Það fyrsta sem er drepið í stríði...

Uggvænleg þróun hefur smám saman orðið í kjörum stríðsfréttaritara. Starfið hefur að vísu ævinlega verið hættulegt en síðustu árin hafa kjör þeirra mjög þróasta á verri veg, því að mannfall meðal þeirra hefur vaxið.

"Það fyrsta sem deyr í stríði er sannleikurinn" og að "sendiboðar válegra tíðinda" séu látnir gjalda fyrir þau eru gömul og ný sannindi. 

Í Víetnamstríðinu kom í ljós að fréttaflutningur og einkum áhrifamiklar ljósmyndir og kvikmyndir, sem rötuðu í fjölmiðla, hafði jafnvel meiri áhrif á stríðsreksturinn en hin skæðustu og öflugustu vopn.

Sjónvarpsfréttamyndir, sem öll bandaríska þjóðin og heimsbyggðin fengu að sjá skópu almenningsálit sem á endanum varð til þess að þetta hræðilega stríð tapaðist heima fyrir frekar en á vígvellinum. 

Af þessu hafa hernaðaryfirvöld og aðilar að átökum víða um heim dregið viðsjárverða lærdóma, sem bitna æ harðar á stríðsfréttariturum og þeim sem fjalla um mikil átök og deiluefni.

Nú sjást þess æ fleiri merki að það er orðin taktik hjá stríðandi aðilum að ráðast á fjölmiðlamenn, jafnvel fyrir það eitt að vera á vettvangi. 

Við Íslendingar eigum einn slíkan fjölmiðlamann, sem er hinn öflugi og snjalli sjónvarpsmaður Jón Björgvinsson. 

Ég þekki dálítið til hans, bæði vegna samstarfs við hann og einnig vegna þess að Edvard bróðir minn kenndi honum í barnaskóla og sá þá strax að mikið var í hann spunnið. 

Á löngum starfsferli hef ég sjálfur upplifað þann þrýsting sem hægt er að beita fjölmiðlafólk, þótt ekki sé það í sambandi við stríðsátök. 

Fjölmiðlar eru oft aðal vettvangur átaka og deilna og mál geta bæði unnist og tapast þar. 

Jón hefur valið sér vettvang, sem er afar hættulegur og hann er mér ofarlega í huga þessa dagana. Einnig starfsmenn sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera, en vinnubrögðum hennar og metnaði kynntist ég vel í samvinnu minni við einvala lið hennar, sem sent var til Íslands þegar Eyjafjallajökull gaus.

Stöðin hefur sýnt þetta vel í fréttum sínum frá Túnis og Egyptalandi og orðið að gjalda fyrir það grimma lögmál, að það fyrsta sem er drepið í stríði, er sannleikurinn. 


mbl.is Skipulagðar árásir á fréttamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband