18.1.2011 | 13:03
Kostir og gallar í stöðunni.
Það eru bæði kostir og gallar í þeirri aðstöðu, sem íslenska landsliðið er í á HM.
Það er mikill kostur að í stað þess að oft hafi íslenska liðið farið erfiðustu leiðina með því að tapa eða eiga í basli í upphafi stórmóta og eyða gríðarlegri orku í það, hefur liðið í þess stað ekki lent í þessu ennþá og sömuleiðis hefur ekki þurft að keyra stanslaust á þröngum hópi leikmanna, sem fyrir bragðið hafa orðið útkeyrðir í mótslok.
Annar kostur er að eftir að liðið hefur áður hampað bæði silfri og bronsi á stórmótum er kominn í það sem kallað er "meistarahugur", sem gamla förukonan norður í Langadal orðaði þannig við mig á sínum tíma: "Það stekkur enginn lengra en hann hugsar."
Ef liðið getur áfram þróað nauðsynlegt sjálfstraust og hungur í gull án þess að ofmetnast, er það lykillinn að velgengni ásamt því sem kallað er "meistaraheppni".
Vegna þess að breiddin í liðinu er meiri en þekkst hefur áður þarf meiri óheppni en oft áður til þess að gæfuhjólið snúist.
Og þá eru það gallarnir í stöðinni. "Dramb er falli næst" segir máltækið og það í alvarlegu mótlæti sem það kemur í ljós hvort fyrrnefnt meistarahugarfar sé nógu þroskað og sterkt.
Mesta hættan nú er að ofmeta gott gengi liðsins gegn Japönum og ugga ekki að sér þegar mótstaðan verður meiri og mótlæti og mótspyrna sömuleiðis.
P. S. Mikið hefði nú verið gaman ef liðið hefði komist í 14:2 í stað 13:2 í leiknum í gær. Þá hefði sést sama markatala á töflunni og í knattspyrnuleiknum fræga í Kaupmannahöfn 1967.
Ekkert annað en sigur gegn Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef við vinnum gullið, verður kreppan í huga þjóðarinnar þá búin?
Billi bilaði, 18.1.2011 kl. 14:07
Það verður erfitt að toppa Ólympíusilfrið hvað snertir skrúðgöngu og hátíðahld svona að vetrarlagi nema að það bresti á eitthvert óskiljanlega gott blíðviðri í upphafi þorra.
Ómar Ragnarsson, 18.1.2011 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning