10.3.2011 | 23:30
Hið hljóðláta starf.
Margoft hefur það komið í ljós að þegar við reynum að meta varðveislugildi menningarverðmæta og hluta skjátlast okkur í vali okkar.
Einkum vill það brenna við að hið hversdagslega, algenga og það, sem snertir tilveru barna, unglinga og alþýðu, vill gleymast og fara forgörðum.
Við geymum vandlega höfðinglega torfbæi en höfðum rústað litlu torfbæjunum sem meginþorri þjóðarinnar bjó í um aldir.
Ágætir brautryðjendur í kvikmyndagerð voru iðnir við að taka myndir af gömlum búskaparháttum þegar þeir voru að leggjast af fyrir 60-70 árum og sömuleiðis er til mikið af myndum af skrúðgöngum, glímusýningum, ræðuhöldum og öðru slíku, sem var haft í frammi á hátíðum, en að sama skapi lítið af venjulegu lífi fólks á mesta breytingatímanum á árunum 1940-1965.
Una Margrét Jónsdóttir hefur unnið næsta hljóðlátt starf við að bjarga menningarverðmætum sem annars hefðu glatast að miklu leyti og snerta börn og ungviði.
Þess vegna samgleðst ég henni þegar hún fær verðskuldaða viðurkenningu Hagþenkis fyrir framúrskarandi verk sín á þessu sviði.
Á tíma tölvuleikjanna verður að hafa í huga, að þeir eru algerlega háðir því að tölvur, rafmagn og tölvugögn séu notuð.
Hinir gömlu söngvaleikir og aðrir leikir og menning barna voru hins vegar ekki háðir neinu slíku og því hægt að iðka þá nánast hvar sem var.
Hvað sem tækninni líður er gott að vera minnugur þess, að hún getur brugðist og þá er ekki gott að hafa drepið í dróma ímyndunarafl og sköpunargáfu, sem þarf ekki á flókinni og dýrri tækni að halda.
Una Margrét verðlaunuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hún á þessi verðlaun margfaldlega skilið,mjögsvo þakkarvert hennar framlag til handa þjóðinni til framtíðar. Til hamingju Una Margrét,og takk fyrir.
Númi (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.