Aðeins fréttamenn dæmdir?

Einn þeirra sem tók á móti Óskarsverðlaunum í fyrrakvöld hafði á orði að enginn fjármálamaður, svo að hann vissi til, hefði verið dæmdur í fangelsi eftir fjármálahrunið. 

Sama virðist ætla að verða uppi á teningnum hér á landi en þó gæti það breyst, að enginn verði dæmdur því að nú vill Pálmi Haraldsson í Fons fá fréttamann dæmdan í þriggja milljóna króna sekt fyrir fréttaflutning af viðskiptum félaga og fyrirtækja, sem honum tengjast. 

Meðal þess sem ákært er fyrir er að Svavar hafi sagt að fjárhæðir, sem ekki fengust við gjaldþrot, hafi gufað upp í reyk.

Svo virðist sem ekki sé sama hver segi svona, því að í myndinni "Guð blessi Ísland" svarar Björgólfur Thor Björgólfsson spurningu um það hvað hafi orðið um allar þær svimandi fjárhæðir, sem um sé að ræða, segir hann: "." Þessir peningar hurfu bara."

Svo er að sjá af málflutningi Pálma í Fons að aðeins fjármálamennirnir sjálfir megi viðhafa svona orð. 

Ef fréttamenn geri það varði það milljóna króna sektum.  Auk þess sé refsivert þegar fréttamenn kalli eðlileg fjármálaviðskipti rétt fyrir Hrun viðskiptafléttur og gefi með því í skyn að eitthvað óeðlilegt sé við þessi hundraða milljarða viðskipti fjármálasnillinganna korteri fyrir Hrun og jafnvel í Hruninu sjálfu.

Í ofanálag vill Pálmi að María Sigrún Hilmarsdóttir, sem var fréttaþulur og las viðkomandi frétt, verði líka sett á sakamannabekk og dæmd. 

Og nú fer ég sjálfur kannski að nálgast sektarákæru, því að ég er nú búinn að endurtaka hluta af því sem María Sigrún las. 

Hugsanlegt er að við afhendingu næstu Edduverðlauna muni einhver verðlaunahafa segja: Það vekur athygli mína að síðan fjármálakerfið hrundi fyrir nokkrum árum hafa aðeins fréttamenn, blaðamenn og bloggarar hlotið dóma.

Það er nefnilega hugsanlegt að fyrir þennan pistil fái ég nokkurra milljóna króna reikning frá Pálma í Fons.  Fyrirgefið, þarna fór ég alveg með það.  Ég má víst ekki kenna Pálma við Fons ef marka má málflutning hans á hendur Svavari Halldórssyni.

Svavar mátti víst alls ekki spyrða saman Pálma og Fons - þetta eru nefnilega alls óskyld fyrirbæri.

Nú lá ég alveg í því. 


mbl.is Tekist á um fréttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Þeir eru að koma skríðandi úr skúmaskotum sínum núna, "hvítflibbakr......." (best að fara varlega) og vex ásmeginn núna þar sem verið er að opna leiðina að kjötkötlunum á ný, með samþykkt Icesave, vel stutt af valdasjúkum og spilltum ráðamönnum, en held samt að þeirra tími sé liðinn, forsetinn er ekki einn um þessa skoðun hér:

“How far can we ask ordinary people – farmers and fishermen and teachers and doctors and nurses – to shoulder the responsibility of failed private banks. That question, which has been at the core of the Icesave issue, will now be the burning issue in many European countries.”

En lái þeim svosem ekki að þeir reyni með öllum bellibrögðum að sverta þau sem eru með opnum huga að sýna okkur hversu rotið þetta kerfi er búið að vera, tími til kominn að linni.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 1.3.2011 kl. 20:25

2 identicon

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til, því það er nefnilega vitlaust gefið.

Steinn Steinar

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 21:33

3 identicon

Ómar Ragnarsson, sem á sinni tíð, las fyrri hluta laganáms, (3 ár) ef rétt er munað, telur  það refsilækkunarástæðu fyrir fréttamenn, að einhverjir aðrir skuli ekki hafa verið dæmdir fyrir eitthvað allt annað. Það er sakamálarannsókn í gangi gegn fjölmörgum þessarra manna. Á ekki að dæma neinn fyrr en henni er lokið og dómur fenginn, kannski eftir 2 til 6 ár?? Er réttarríkið mönnum ekki hugleiknara en þetta. Eitthvað hefur nú fennt yfir júridíska þankaganginn hjá Ómari og er það ekki til bóta.   

