10.2.2011 | 15:07
Gráa svæðið og línan.
Hugtakið "grátt svæði" er oft notað um ýmis svið, þar sem óljóst þykir hvar skuli draga línuna milli löglegs athæfis og ólöglegs. Þegar kemur til kasta dómstóla að draga línuna, hefur oft verið í gangi tilhneiging til þess að færa gráa svæðið æ lengra út.
Dæmi um þetta var dómur vegna æviminninga, sem komu út á níunda áratugnum. Fram að því höfðu bersöglislýsingar af ýmsu tagi orðið æ svæsnari í ævisögum og komin upp óbein samkeppni á milli bókaútgefenda í þeim efnum til þess að skapa umræður og þar af leiðandi betri sölu.
Í viðkomandi ævisögu var gengið mjög langt og í málaferlunum, sem af hlutust, urðu bókarhöfundur og útgefandi að lúta býsna hörðum dómi.
Á þessum tíma var ég með bækur á markaðnum nokkur jól og fylgdist með þessu máli, meðal annars í samtölum við útgefanda minn og aðra útgefendur.
Ég fékk að heyra það í trúnaði að útgefendum væri að vissu leyti létt við þetta því að nú vissu þeir hvar hin lagalega lína lægi. Með því að fara sífellt lengra út á hinn hála ís hefðu útgefendur staðið að lokum frammi fyrir hinu óhjákvæmilega, að línan yrði dregin.
Eftir að þetta gerðist hafa ekki komið aftur upp hliðstæð mál.
Það er gott ef mál Eiðs Smára og DV fer fyrir Hæstarétt svo að botn fáist í það hvar gráa svæðið endar við þá línu, sem dregin verði. Ekki ætt að vera hægt að efast um að einhvers staðar liggi þessi lína, því að annars fara menn alltaf lengra og lengra líkt og gert var í ævisögunum hér um árið.
Vakning fyrir fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er feginn að sorpblaðið DV hefur þarna fengið á baukinn. Vonandi fylgja fleiri þannig dómar síðar.
Vendetta, 10.2.2011 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.