15.2.2011 | 21:10
"Það eru erfiðir tímar..."
"Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref..." orti Laxness. Afboðun verkfalls í loðnubræðslum er rétt en vafalaust erfið ákvörðun, sem varð að taka vegna þess að staðan bæði breyttist og var raunar önnur allan tímann en verkfallsboðendur héldu.
Því var haldið fram sem röksemd, að af því að það voru tiltölulega fáir sem fóru fram á kauphækkun langt umfram það, sem fyrirsjáanlegt var að almennt fengist fram, myndu heildarútlát loðnuverksmiðjanna verða hlutfallsleg lítil miðað við umfang rekstursins.
Þar að auki væri uppgangur í þessum veiðum og því meira aflögu en áður.
Röksemdin varðandi það að því fámennari sem launþegarnir í viðkomandi félagi séu, því hærri laun eigi þeir að fá er siðferðilega röng að mínu mati og of oft sem fáir menn nýta sér það að geta stöðvað heilu atvinnugreinarnar.
Auðveldara er að samþykkja launahækkun ef rök eru færð fyrir því að vegna erfiðra vinnuskilyrða, þungrar ábyrgðar eða dýrs náms gefi það tilefni til hærri launa, eða þá að viðkomandi hópur hefði dregist aftur úr öðrum sambærilegum hópum í launum.
Ég hefði viljað sjá einhverja af þessum röksemdum fyrir mikilli launahækkun umfram aðra eða þá að í hlut ættu láglaunahópur, en það fólk þarf sárlega á betri kjörum að halda.
Engar af þessum röksemdum voru færðar fram af bræðslumönnum, heldur eingöngu það að það munaði ekkert um að hækka laun svona fárra miklu meira en almennt gerðist og að uppsveifla væri einmitt núna í þessum veiðum.
Loðnuveiðarnar hafa verið afar sveiflukenndar og augljóst, að atvinnurekendur gætu ekki lækkað launin stórlega aftur ef loðnubrestur yrði.
Ákveðin byggðarlög úti á landi eiga gríðarlega mikið undir verðmætasköpun loðnuveiðanna og ég er ekki viss um að bræðslumenn hafi haft mikið bakland í baráttu sinni.
Í upphafi var á þeim að heyra að engu líkara væri en að verkfall væri takmark í sjálfu sér en með því að bregðast skynsamlega við þeirri stöðu, sem nú er komin upp, eru þeir menn að meiri.
Það eru nefnilega erfiðir og viðkvæmir tímar.
Búið er að aflýsa verkfalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flugumferðastjórar er sá fámenni hópur launþega, sem hefur verið hvað frekastur í kröfum um kauphækkun, einmitt vegna þeirrar stöðu að getað valdið miklu tjóni með vinnustöðvun. Þó er nám þeirra bæði ódýrt og stutt, frekar auðvelt og öll vinnuskilyrði þægileg.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 22:45
Ég get nú ekki tekið undir það að það sé auðvelt að vera flugumferðarstjóri og þeir bera mikla ábyrgð eins og nýjustu tölur frá Bandaríkjunum bera með sér.
Hin vegar er það þekkt alþjóðlegt fyrirbæri að þeir geti verið frekir til fjárins og er kjarabarátta spánskra flugumferðarstjóra til dæmis þess eðlis, að þeir íslensku blikna í samanburðinum.
Ómar Ragnarsson, 15.2.2011 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.