Starkaður (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 21:43

4 identicon

Þeir sem kaupa farmiða hjá Pálma og greiða fyrirfram eru eitthvað undarlegir. Hann er búinn að setja þrjú flugfélög á hausinn, fyrst FlyMe, svo Sterling svo hitt í Danmörku og nú á hann fjórða flugfélagið. Hvenær fer það á hausinn og eftir sitja þeir sem hafa fyrirframgreitt honum með sárt ennið? Munið svo: Flugmenn Pálma borga ekki skatta á Íslandi, það út af fyrir sig er næg ástæða til þess að kaupa ekki farmiða þarna.

Össi (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 21:53

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er í raun að benda á hvernig gangur mála er, og sé ekki betur en að Starkaður sé sammála mér í því að kannski verði það ekki fyrr en eftir fjögur ár úr þessu að hugsanlega verði einhver dómur felldur varðandi fjármálamenn.

Hins vegar er auðvelt að ljúka málum fréttamanna snarlega svo að ábending mín um það á næstu Edduhátíð varðandi það að þá verði aðeins búið að dæma fréttamenn er í samræmi við skrif Starkaðar. 

Ég hef aldrei haldið því fram að mál eigi að reka með samanburði eða tilvísun til annars málareksturs og hef oftar en einu sinni áréttað að allir sakborningar skuli teljast sýknir saka, nema sekt þess sé sönnuð fyrir dómstólum. 

Eini samanburðurinn sem ég tek í pistlinum er sá að fjármálamaður segir að svimandi háar fjárhæðir hafi bara horfið si svona og það skapar engin eftirmál.

Hins vegar er fjölmiðlamaður kærður fyrir að segja það sama um svipað fyrirbrigði. 

Það finnst mér athyglisvert án þess að ég leggi neinn dóm á það. 

Ómar Ragnarsson, 1.3.2011 kl. 23:46

6 Smámynd: Tryggvi Hübner

En Bjöggi orðaði þetta af sérstakri tillitssemi (við hinn látna) :

"The money goes to Moneyheaven"

Þar liggur munurinn.

Tryggvi Hübner, 2.3.2011 kl. 03:32

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það var ekk óalgengt fyrir um 2000 árum síðan, að boðberar væriu líflátnir fyrir að koma með slæmar fréttir. Hugsanlega eru þau viðmið að renna upp aftur!

Gunnar Heiðarsson, 2.3.2011 kl. 07:47

8 Smámynd: Kristján Logason

snilldar skrif um öfugþróun í þjóðfélaginu sem verður að stöðva.

Þetta er ný tegund af ofbeldishótun, og ber að skoða sem slíka

Kristján Logason, 2.3.2011 kl. 08:05

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það þarf að vernda þessa fréttamenn sérstaklega gegn þessum hótunum, því þær eru til þess eins gerðar að kæfa umfjöllun um málin.

Hrannar Baldursson, 2.3.2011 kl. 08:48

10 identicon

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin, og ef landsmenn endurtaka orð fréttamanns allir sem einn, þá verður Pálmi kannski ríkur á því að kæra alla. Hvet ég því bloggara alla sem einn að skjóta tilvitnun fréttamanns inn á vel-opnanlegt blogg. Svo má náttúrulega bæta við kryddi eftir þörfum.

Ég byrja:

"Pálmi 'a la Fons. Þér hefur tekist að láta svimandi háar fjárhæðir gufa upp. Það er ekki ljóst hver mun klastra í þau gufu-göt, en mig langar ekki til að taka þátt í því. Óska ég þess helst að fá að sjá þig í járnum og klefa. Punktur."

(ég hef reyndar ekki efni á sekt, en ....dash and bravado!)

Jón Logi (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 11:38

11 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Hárrétt Ómar. Auðvitað nær þetta alveg aftur til tíma Rómverja þegar boðberar voru hengdir fyrir að bera slæmar fréttir. Þetta hefur verið lengi við líði hér á landi og það þekkjum við en nú er þetta allt rekið fyrir dómstólum sem virðast því miður ekki hæfir til að taka á mörgum málum í dag enda kannski ekki óeðlilegt miðað við hvernig dómarar hafa verið skipaðir.

Haraldur Bjarnason, 2.3.2011 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband