Myndir geta breytt sögunni.

Ein mynd getur sagt meira en 1000 orð. Þessi sannindi eru sígild og dæmi eru um ljósmyndir sem hafa breytt sögunni, ef svo má segja.

Frægust slíkra mynda er líklega sú sem tekin var af brenndu fólki, sem flýði brennandi þorp í Vietnamstríðinu eftir napalm eldsprengjuárás Bandaríkjahers.

Fremst hljóp nakin stúlka með andlit afmyndað af skelfingu og mynd hennar greyptist í hug milljóna manna, sem sáu í henni táknmynd villimennsku stríðsins. 

Það má deila um hvort þessi mynd ein og sér hefði breytt gangi stríðsins, en þegar hún var lögð við aðrar eftirminnilegar myndir, svo sem af brennandi munknum í Saigon nokkrum árum áður, má segja að hún hafi verið kornið sem fyllti mælinn.

Á sama hátt og þessi ljósmynd vitnaði sterkt gegn hernaði varð frægasta myndin, sem tekin var í stríði Bandaríkjamanna og Japana af hermönnum, sem reisa bandaríska fánann á Iwo Jima, hvatningartákn fyrir Bandaríkjamenn að stefna til sigurs í því stríði. 

Myndin af logandi vítinu í Perluhöfn 7. desember 1941 með herskipið Arizona hálfsokkið og brennandi í forgrunni, vakti á sama hátt gríðarlega sterkar tilfinningar í Bandaríkjunum og hvatti þjóðina til að halda ótrauð út í þann hildarleik, sem styrjöldin var. 

Myndir af Bretakonungi og Winston Churchill að skoða rústir eftir loftárás á Londin í septmember 1940 stöppuðu stálinu í bresku þjóðina og mynd af líkum ríkisarfahjóna Austurríkis á líkbörum eftir að þau voru myrt í Sarajevo 28. júní 1914 vöktu mikla reiði og hefndarhug í Austurríki. 

Hér heima vitnuðu myndir af breskum hermönnum með vélbyssu í Kirkjustræti hernámsdaginn 10. maí 1940 um afdrifaríkasta atburð liðinnar aldar á Íslandi.

Aðrar myndir sögðu meiri sögu af miklum atburðum en þúsundir orða.

Ég hygg að ljósmynd 20. aldarinnar hafi Finnbogi Rútur Valdimarsson tekið við Straumsfjörð á Mýrum af líkum 38 drukknaðra skipverja af franska rannsóknarskipinu Pourqois pas? þar sem þeim hefur verið raðað í röð, hlið við hlið, með skipstjórann fremstan í röðinni. 

Eftirminnileg er líka myndin af minningarathöfn, sem fram fór á línuskipinu Fróða í Reykjavíkurhöfn, þar sem kistur fallinna skipverja stóðu á þilfari, sundurskotnu eftir árás þýsks kafbáts.

Hún varð nokkurs konar táknmynd fyrir þær miklu mannfórnir  á hafinu, sem Íslendingar urðu að færa á stríðsárunum.

 


mbl.is Bieber tók fréttaljósmynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

IWO myndin var ótrúleg, og sagan í kringum þann djöfulskap.

Ég er samt ógildur í að kjósa um hana sem fréttamynd 20. aldar, þar sem ég var í bíómyndinni. Heilan mánuð eða svo þurfti ég að þykjast vera 3 kallar. Þetta var bæði leiðinlegasta og skemmtilegasta vinna sem ég hef lent í.  Skríðandi um með Thompson eða M1Garand byssur í sandinum á meðan á gekk með gjörsamlegum stórskota-fellybyl gaf manni hugmynd um hvernig þetta hefði getað verið í alvöru. Og svo hitt að húka oní holu daginn út og inn og mega helst ekki hreyfa sig.

En, flott er hún og táknræn.

Myndin hans Biebers er svakaleg. En önnur afgönsk stúlka varð líka fræg a fréttamynd, þótt að stelpugreyið hafi verið ó-afskræmd.

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.2.2011 kl. 14:29

2 Smámynd: Hörður Einarsson

Hvar eru áróðursmenn gegn stríði núna? þeir sjást ekki eða láta heyra í sér, vegna þess eins að, það eru ekki bandaríkin sem fremja voðaverkið.

Hörður Einarsson, 12.2.2011 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband