30.1.2011 | 20:26
Glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar.
Fólk getur haft mismunandi skoðanir á ýmsu því sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert á löngum pólitískum ferli. Hitt verður ekki af honum skafið að hann er alveg sérstaklega glæsilegur og snjall fulltrúi þjóðar okkar erlendis eins og ummæli Ian Bremmers bera vott um.
Ég hef séð nógu mikið til hans á ferðum hans sem fulltrúi íslenska þjóðarinnar til að geta sagt að leitun er að afkastameiri og klárari manni í þessu hlutverki.
Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Ólafur Ragnar þurfti að halda tækifærisræðu við styttuna af Jóni Sigurðssyni í Winnipeg. Þar flutti hann blaðlaust á ensku einhverja þá bestu ræðu af þessu tagi, sem ég hef heyrt. Ég dauðsá eftir því að hafa ekki tekið ræðuna upp frá upphafi til enda.
Áður hafði hann heillað upp úr skónum Vestur-Íslendinga á Íslendingadeginum í Gimli.
Ræða hans þar var frábært sambland á góðri hugvekju um samband Íslendinga vestan hafs og austan og sameiginlegum menningararfi og yfirliti yfir aðgerðir varðandi Íslendingabyggðirnar sem ýmist væri búið að framkvæma eða á framkvæmdastigi.
"Loksins kom hingað maður sem hafði eitthvað meira að tala um en hið hefðbundna tal um sameiginlegan menningararf" sagði einn viðmælandi minn.
Við eigum ekki að vanmeta það gegn sem góður þjóðhöfðingi getur gert erlendis fyrir örþjóð á hjara veraldar.
Orðstír konu aldarinnar, Vigdísar Finnbogadóttur, flaug um alla heimsbyggðina þegar hún fyrst kvenna í heiminum var kjörinn þjóðhöfðingi í lýðræðislegri kosningu.
Hún fylgdi því síðan eftir með því að heilla alla, hvar sem hún kom, upp úr skónum með málakunnáttu sinni, menntun, glæsileik og persónutöfrum.
Hreifst af Ólafi Ragnari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já ég er sammála þér með Ólaf Ragnar, ég var að vísu ekki meðmælt honum þegar hann var fyrst kosin forseti, en síðan hefur álit mitt á honum farið vaxandi. Fyrst þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin og svo Icesave. Já mér finnst Ólafur einmitt vera fastur punktur í okkar tilveru í þessum hrunadansi og ég trúi því að hann virkilega vilji þjóðinni vel.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2011 kl. 20:35
Já þú segir nokkuð Ómar..........................best að hafa þetta ekki orðunni lengra..
Kristinn J (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 20:41
Vigdís var frábær, það verður aldrei frá henni tekið. Enda búin að tileinka sér það besta úr evrópskri menningu.
Efasemdarmaður (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 20:54
Það mun hafa verið spurt í Danmörku af ýmsum sem til þekktu, þegar Gunnar Thor. var ekki kjörin forseti árið 1968, hvernig það mætti vera að við hefðum efni á því að gera hann ekki að forseta.
Ólafur verður búinn að vera 16 ár næsta ár. Er lýðræðinu ekki holt að skipta um sína kjörnu fulltrúa reglulega. Bandaríkjamönnum, þótti nóg um þegar Roosevelt hafði verið kjörinn í fjórða sinn og takmarka embættistíma forseta þar við tvö kjörtímabil. Nokkuð sem við ættum almennt að taka okkur til fyrirmyndar með.
Jónas Egilsson, 30.1.2011 kl. 21:52
Ég var einn af þeim sem studdi framboð Gunnars Thoroddsens 1968. Það framboð mistókst, m.a. af eftirtöldum ástæðum:
1. Hann giftist Völu og studdi tengdaföður sinn gegn frambjóðanda flokks síns 1952. Það gátu margir Sjálfstæðismenn ekki fyrirgefið honum og studdu Kristján Eldjárn.
2. Á uppreisna- og óróaári hippabyltingar litu menn á framboð Gunnars sem einskonar afbrigði af því að þjóðhöfðingjatign gengi í arf.
3. 1968 var mikið samdráttarár og ríkisstjórnin óvinsæl. Allt of stutt var síðan Gunnar hafði verið ráðherra í Viðreisnarstjórninni.
4. Í ævisögu Gunnars kemur fram að þegar fyrir stríð var hann veikur fyrir áfengi. Í embætti þingmanns, borgarstjóra og siðar ráðherra kvisuðust út sögur um þetta. Sendiherraembætti í Kaupmannahöfn var nokkurn veginn vonlausasti staður til að þvo þetta af sér, allir vita hvaða orð fer af skálaglaumi í slíku starfi.
Tíðarandinn 1968 var þannig að við, sem studdum hann, hefðum átt að sjá það að framboð hans var vonlaust. Við börðumst hins vegar fyrir hann af því að við töldum þennan gríðalega hæfileikamikla og reynda mann besta kostinn.
Svo vel tókst til, að Kristján Eldjárn reyndist afar farsæll forseti sem sameinaði þjóðina.
Hann var hæfileikaríkt ljúfmenni, fluggreindur og kom vel fyrir.
Ómar Ragnarsson, 30.1.2011 kl. 22:54
Bremmer veit greinilega ekki af útrásarræðunni frægu sem Ólafur flutti í London. Varla hægt að halda fram að sú ræða beri vott um pólitískan/viðskiptalegan stöðugleika.
Ragnar Thorisson (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 23:06
Allt rétt sem þú segir þarna Ómar og ég er þér sammála. Punkturinn frá mér var að þjóðin gaf ekki mikið fyrir "sérfræðiálitið frá Danmörku.
Gunnar hafði sína fortíð sem vafðist fyrir honum, eins og þú rekur ágætlega. Fortíð núverandi forseta vefst áreiðanlega fyrir mörgum kjósendum hér á landi, jafnvel enn í dag.
Jónas Egilsson, 31.1.2011 kl. 08:16
Hárrétt hjá ykkur öllum, en munum líka að jafn heillandi og glæsilegur fulltrúi Vigdís var, þá þurfti hún aldrei að fást við ástand í líkingu við það sem Ísland og þegnar landsins eru að fást við núna, að mínu áliti hefur forsetinn vaxið með verkefninu og þar með er léttara að fyrirgefa "klappstýruræðuna" frægu og önnur ummæli hans meðan allir héldu að "ævintýrið" væri bæði varanlegt og raunverulegt, vísa annars á mitt eigið innlegg um þessa frétt.
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 31.1.2011 kl. 13:06
Ég er ekki viss um að Vigdís hefði staðið sig jafnvel og Ólafur Ragnar í þeim erfiðleikum sem við höfum gengið í gegn um. Hann hefur vaxið af verkum sínum og ég skal alveg viðurkenna það, þó ég hefði fundið honum allt til foráttu þegar hann var kjörinn fyrst. Það er allt löngu gleymt, við verðum að vera manneskjur til að þakka allt það sem vel er gert.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.1.2011 kl. 15:58
Rétt er rétt, og þegar ÓRG gerir eitthvað gott og er landi sínu til sóma, þá má sko alveg nota jákvæð lýsingarorð!
Jón Logi (IP-tala skráð) 31.1.2011 kl. 17:07
Það er erfitt að stunda "alternate history" og ráða í hvað þessi og hinn hefði gert í aðstæðum sem hann ekki var í.
Til dæmis afar hæpið að dæma sum mál í nútímanum á þeim forsendum hvað Jón forseti hefði gert.
Ólafur Ragnar og Vigdís hafa verið í embætti á ólíkum tímum.
Þó liggur fyrir að Vigdís hefur sagt, að í upphafi forsetatíðar sinnar hefði hún ákveðið með sjálfri sér að beita helst ekki málskotsréttinum nema um væri að ræða lög, sem hefðu í för með sér afleiðingar sem væru óafturkræf um aldur og ævi, svo sem lögleiðing dauðarefsinga.
Á þessum forsendum sagði Vigdís 2004 að hún hefði vísað Kárahnjúkavirkjun til þjóðarinnar ef hún hefði verið forseti þá, enda um að ræða framkvæmd með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisáhrifum, sem hægt var að framkvæma á Íslandi.
Í löggjöf margra nágrannalanda okkar eru gerðar alveg sérstakar kröfur til málsmeðferðar í svona málum.
Ómar Ragnarsson, 31.1.2011 kl. 21:34
Já Ómar það hefði betur verið gert með Kárahnjúka að vísa því máli til þjóðarinnar, ég er viss um að þjóðin hefði fellt þá framkvæmd.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 07:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.