28.2.2011 | 10:49
Feimnismálið mikla, rányrkjan.
Rányrkja þykir ljótt orð í íslensku og er á undanhaldi, þótt allir viti hvað það þýðir. Það er helst að það sé notað í sambandi við veiðar ef það á annað borð sést eða heyrist.
Þegar fjallað er um hina "endurnýjanlegu orku", jarðvarmann, heyrist orðið rányrkja aldrei nefnt, heldur er hugtakið falið inni í miðjum greinum um orkunýtinguna með löngum setningum, eða þá að notuð eru orð eins og "ágeng orkunýting" eða "ofnýting", sem eru út af fyrir sig ágæt orð en fara einhvern veginn inn um annað eyrað og út um hitt.
Í umræðunni er rányrkjan líka kaffærð snarlega ef ýjað er að því að hún eigi stað og sagt, að víst sé jarðvarminn endurnýjanleg auðlind, því að það séu þvílík býsn af henni á jörðunni.
Þess vegna sé það viðurkennd alþjóðleg staðreynd að sú orkunýting sem íslendingar stundi og geri áætlanir um, sé endurnýjanleg nýting. Eru fræðimenn eins og Steán Arnórsson snupraðir ef þeir dirfast að varpa ljósi á sannleikann, sem er sá, að í raun er núverandi nýting jarðvarmans víðast hvar á Reykjanesskaganum rányrkja og ekkert annað.
Í Ameríku höfðu Indíánar það viðmið, að nýting yrði að vera þannig að hún skerti í engu möguleika sjö kynslóða. Það samsvarar líklega um 200 árum hér á landi.
Íslendingar eru sennilega sammála um það að væri rányrkja ef við veiddum einhverja fisktegund þannig að hún yrði útdauð eftir 40-50 ár.
Hins vegar er það talið nægja hvað jarðvarmann snertir, að hann endist á viðkomandi svæði í 50 ár.
Þannig er það á Heillisheiði og Nesjavöllum og þeir Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson segja, svo vitnað sé beint í nýlega grein þeirra í Morgunblaðinu, að jarðvarmanýting sé endurnýjanleg ef þess er gætt, að þegar í ljós komi að gengið sé á orkugetu svæðisins, sé orkuvinnslan bara minnkuð nægjanlega mikið til þess að hún endist!
Í nýjustu grein þeirra félaga telja þeir að Stefán Arnórsson hafi gengið of langt í lýsingu sinni á eðli núverandi nýtingar jarðvarmans og á fréttum Stöðvar 2 var þetta tekið snarlega upp sem vottorð þeirra félaga að víst væru allar áætlanirnar um að stórauka nýtinguna hjá Reykjanesvirkjun pottþéttar og alls ekki um ofnýtingu að ræða.
Í frétt Stöðvar tvö var þess hins vegar ekki getið að í grein þeirra Ólafs og Guðna segja þeir í lokin að þeir leggi áherslu á að fara með gætni í orkunýtinguna, sem væntanlega þýði það, að þegar í ljós komi að um rányrkju hafi verið að ræða, verði vinnslan bara minnkuð nægjanlega til að jafnvægi komist á.
Ekkert er rætt um hvað það þýði fyrir samninga um sölu á ákveðnu magni af orku ef í ljós kemur að það þurfi að minnka hana stórlega á samningstímanum.
Hafa áhyggjur af ofnýtingu svæðisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Raforka framleidd frá jarðvarmavirkun er örugglega versti kostur sem til er fyrir álver. Sú gríðarlega raforka sem 350 þúsund tonna álver hefur stöðuga þörf fyrir sýnist hreint glapræði að komi frá jafn óvissum framleiðanda og jarðvarmavirkjun. Jarðvarmavirkjun er mjög sígandi lukka. Við þekkjum það frá hitaveitu Reykjavíkur í bráðum 80 ár. Jarðvarmanýting hentar smáum og meðalstórum rekstri sem ekki er jafn viðkvæmur fyrir sveiflum og risaálver.
Sævar Helgason, 28.2.2011 kl. 11:29
Tek undir og Magma sagði sjálfur þ.e. sjálfur Beaty þetta var ekki sú fjárfesting sem ég hélt. Jarð gufan inniheldur mikil mengunar efni þar mest að koltvísýring svo bara úr hellisheiðavirkjun koma tugir tonna á dag.
