26.2.2011 | 00:01
Stjórnmál eru list hins mögulega.
Það er rétt hjá Ögmundi Jónassyni að það hefði verið eðlilegast og í samræmi við lög og venjur að endurtaka kosningarnar til stjórnlagaþingsins með sömu frambjóðendum. Þetta hefur verið venjan við sveitarstjórnarkosningar. Sjálfum hefði mér liðið best með þessa niðurstöðu og líklegast flestum 25 menninganna.
En stjórnmál eru list hins mögulega og í ljós hefur komið að þetta hefði orðið afar erfitt í framkvæmd þótt ég telji reyndar að það hefði samt verið mögulegt.
Ástæðan er sú að stjórnlagaþing er ekki valdastofnun heldur hlítir svipuðum lögmálum og venjuleg nefnd sem skipuð er af Alþingi. Þingið var frá upphafi fóstur og barn Alþingis og verður það áfram.
Litlu skiptir hvað við 25 segjum eða gerum, það er Alþingi sem ræður för og við erum þolendur að þessu leyti en ekki gerendur rétt eins og 83 þúsund Íslendingar sem fóru á kjörstað í nóvember.
Í ljós hefur komið að mest samstaða er á Alþingi um þá lausn sem samráðshópur um málið hefur lagt til.
Rökstudd andstaða er gegn því að kosið verði samhliða um Icesave og stjórnlagaþing og það kemur ekki til greina.
Uppkosning hefði aldrei getað farið fram fyrr en í maí-júní og varla praktiskt að þingið byrjaði störf fyrr en síðsumars eða í haust.
Í upphafi málsins eftir úrskurð Hæstaréttar vonuðust menn til að svipuð samstaða fengist um það eins og um stjórnlagaþingið í upphafi, en þá var aðeins einn þingmaður sem greiddi atkvæða í móti.
En með yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar þess efnis að Sjálfstæðismenn vilji blása þetta starf af og færa það inn í þingið er ljóst að þeir muni leggjast gegn hverri þeirri lausn sem felur í sér annað en að málið fari í hinn gamalkunna árangurslausa farveg sem það hefur verið í í 67 ár.
Af þessu leiðir að andstaða Sjálfstæðismanna er jafnmikil við hvora leiðina sem valin yrði og þar af leiðandi hefur það mestan hljómgrunn að afgreiða málið með skipan stjórnlagaráðs.
Athyglisvert er að það var hugsanlega vegna óhapps sem Hæstiréttur gat úrskurðað eins og hann gerði og hefur Þorkell Helgason bent á það. Í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem samþykkt voru um líkt leyti og lögin um stjórnlagaþingið er ákvæði um það að því aðeins sé hægt að ógilda kosningarnar að misferli hafi átt sér stað sem hafi haft áhrif á úrsltin. Slíkt ákvæði var hins vegar ekki sett í lögin um stjórnlagaþing.
Sagt hefur verið að Alþingi megi alls ekki skipa þá í stjórnlagaráð þá sem hlutu mest fylgi í stjórnlagaþingkosningunum. Ef það er svo, vaknar spurningin um það hvort Alþingi megi þá eitthvað frekar skipa aðra í slíkt ráð eða nefnd.
Eða á að líta þannig á úrskurð Hæstaréttar að Alþingi megi yfir höfuð alls ekki skipa nefnd til að endurskoða stjórnarskrána? Eða líta þannig á, að þingið megi gera það, ef það gætir þess að enginn 522 frambjóðenda til þingsins sé í henni?
1851 var kosið í sérstökum kosningum til stjórnlagaþings, sem bar nafnið Þjóðfundur. Þó sat Alþingi í Reykjavík. Ástæðan var sú að þingmönnum væri málið of skylt til þess að þeir ættu auðvelt með að fjalla um málið. Sömu ástæður liggja að baki nú og eru þar að auki byggðar á 67 ára reynslu af mörgum tilraunum Alþingis til þess að framkvæma ætlun sína frá 1944 að gera nýja stjórnarskrá.
Stjórnmál eru list hins mögulega.
Atli: Horfi bara í aurana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Að vel ígrunduðu máli er mín skoðun sú að, aðeins tveir kostir séu í stöðunni varðandi stjórnlagaþing eftir ógildingu kosninganna fyrir alla hlutaðeigandi, þ.e kjörna, þá sem voru í framboði og almenning í landinu.
Að kjósa aftur eða fresta eða slá af stjórnlagaþingið.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 26.2.2011 kl. 00:23
Sæll Ómar.
Þessi stjórnmál eru ömurlega list.
Tel að þú hafir það hreinan mannsanda og sál að þú látir ekki draga þig inn í þessa fléttu stjórnmálamannana og sért þar að auki eitthvað peð á taflborði þessara afla.
Kosningin er dæmd ólögleg og þar við situr. Fjöldi fólks mætti ekki til kosninga vegna þess hversu flókið þetta var og einnig höfðu komið upp kvartanir um fyrirkomulag kosninganna. Bara þessar efasemdir, og auk þess að hægt var að eiga við kosningargögn, o.fl, gerir það að aldrei verður sátt.
Þessi stjónmálafjallabaksleið er ekki neinum til sóma, og það verður heldur aldrei sátt um hana heldur.
Mín skoðun er sú að eina leiðin sé að endurtaka kosninguna sem allra fyrst en jafnframt tryggja líka réttari dreifingu hvað varðar íbúa landsins. Allt of margir sem kosnir voru koma af höfuðborgarsvæðinu. Það er örugglega ekki vilji þjóðarinnar að ný stjórnarskrá sé endursamin af höfuðborgarbúum.
Til að virkja lýðræði Íslands þarf að kjósa aftur og tryggja að Alþingi sé ekki með strengjabrúður í vinnu.
Hvað varðar kostnað að þá held ég að við munum ekki sjá eftir nokkrum milljónum í nýja kosningu. Það er verið að henda nokkrum ef ekki tugum af milljörðum í umsóknarferli ESB og nýtt tónlistarhús á meðan fólk stendur í biðröðum eftir mat, fólk ráfar hér um atvinnulaust og er skattpínt til helvítis. Stjórnmálamenn, verklýðssamtök og fleiri stofnanir virðast hafa nægan tíma til að ræða landsing gagn og nauðsynjar en skynjar ekki sinn vitjunartíma og þarfir almennings. Sína eigin þegna.
Þið 25 menningarnir væru virt af skynsemi og heilindum ef þið létuð ekki draga ykkur út í þennan dauðadæmda skrípaleik, í nafni stjórnmálanna. Vinsamlegast hafið vit fyrir sjórnmálamönnum og stjórnsýslunni, virkjið lýðræði og biðjið um nýja kosningu.
GAZZI11, 26.2.2011 kl. 00:48
Ég tek undir hvert orð GAZZA11, hér fyrir ofan.
Það eru allir á móti "uppkosningu", þó flestir vilji endurkosningu. Sjálfstæðismenn eru þó þeirrar skoðunnar að þingið eigi að afgreiða málið sjálft, á utanaðkomandi hjálpar. Þeir hafa þó ekki nema 16 þingmenn af 63.
Varðandi vilja þingmanna til endurkosningu er nokkuð ljóst að auðveldara væri að ná samstöðu um það en stjórnlagaráð, þó hugsanlega náist meirihluti á þingi fyrir því.
Hvað varða sátt við þjóðina, þá mun hún ekki nást með stjórnlagaráði. Upphaflega var sú hugsun að baki stjórnlagaþingi að þjóðin fengi aðkomu að þeirri vinnu að endurskoða stjórnarskrána. Að þjóðin fengi þá tilfinningu að hún hefði áhrif á það verk.
Með stjórnlagaráði er þeirri hugsun kastað fyrir róða, reyndar hvarf sú von þegar ljóst var hversu fáir kusu til stjórnlagaþingsins.
Þó ekki verði hægt að kjósa fyrr en í maí/júní og stjórnlagaþing geti ekki hafið störf fyrr en í haust, skiptir það minnstu máli. Það er engin tímapressa, við höfum þegar beðið eftir þessu í 67 ár, eins og þú segir Ómar. Það er betra að vinna vandlega að málinu í sátt við þjóðina, þó það tefji hugsanlega málið um nokkra mánuði. Það hefði betur farið ef þetta sjónarmið hefði verið haft uppi frá upphafi þess að ákveðið var að fara þessa leið.
Að ætla að keyra málið áfram með þessari aðferð, í ósátt við stóran hluta þjóðarinnar, er ávísun á enn frekari deilur og ósætti.
Því skora ég einnig á ykkur 25 sem skipa á í stjórnlagaráð, að sýna dug og kjark og krefjast endurkosningar.
Gunnar Heiðarsson, 26.2.2011 kl. 04:30
Þetta þing er nú bara svona ráðgjafaþing, og ég hef ekki heyrt um mikið ósætti um úrslitin. Verð ég því að taka undir með Atla.
Annars, hefur engum dottuð í hug að kjósa bara um hvort menn samþykki þennan hóp með hreinni já/nei kosningu? Miklu einfaldara og miklu ódýrara, og hægt að nota öll sýslumannsembætti til að létta undir.
Allt upp á nýtt er allt of dýrt.
Jón Logi (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 09:19
Atli er bara að spila á smásálirnar, þessir "aurar" skipta engu máli í hinu stóra samhengi því þeir munu allir rata í kassa ríkisjóðs fyrr eða síðar í formi gjalda og skatta sem þeir borga sem taka að sér að halda þetta þing.. það er ekki þörf á erlendum gjaldeyri við þessafrakvæmd og ísland er með nóg af innlendum peningum til þess að takast á við svona lýðræði.
Óskar Þorkelsson, 26.2.2011 kl. 10:17
Ósammála. Þetta er verk sem þarf að framkvæma. Því minna sem það kostar, því ódýrara. Einfalt.
Ef þetta er vitlaust, væri hagkvæmara að gera þetta eins oft og hægt er.
Og innlendur peningur...segðu mér hvar hann er :D
Jón Logi (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 20:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.