15.2.2011 | 21:36
Hvað er "gráa svæðið" stórt?
Í þau 60 ár sem ég hef fylgst með íslenskum stjórnmálum hafa aftur og aftur komið upp álitaefni varðandi svonefnt "kynningarefni".
Aftur og aftur kvörtuðu andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn og síðar borgarstjórn Reykjavíkur yfir "Bláu bókinni" sem dreift var fyrir hverjar kosningar í Reykjavík þar sem birtust miklar glæsimyndir af framkvæmdum í borginni, atvinnulífi og menningu.
Þegar Viðreisnarstjórnin tók við völdum 1959 gaf hún út kynningarbækling um róttækar efnahagsaðgerðir þar sem orðið viðreisn var fyrst notað og það með stórum staf.
Stjórnarandstæðingar töldu þetta misnotkun á almannafé og mótmæltu hástöfum.
Upplýsingar og skoðanaskipti eru afar mikilvægar í lýðræðisþjóðfélagi og því er það út af fyrir sig af hinu góða að því sé sinnt vel. Hins vegar er afar vandfarið með þetta hvað snertir þátttöku stjórnvalda í þessu eins og deiluefnið í Kópavogi ber með sér.
Ein af skýringunum á því hvers vegna fleiri tóku ekki þátt í kosningum til Stjórnlagaþings var skortur á upplýsingum og kynningu, en hluti af þessum skorti var það, að nú voru ekki í gangi kosningarmaskínur með aragrúa bæklinga, fundum, kosningaskrifstofum, auglýsingum og úthringingum eins og í venjulegum kosningum.
Raunar hefur komið í ljós þegar borið er saman við önnur lönd, að þátttakan var ekki lakari hér á landi en í sambærilegum kosningum í öðrum löndum.
Við erum hins vegar ekki vön svona lágum tölum í kosningum, því að þáttaka í alþingiskosningum hér á landi er sem betur fer miklu meiri en í öðrum löndum.
Segir bæinn hafa greitt fyrir kosningabaráttu flokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki einungis var framkvæmd kosninganna klúður, heldur einnig sú fásinna að hafa yfir 500 frambjóðendum úr að velja. Betra hefði verið að hafa einhverskonar forkosningu, eða hindranir varðandi fjöldann, t.d. með því að láta þá frambjóðendur sem flest meðmæli gátu aflað sér, vera kjörgenga og hafa þá fjölda frambjóðenda, t.d. 50-100.
Allt ferlið bar vott um hroðvirknisleg vinnubrögð af hálfu stjórnvalda. Það er allt á sömu bókina lært, varðandi þessa blessuðu (ó) stjórn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.2.2011 kl. 00:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.