Valdimar Samúelsson, 28.2.2011 kl. 14:04
Hvenær ætlar Árni Sigfússon að átta sig á þessu og hættir að byggja loftkastala?
Úrsúla Jünemann, 28.2.2011 kl. 17:44
Það er hárétt sem Sævar Helgason skrifar "Jarðvarmavirkjun er mjög sígandi lukka". Sígandi lukka þykir nefnilega besta form lukkunnar .
Annars vil ég skjóta því hér inn, að dr. Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR, og dr. Guðni Axelsson deildarstjóri jarðeðlis- og forðafræði ÍSOR eru meðal fremstu fræðimanna á sviði jarðhitarannsókna á Íslandi, og reyndar í hinum stóra heimi.
ÍSOR er nátengt Orkustofnun, því ÍSOR varð til er ráðgjafar og stjórnsýsluhluti Orkustofnunar voru aðskilin 1997.
Með fullri virðingu fyrir dr. Stefáni Arórssyni jarðefnafræðingi og prófessor, þá held ég að þekking og reynsla Ólafs og Guðna á þessu sviði sé yfirgnæfandi meiri.
---
Miðvikudaginn 21. október 2009 var haldinn opinn fundur á Hótel Nordica undir yfirskriftinni Sjálfbær nýting jarðhitans. Að fundinum stóðu GEORG (Geothermal Research Group), Iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands, ÍSOR, Orkustofnun og Samorka.
Þarna komu því fram þeir aðilar sem bestu og yfirgripsmestu þekkingu hafa á jarðhitanum á Íslandi og nýtingu hans. Þar á meðal dr Ólafur Flóvenz og dr Guðni Axelsson. Ég fjallaði um þennan fóðlega fund í bloggpistli á sínum tíma.
Sjá hér.
Ágúst H Bjarnason, 28.2.2011 kl. 18:57
Ekki dreg ég hæfni þeirra Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar í efa, en það voru einmitt þeir sem settu það fram í moggagreininni að jarðvarmann væri því aðeins hægt að skilgreina sem endurnýjanlega orku að menn væru viðbúnir því að minnka vinnsluna eftir þörfum þegar í ljós kæmi að um rányrkju væri að ræða.
Ég hef ekki getað lesið neitt annað út úr verkum og skrifum þeirra Guðmundar Pálmasonar, Jóhannesar Zoega, Sveinbjörns Björnssonar, Gríms Björnssonar, Braga Árnasonar, Stefáns Arnórssonar, Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar en það, að því aðeins er hægt að skilgreina hvert virkjanasvæði jarðvarma sem uppsprettu endurnýjanlegrar orku að þess sé gætt af varfærni og í tímans rás, að ganga ekki of nálægt orkuuppsprettunni.
Yfirleitt er sagt i skýrslum um áætlaða orku hvers svæðis, að miðað sé við 50 ára endingartíma. Ef hann er ekki lengri er augljóslega ekki um að ræða sjálfbæra þróun, sem er höfuðatriði í nútíma hugsun í umhverfismálum og samþykkt var sem leiðarljós og krafa á umhverfisráðstefnu Sþ í Ríó 1992.
Það er sláandi og alger munur á virkjun Sogsins, sem getur enst í þúsundir ára og virkjun Nesjavallasvæðsins sem hugsanlega endist í aðeins 50 ár, nema "vinnslan sé minnkuð eftir þörfum" ef orkan fer að minnka eins og segir í grein þeirra Ólafs og Guðna.
Munurinn á rányrkjusjónarmiðum og eðlilegum varúðarsjónarmiðum sést best í þeirri röksemd HS að aðalatriðið sé að því fylgi miklu minni kostnaður að pumpa duglega upp úr litlu svæði en að hafa svæðið stærra.
Það er svona álíka að segja að það sé miklu hagkvæmara að senda allan fiskiskipastólinn á miðin til að veiða duglega heldur en að veiða minna og jafnara og huga að því að auðlindin endist.
Ómar Ragnarsson, 28.2.2011 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.