Bestu samkomur á Íslandi?

Nú er liðinn sólarhringur frá síðustu bloggfærslu minni, óvenju langur tími. Ástæðan er einföld: Ég fór í gær frá Reykjavík norður í Fljót til þess að vinna með heimamönnum við það að halda þar fjölmennt þorrablót í gærkvöldi.

Þetta þýddi heilmikinn undirbúning, einkum vegna þess að núna á eftir er ég búinn að mæla mér mót við harðsnúinn hóp í jeppaklúbb NFS sem ætlar að spreyta sig uppi við Haukadalsskarð, sem liggur milli Haukadals í Dölum og nyrsta hluta Holtavörðuheiðar.

Dagurinn fór því í tvenns konar undirbúning.

Félagsheimilið að Ketilási var troðfullt í gærkvöldi og þar er ekki hægt að hugsa sér betra fólk og betri stemningu en á þessum mögnuðu Þorrablótum úti á landi, sem fólk er búið að hlakka til og undirbúa allt árið.

Á þessum tíma eru allir heima og þetta er nokkurn veginn eini árstíminn þar sem hægt er að reikna með að fáir ef nokkrir séu að þvælast í útlöndum.

Ég hef oft sagt áður að þetta séu hugsanlega bestu samkomur á Íslandi og kvöldið í gærkvöldi var aldeilis guðdómlegt.

Þarna lögður allir á eitt í þrjár klukkustundir við dýrlega dagskrá og gaman var að kasta stökum á gamlan keppnaut í spretthlaupunum hér í gamla daga, Reyni Hjartarson.

Nú er ég í Hvammi í Langadal á æskustöðvum mínum kærum, og hér eru bændur komnir í netsamband og nýta sér tæknina.

þetta verður stuttur stans ef ég á ekki að missa af stefnumótinu í Hrútafirði fyrir jeppaferðina.

Ó, hvað þetta land og þjóð býður upp á dásamlega möguleika á ölum árstímum ef við höfum bara opin augun fyrir því!

Þarf ekki að kosta mikið. Ég er á 38 ára gömlum jeppa sem fer það sem þarf á 38 tommu dekkjunum sínum og kostaði aðeins 220 þúsund krónur, þegar ég keypti hann fyrir sjö árum !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þú ert einstakur.

Sigurður I B Guðmundsson, 22.1.2011 kl. 19:36

2 identicon

Vil þakka þé fyrir gærkveldið. Alveg einstakt og skemmtilegt kvöld. Magnað að vera í návígi við alvöru skemmtikraft. Mann sem einnig unnir landinu eins og þú gerir og skilur þau tengsl og áhrif sem landið hefur á mann. Einnig gaman að sjá og heyra viðskipti ykkar Reynis. Ekki skemmdi það að sjá gamla Range Roverinn og ræða um rússajeppana. ;-)

Kær kveðja frá Sauðanesvita. - Jón Tr.

PS. Konan biður að heilsa.

Jón Tr. Traustason (IP-tala skráð) 22.1.2011 kl. 20:15

3 identicon

Þú ættir að mæta á blótið í Njálsbúð. Tókstu annars "sveitaball"?

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband