11.2.2011 | 18:59
Getum við lært af Egyptum?
Það vakti strax athygli konunnar minnar hvernig mótmælendur stóðu í röðum á Frelsistorginu í Kairó og hve friðsamleg mótmælin voru.
Yfirvegun, stilling og samheldni mótmælenda hefur vakið athygli víða um lönd og með eindæmum, að með þessari sjálfstjórn kom það vel í ljós, að ofbeldi var aðeins beitt af hálfu stuðningsmanna Mubaraks, lögreglunni og hermönnum en mótmælendur héldu stillingu sinni allan tíman.
Með þessu tókst þeim að koma í veg fyrir herinn og yfirvöld fengju afsökun fyrir því að beita valdi og fara fram með ofbeldi gagnvart friðsömum múgnum.
Einnig var ljóst að erfiðara yrði fyrir hermenn að beita vopnavaldi gegn svo mörgu vopnlausu fólki og samlöndum sínum.
Ég held að við Íslendingar ættum að spyrja okkur, hvort við getum eitthvað af þessu lært. Vesturlandabúar hafa löngum litið niður á þjóðir Afríku og Asíu en áttum okkur ekki alltaf á því að margar þeirra búa að fornri og gróinni siðmenningu.
Styrkur og árangur Gandhis, Martins Luther Kings og egypsku byltingarinnar byggðist ekki á beitingu vopna og grófs ofbeldis, heldur á afli hins stóra, friðsama fjölda sem beitti borgaralegu andófi af stillingu, ögun og yfirvegun.Stórt og mikilvægt skref | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Íslendingar sem hafa mótmælt hafa verið hlutfallslega fleiri en egyptar.
Þeir fá umbætur en við ekki.
Pirrandi
Ragnar Einarsson, 12.2.2011 kl. 00:16
Veit ekki hvort það er gróin siðmenning, að heil kynslóð fólks lúti (ógnar) neyðarstjórn í 30 ár eftir að Sadat forseti var drepinn.
Fólk virðist vera almennt sammála um að það sem kveikti í þessari byltingu nú, hafi verið "unga fólkið" sem hefur getað séð í gegnum internet, facebook og twitter hvernig lýðræði á að virka. Valdhafar í ógnarstjórnarríkjum í Asíu og víðar, hljóta að fá léttan hroll yfir þessari "byltingu".
Sá sem nú stjórnar í Egyptalandi heitir Mohamed Hussein Tantawi, og er æðsti maður hersins! Hér verður spurt að leikslokum, en vonandi munu flestir þakka hvað átt er frekar en það sem misst var.
Punkturinn er þessi; það er ekki sanngjarnt að bera saman "sjálfstjórn" kúgaðs fólks, við Íslendinga,enda hafa mótmæli Íslendinga verið furðu friðsamleg fram að þessu, og umburðarlyndi fólks gagnvart meintum fjársvikaglæpamönnum og ráðandi stétt, sem rakað hefur undir sig bittlinga og hlunnindi, er út af fyrir sig rannsóknarefni um "sjálfstjórn".
Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.2.2011 kl. 02:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.