8.2.2011 | 12:29
Hvernig má þetta verða?
Enn eitt árið fækkar íbúum á Austurlandi þótt á fjórða ár séu síðan álverið í Reyðarfirði tók til starfa og þrjú ár síðan virkjanaframkvæmdum þar var að mestu lokið. Hvernig má þetta verða?
Áður en farið var í framkvæmdirnar eystra var fullyrt að fólki myndi fjölga þar um 1500 manns til frambúðar.
Ekki var gert ráð fyrir að einn einasti maður myndi nota tækifærið þau misseri sem húsnæðisverð rauk upp og flytja burtu.
Á eftirminnilegum fundi Íslandshreyfingarinnar á Húsavík fyrir kosningarnar 2007 gekk hópur manna að okkur með kreppta hnefa á lofti og hrópaði: "Þið ætlið að koma í veg fyrir að við getum flutt í burtu!"
Þegar samdráttur varð á Akureyri vegna hruns markaðsins í Sovétríkjunum kom upp krafa þar um að reisa álver "til þess að bjarga Eyjafirði."
Það var ekki gert og núna fjölgar fólki ár eftir ár á Norðurlandi eystra þar sem ekkert álver hefur risið.
Hvernig má þetta verða?
Þessu hefur í raun verið svarað í ótal rannsóknum og á ótal ráðstefnum um vandamál jaðarbyggða þar sem niðurstaðan hefur í grófum dráttum verið sú, að þau byggðarlög dafni þar sem er fjölbreytt atvinnustarfsemi og menning en hinum hraki þar sem er einhæft atvinnulíf, oft byggt á verksmiðjum, sem framleiða eingöngu hráefni.
Landsmönnum fjölgaði 2010 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar , hér heyrir atvinnu og byggðastefna undir Velferðarráðuneytið. Það er litið á þennan málaflokk sem félagsleg úrræði.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.2.2011 kl. 12:52
Þó fækkun hafi orðið á Austurlandi í heild, þá las ég einhversstaðar að íbúum hafi fjölgað í Fjarðarbyggð og á Héraði um hátt í 10%, þ.e. á þeim stöðum sem starfsmenn álversins búa aðallega.
Hvernig væri ástandið ef álverið hefði ekki risið?
Axel Jóhann Axelsson, 8.2.2011 kl. 13:02
Axel, fyrst þú spyrð svona, þá verður þú líka að svara spurningunni hvort fólki hefði fækkað ef kvótakerfið hefði ekki farið svona illa með Austfirðinga sérstaklega. Halldór Ásgrímsson leit alltaf svo á að álverið kæmi í stað skerðinga á fiskveiðum
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.2.2011 kl. 13:31
Fólk var farið að flykkjast af landsbyggðinni löngu fyrir kvótakerfið. Undanfarna a.m.k. tvo áratugi hefur orðið gífurleg tækniþróun í fiskvinnslunni þannig að miklu færra fólk þarf til að vinna aflann en áður og þar að auki vilja Íslendingar ekki vinna í fiski lengur.
Víðast hvar, þar sem fiskvinnsla er stunduð, er hún borin uppi af erlendu vinnuafli og má t.d. benda á vestfirðina í því sambandi. Ég bjó sjálfur úti á landi fyrir tíma kvótans og þá var fólksfækkunin stöðugt áhyggjuefni sveitarstjórnarmanna og því er það annaðhvort vísvitandi lygi að halda því fram að kvótinn sé að fæla fólk af landsbyggðinni, eða hrein fáfræði.
Axel Jóhann Axelsson, 8.2.2011 kl. 15:30
Hérna í eyjum höfum við verið að styrkja okkur í sjávarútvegi undanfarin ár, samt fækkaði okkur stanslaust og vorum næstum komin undir 4000. Okkur hefur síðan fjölgað örlítið eftir að kreppan skall á, ungt fólk sem var ekki búið að festa sig í bænum komið aftur heim enda hefur verið hér næg atvinna.
En það er ekki hægt að yfirfæra fólksfækkun á landsbyggðinni alfarið yfir á kvótakerfið. Staðreyndin er einfaldlega sú að við missum unga fólkið í nám til höfuðborgarinnar og alltof fá þeirra hafa áhuga á að vinna í sjávarútvegi og þau vilja búa á stað þar sem þau hafa val um ýmsa afþreyingu t.d.
Auðbjörg (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 16:36
Mikið rétt ómar, en þingið hefur líka verið duglegt að dreifa íslenskum ríkisborgararétti til hægri og vinstri, þannig að fækkunin lítur ekki eins illa út.
Ca 20-30 þúsund manns væri horfið frá landinu ef Lilja Móses hefði fengið í gegn lyklafrumvarpið góða, í staðinn er almenningur fangar í eiginn landi og allt lítur þetta voða vel út hjá Hagstofunni
Vilhjálmur (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 20:13
Fólki fækkar ekki á austfjörðum vegna 800 vellaunaðra starfa á álverslóð ALCOA.
1/3 af útflutningi íslendinga kemur úr Fjarðarbyggð.
Fólki fækkar á austfjörðum og annarstaðar út á landi, þar sem æ hærra hlutfall skatttekna íslendinga endar í þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Hreinn Hjartarson (IP-tala skráð) 9.2.2011 kl. 13:00
Íslendingar selja ekki ál til útlanda.
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.