7.2.2011 | 19:17
Það var mikið!
Ég hef verið að blogga aftur og aftur um nauðsyn þess að Íslendingar taki upp hætti siðaðra þjóða í umferðinni og hafa mér einkum verið hugleikin nokkur atriði eins og ónóg notkun stefnuljósa og algert hirðuleysi og tillitsleysi varðandi hegðun ökumanna við þrengingar á vegum og skiptingum umferðar á milli akreina.
Hringtorgin eru ekki verstu staðirnir heldur T-gatnamót og gatnamót með fleirum en einni akrein.
Alræmd gatnamót eru gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla, þar sem ökumenn, sem koma niður Fellsmúla halda oft umferðarteppu í gíslingu, - bílum, sem koma upp úr Skeifunni og ætla að beygja til suðurs inn á Grensásveg.
Bílstjórarnir, sem koma niður Fellsmúlann og ætla til hægri, gefa yfirleitt ekki stefnuljós og þegar þeir gefa þau, þora bílstjórar, sem koma úr Skeifunni, samt ekki að beygja, vegna þess að stundum þjösnast bílstjórarnir sem koma niður Fellsmúlann inn á innri akreinina á Grensásveginum, og vegna þess hvað þetta er algengt hika menn við að treysta því að ekið sé á siðmenntaðan og hagkvæman hátt.
Ef það á nú loks að gera gangskör í þessum málum er það vel. Raunar er hegðun ökumanna við þrengingar á götum eða þar sem tvær akreinar verða að einni, sérkapítuli, - og má til dæmis ég þakka fyrir að hafa ekki verið drepinn eða stórslasaður í slysi af völdum hinnar landlægu villimennsku á stað, þar sem akreinar runnu saman.
Meirihluti gaf ekki stefnuljós | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú segir m.a."stórslasaður í slysi".
Mig minnir að þú hafir oft gagnrýnt svona málnotkun. ;)
Gudmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 9.2.2011 kl. 14:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.