23.1.2011 | 20:23
Firring stríðsæðisins.
Niðurstaða ísraelskrar rannsóknarnefndar á árás Ísraelshers á skipalest hjálparsamtaka var fyrirsjáanleg.
Ísraelsmenn komast upp með það að virða að vettugi ályktun Sþ frá 1967 um ólöglegt hernám Vesturbakkans og Gaza og komast líka upp með það að halda fólkinu á Gaza í raun í stærstu fangabúðum heims við hin verstu kjör.
Þegar slær í brýnu þykir það sjálfsagt lágmark af hálfu Ísraelsmanna að drepa tugi eða hundruð Palestínumanna fyrir hvern fallinn Ísraelsmann.
Sömuleiðis þykir þeim það sjálfsagt mál að salla fólk niður með vélbyssum ef þeir þykjast sjá teygjubyssur meðal þess.
Elsta kynslóðin í Ísrael ólst upp við það sem sjálfsagt mál að beitt væri skemmdarverkum og hryðjuverkum með tilheyrandi mannfalli til þess að koma sínu fram.
Allar núlifandi kynslóðir landsins síðan hafa lifað við stanslausan stríðsótta og engin þjóð í heimi ver jafn stórum hluta þjóðartekna sinna til hermála né heldur eru herskylda og hugsunarháttur hernaðar jafn snar þáttur í þjóðlífinu og í Ísrael.
Þótt á stundum ríki friður á yfirborðinu á þessum slóðum er það í raun stríðsástand sem er eina ástandið sem þessar þjóðir þekkja.
Frumorsökin er sú að Gyðingar töldu sig Guðs útvalda þjóð og töldu sig eiga rétt á að endurheimta land, sem þeir hröktust frá fyrir nær tveimur þúsundum ára og valta þar með yfir rétt þess fólks, sem hafði átt þar heima kynslóð fram af kynslóð í allan þennan tíma.
Þetta er svona álíka og að við Íslendingar krefðust þess að fá í okkar hlut yfirráð yfir vesturströnd Noregs og drjúgan hlut af olíuauðnum þar vegna þess að við hefðum farið þaðan eða hrökklast þaðan fyrir 1100 árum.
Þegar svona ástand myndast fer margt úr böndum og margt af því sem Palestínumenn og nágrannaþjóðirnar hafa gripið til í hinni heiftúðugu baráttu við Ísraelsmenn hefur ekki verið þeim til sóma, heldur gert illt verra og aukið á óttablandna vantrú, þrjósku og hörku Ísraelsmanna.
Hliðstæður varðandi landvinninga finnast annars staðar þar sem þó ríkir friður.
Þegar litið er á landakort af Evrópu stingur í augu, að við Eystrasalt er landsvæðið Kaliningrad sem er hluti af Rússlandi, þótt mörg hundruð kílómetrar séu þaðan til Rússlands.
Þetta var áður Austur-Prússland, hluti af Þýskalandi og þar áður Prússlandi um aldir, en í stríðslok 1945 voru Þjóðverjar hraktir þaðan á brott milljónum saman og Rússum afhent landið.
Alls voru fjórtán milljónir Þjóðverja hraktir í burtu í stríðlnu þegar ný landamæri Þýskalands og nágrannalandanna voru dregin.
Ef upp kæmi krafa um að Þjóðverjar fengju Austur-Prússland aftur og milljónir Þjóðverja flyttu þar inn, myndi því umsvifalaust verða hafnað. Eru þó aðeins liðin 66 ár síðan þetta var þýskt land.
Raunar verður að skrifa vandamálin við botn Miðjarðarhafs að mestu leyti að reikning Breta og annarra Evrópuþjóða auk Bandaríkjanna.
Í Bandaríkjunum hafa Gyðingar ætíð haft mikil ítök í stjórnmálalífinu og sjálfir eiga Bandaríkjamenn þá fortíð að hafa hrifsað land frá frumbyggjum þess með ofbeldi.
Á millistríðsárunum létu Bretar það eftir Gyðingum að þeir flyttust í stórum stíl inn í Palestínu í þeim tilgangi að stofna þar nýtt Ísraelsríki eftir forskrift Zíonismans.
Eftir brjálæði Helfararinnar sem byggt hafði verið upp á kynþáttahatri í garð Gyðinga, vísuðu þessar þjóðir vandamálinu og afleiðingunum af höndum sér með því að koma því yfir á þjóð í fjarlægu landi, sem ekki hafði komið nálægt Helförinni.
Á grundvelli þessa má okkur Vesturlandabúum ekki standa á sama það ástand sem við áttum mestan þátt í að skapa í "Landinu helga".
Tyrkir og mannréttindasamtök gagnrýna ísraelska skýrslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.