1.3.2011 | 13:25
Þjóðþrifastarf.
Ég tek það strax fram að kannski verð ég ekki álitinn hlutlaus hvað snertir starfsemi Mýflugs vegna þess að fyrsta flugvél félagsins, Cessna 172, var keypt af mér.
Þegar Leifur Hallgrímsson hóf rekstur einnar lítillar fjögurra sæta flugvélar á Reykjahlíðarflugvelli sýndist það ekki merkilegt í sjálfu sér. Einn maður að rjátla eitthvað á einshreyfls rellu, það gat varla talist mikið.
En strax þá var þetta framtak Leifs mjög merkilegt í mínum augum og dæmi um það samspil tveggja þátta, sem skilað getur okkur Íslendingum mestu, þ. e. mannauðurinn og einstæð náttúra.
Af hvoru tveggja er gnægð í Mývatnssveit og árið áður en ég hóf störf hjá sjónvarpinu hafði ég gælt við þá hugmynd að flytja út á land, annað hvort til Ísafjarðar eða norður, til þess að ryðja fluginu braut úti á landsbyggðinni.
Raunar finn ég dálitla guðföðurtilfinningu í brjósti þegar ég hugsa til flugfélagsins Ernis og Mýflugs, því að þegar Hörður Guðmundsson, nýbúinn að taka flugprófið, keypti fyrstu flugvél sína, TF-AIF, kom það í minn hlut að fljúga með honum vestur og miðla honum af því sem ég gat og byggði á nokkurra ára reynslu minni af flugi til Vestfjarða.
Þessir tveir menn, Hörður og Leifur, eru góðir fulltrúar nýrrar hugsunar og nýrra tíma úti á landi, ef vel er á málum haldið. Báðir hafa gengið í gegnum erfiðleika eins og óhjákvæmilegt er, þegar menn ryðja nýja braut, en ég er afar stoltur af þeim báðum, eins og þeir hafa spilað úr sínu.
Þegar ég fékk mér firmanafnið Hugmyndaflug 1985 var hugsunin sú að bjóða erlendum og innlendum ferðamönnum upp á einstæðar flugferðir á Íslandi. Hugmyndir mínar um flug að Látrabjargi, Hornströndum og Kverkfjöllum fengu góðan hljómgrunn hjá þáverandi flugmálastjóra, Pétri Einarssyni, en hafa ekki enn orðið að veruleika enda ekki gefist tóm eða tími til þess.
En þjónusta flugfélaga þeirra Harðar og Leifs eru þjóðþrifaverk á alla lund.
Til eru þeir sem halda því fram að sjúkraflugið eigi að leysa með þyrlum og leggja Reykjavíkurflugvöll niður.
Ég er mótfallinn báðum þessum hugmyndum. Það er þumalfingursregla að flug á þyrlu sé 4 til 5 sinnum dýrara en á sambærilegri stærð af flugvél.
Þar að auki flýgur flugvélin mun hraðar, er með jafnþrýstiklefa, kemst upp fyrir ísingarskilyrði og þolir ísingu betur en þyrla. Mannslífið er dýrmætt, - kaldur útreikningur hleypur á hundruðum milljóna á mann.
Þyrlur eru nauðsynlegar þegar flugvéla nýtur ekki við, - stundum kemst þyrla það sem flugvél kemst ekki og stundum flugvél það sem þyrla kemst ekki.
Þegar rúta valt fyrir áratug ofan í Hólsselskíl á Fjöllum, komst flugvél þangað strax frá Akrureyri og ég komst norður á lítilli flugvél, en engin þyrla flaug frá Reykjavík.
33 sjúkraflug á 28 dögum segir sína sögu um þörfina á því að viðhalda því þjónustustigi sem nú er.
Mýflug flýgur mýmörg sjúkraflug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta var mjög gott innlegg. Það fer alltaf í fréttirnar þegar þyrlan fer eitthvert slysa-eða-sjúkra-skopp, en fæstir vita að mestöllu sjúkraflugi landsmanna er sinnt af venjulegum flugvélum.
Og einstæðar flugferðir...það er framtíðin!
Jón Logi (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.