11:40
Heilmikið má ráða í svar Ásmundar bónda Notaði myndlíkingu um lyftuna. Þau eru sem sagt búin að þvinga Steingrím og Árna úr "deigu" járni, niður á jörðina. Sniðglíma á lofti.
Skúmurinn (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 14:13
Það væri gaman að vita hverjum augum viðmælendur Ómars líta nú hvefsin viðbrögð Geirs Haarde við spurningum fréttamanns á sínum tíma. Reyndar kom það ekki fram í fréttatíma, heldur á "ónýtum filmubút" sem nærgætinn og óhlutdrægur fréttamaður kom á framfæri.
Var fyrrum forsætisráðherra dónalegur þá, eða var fréttakonan óþarflega dónaleg við innanríkisráðherra núna? Eða eiga þeir það báðir sameiginlegt að vera komnir í stöðu sem samræmist ekki því sem þeir vildu að væri og eiga erfitt með að finna skýringar eða rök.
Flosi Kristjánsson, 11.1.2011 kl. 15:20
Spurning fréttamanns var eðlileg en framkoma Ögmundar jaðraði við að vera ósvífinn og ruddaleg það var ekki verið að spyrja hann þegar hann veittist að fréttamanni með frekju og yfirgangi og vild hann spyrði spurninga sem væru honum að skapi.Öðruvísi mér áður brá
Eggert Karlsson, 11.1.2011 kl. 16:05
Ögmundur sýndi mjög eðlileg viðbrögð enda gamalreyndur fréttamaður hjá sjónvarpinu.
Framkoma fréttamanns einkenndist af að reyna að knýja fram einhverja „safaríka“ yfirlýsingu. Þessi mismunandi viðhorf þingmanna VG til vissra málefna eru á viðkvæmu stigi og rétt er að leyfa viðkomandi að finna góða lendingu í þessu.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 11.1.2011 kl. 17:10
Fréttamenn hljóta að ráða sjálfir sínum spurningum. Sá tími að pólitíkusar fái að lesa yfir spurningar fyrirfram eða jafnvel ráði jafnvel sjálfir að hverju er spurt er liðinn.
Víðir Benediktsson, 11.1.2011 kl. 18:04
Tryggð manna við flokkinn sinn er falleg og lofsverð í sjálfu sér. Okkur sem styðjum ekki þann flokk leyfist hins vegar að kætast þegar menn snúa öllum viðmiðum á hvolf og vilja að menn séu teknir silkihönskum af því þeir tilheyri ákveðnum stjórnmálaflokki.
Innanríkisráðherra á margt eftir áður en hann þarf að kvarta yfir meðferðinni. Að minnsta kosti ef maður horfir til þess hvernig mönnum hefur stundum verið tekið þegar þeir óku brott frá Stjórnarráðshúsinu.
Flosi Kristjánsson, 11.1.2011 kl. 20:36
Ef stjórnmálamennirnir hefðu svarað hreint og beint strax hefði ekki þurft að elta þá á röndum eins og gert var.
Svörin þurftu ekki að vera löng. Hér kemur tillaga:
"Á þessum fundi var ekki krafist afsökunarbeiðnar heldur rökræddu menn mismunandi sjónarmið og munu halda umræðum áfram."
Ómar Ragnarsson, 11.1.2011 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.