"Hvaðan kom hann?!! Hvert er hann að fara?!!"

Þrátt fyrir ógrynni kvikmynda af mikilsverðum íþróttaviðburðum og afrekum eru það upphrópanir og ljósmyndir sem lifa oft lengst og segja jafnvel meira en kvikmyndirnar. 

Frægasti íþróttafréttamaður Bandaríkjanna á sjöunda áratug síðustu aldar og fram yfir 1980 var Howard Cosell. 

Frægustu augnablik hans og minnisverðustu upphrópanir voru þegar George Foreman kom öllum á óvart og niðurlægði ríkjandi heimsmeistara og þá "Ali-banann" Joe Frazier með því að slá hann sex sinnum niður á tveimur mínútum og hrifsa af honum heimsmeistaratitilinn. 

Hliðstæðu var ekki að finna í heimsmeistarakeppni í þungavigtinni síðan Ingemar Johanssson sló Patterson sjö sinnum í strigann 1959, Joe Louis marg sló Max Schmeling niður 1938 og Jack Dempsey niðurlægði Willard 1919

Í hvert skipti hrópaði Cosell upp yfir sig: "Down goes Frazier!  Down goes Frazier!"

Ein frægasta ljósmynd síðustu aldar var af Muhamad Ali þegar hann stóð yfir Sonny Liston föllnum með krepptan hnefa og manaði hann að standa upp aftur. 

Kvikmyndin af þessu atviki var ekki nærri eins áhrifamikil. 

Upphrópun Jóns Páls Sigmarssonar: "Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál!¨ þar sem hann heldur á heimsmetsþyngd í höndunum mun lifa. 

1961 tók Ingimundur Magnússon ljósmyndari mynd af mér þar sem ég svíf í splitti í himinhæð yfir sviðinu í Austurbæjarbíói.  Hún var valin á 80 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands sem besta ljósmyndin í 80 ára sögu félagsins, enda á varla að vera hægt að taka svona ljósmynd, svo erfitt var það með þeirra tíma tækni þegar ekki var hægt að taka margar ljósmyndir í ofurhraðri röð.

Ingimundur bíður færis í næstum hálfa klukkstund og á nákvæmlega þeim hundraðshluta úr sekúndu þegar ég er í allra efstu stöðu í stökkinu í laginu Sveitaball þegar ég syng: "..því annars yrði mamma reið / og karlinn alveg knall..." og túlka reiði karlsins með stökkinu, - einmitt á þessu augnabliki smellir Ingimundur af. 

Nú þegar eru orðin fræg orð Adolfs Inga Erlingssonar þegar Alexander Petterson "stal" boltanum af mótherja í hraðaupphlaupi á yfirgengilegan hátt:  

"...Sjáið þið Alexander Petterson!!  Hvaðan kom hann??!!  Hvert er hann að fara??!!" 

Tær snilld! Ég hef oft haldið því fram að enginn skóli sé betri fyrir fréttamann eða blaðamann en að vera íþróttafréttamaður þar sem gildir miskunnarlaust lögmál forgangsröðunar, hraða, snerpu og síðast en ekki síst, að hitta á réttu orðin og skila textanum vel frá sér. 

En úr því að þessi pistill er tengdur við frétt mbl.is um Adolf Inga vil ég bæta því við að ég held að það gæti verið góð hugmynd að láta hann reyna sig sem fréttaþul, þvi hann hefur mjög góða og skýra útvarpsrödd, framburð og tónhæð í framsögn, auk ágætrar málkenndar, enda alinn upp á Akureyri á þeim árum þegar þar var talað skýrast og best. 

 

 

 


mbl.is Adolf Ingi situr heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Ég hef einu sinni séð þig syngja "Sveitaball" og það var á Klaustri, líklega með Sumargleðinni nítjánhundruð áttatíu og eitthvað. Þar fórstu fram af sviðinu í látunum og mig grunar að þú hafir meitt þig meira en þú lést í veðri vaka eftir að þú klifraðir upp aftur. En eiginlega misstuð hvorki þú né hljómsveitin dampinn við þessa byltu.

Einar Steinsson, 17.1.2011 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband