3.2.2011 | 09:28
Öxullinn Grímsvötn-Bárðarbunga.
Annar af tveimur stærstu "möttulstrókum" heims er undir Íslandi. Hinn er undir Hawai. Möttulstrókur er heiti, sem táknar svæði þar sem heit, bráðin kvika streymir frá möttli jarðar upp í átt að yfirborðinu.
Stundum er talað um öxulinn Grímsvötn-Bárðarbungu sem miðju hins íslenska möttulstróks.
Það er ekki tilviljun að Bárðarbunga er annað hæsta fjall Íslands því að þetta er stórt og virkt eldfjall undir þykkum ísi Vatnajökuls.
1996 gaus í Gljálp, milli Grímsvatna og Bárðarbungu, eftir mikla skjáftahrinu í Bárðarbungu. Bráðinn ís streymdi í Grímsvötn og safnaðist þar saman uns það braust undir jökulinn niður á Skeiðarársand í feykistóru hamfarahlaupi sem sópaði burtu brúm á sandinum.
Eftir þetta mikla hlaup veiklaðist jökulinn við útfallið úr Grímsvötnum, þannig að hlaup þaðan eru nú minni en áður var.
Gjálpargosið var fyrsta gosið eftir Öskjugosið 1961 sem komið hefur norðar en Grímsvötn og kannski er að koma tími á stórt gos í norðanverðum Vatnajökli eða jafnvel enn norðar.
Hamfarahlaup eftir gos í Bárðarbungu getur farið niður í Hágöngulón og reynt á stífluna þar og virkjanamannvirki vestan við Vatnajökul.
Gos í austanverðri Bárðarbungu eða í Kverkfjöllum getur valdið hamfarahlaupi í Jökulsá á Fjöllum.
Öxulliinn Grímsvötn-Bárðarbunga er virkasta eldvirka svæðið á Íslandi og við öllu að búast af því eftir að það hefur verið tiltölulega rólegt á síðari hluta aldarinnar sem leið.
Ætla að setja hér með myndir úr leiðangri Jöklarannsóknarfélags Íslands 2009 ofan af Grímsfjalli, af gígnum og eldstöðinni í Grímsvötnum og ofan af Bárðarbungu, þar sem útsýnið til norðausturs af þessu mikla eldfjalli var stórkostlegt yfir til Vonarskarðs, Tungafellsjökuls, Hofsjökuls og stórs hluta hálendisins.
Jarðskjálftar við Kistufell | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki útsýn af Bárðarbungu yfir Vonarskarð, Hofsjökul og Tungnafellsjökul til norðvesturs og þó öllu meira til vesturs?
corvus corax, 3.2.2011 kl. 09:55
Þú segir "Gjálpargosið var fyrsta gosið eftir Öskjugosið 1961 sem komið hefur norðar en Grímsvötn". Ertu ekki að gleyma Kröflueldum?
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2011 kl. 09:57
Sæll Ómar takk fyrir þetta innlegg vonandi verður hlustað á þig hvað varðar þær hamfarir sem koma við gos i Bárðarbungu.
Sigurður Haraldsson, 3.2.2011 kl. 11:02
Afsakaðu, Gunnar, ég hefði átt að hafa þetta nákvæmara og segja "og komið hefur undir Vatnajökli og svæðinu næst fyrir norðan hann að Herðubreið.
Þaðan eru síðan 70-80 kílómetrar í Kröflusvæðið.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2011 kl. 21:20
Sæll Ómar ertu farin að trúa mér með þá sýn sem ég sé í hamfaragosi frá Bárðarbungu í suðvestur? Því að nú eru jarðfræðingar farnir að tala um það sama!
Sigurður Haraldsson, 8.2.2011 kl. 03:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.