Ekki óbrigðult.

Halda mætti að fæðingardagur hverrar manneskju sé óumdeilanlegur. Reynslan sýnir þó að svo er ekki, einkum meðal fátækra þjóða og dæmi eru um að frægt fólk hafi verið fætt jafnvel nokkrum árum fyrr eða seinna en talið var.

Grunnurinn að tímatali okkar er fæðingardagur Krists, en færð hafa verið að því skýr rök, að hann hafi fæðst nokkrum árum fyrr en tímatalið segir til um, jafnvel allt að sjö árum fyrr. 

Þetta þarf að vísu ekki að koma á óvart vegna þess hve langt er liðið síðan. Hins vegar eru dæmi um það frá okkar tímum að fæðingardagar hafi skolast til. 

Á árunum 1959 til 1964 var bandaríski blökkumaðurinn Sonny Liston besti þungavigtarhnefaleikari heims þótt honum væri haldið frá titlinum til 1962. Eftir yfirburðasigur hans á Floyd Patterson 1962 og 1963 var hann talinn gersamlega ósigrandi. 

En honum hafði förlast árið eftir þegar hann tapaði óvænt fyrir Cassiusi Clay, sem strax eftir bardagann tók sér nafnið Muhammad Ali. 

Hraðinn hafði minnkað hjá Liston þótt höggþyngdin væri svipuð. Ástæðuna rekja sumir til þess að hann hafi verið eldri en vottorð sögðu til um og kominn um fertugt. 

Afi minn heitinn Edvard Bjarnason hélt upp á afmælisdag sinn 2. júní en í fæðingarvottorðinu mun hafa staðið 12. júní, sem hann taldi ranga dagsetningu.

Það má grínast með fæðingarvottorð eins og annað.

Síðan Hæstiréttur úrskurðaði að kosnningarnar til stjórnlagaþings væru ógildar höfum við 25 menningarnir hist nokkrum sinnum til að spjalla saman, skiptast á skoðunum, kynnast hvert öðru og ráða ráðum okkar

Samkvæmt fæðingarvottorðum telst ég aldursforseti og af þeim sökum barst sá bolti til mín að halda eitthvað utan um þessi samskipti, líklega vegna þess að Hæstiréttur gæti líkast til ekki borið brigður á aldur minn! 

En fréttin frá Ítalíu um vottorð Hjartaþjófsins Ruby sýnir að fæðingarvottorð eru ekki endilega neitt pottþéttari en önnur skjöl. 

Og alþekkt er að aldur kvenna getur verið feimnismál í augum þeirra, sem rétt sé að ræða sem sjaldnast. 


mbl.is Er fæðingarvottorð Ruby falsað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú skrifar réttilega Ómar að aldur kvenna geti verið feimnismál í augum þeirra. Þetta er hárrétt og að mínu mati bara eðlilegt. Því fannst mér innleiðsla kennitölunnar eiginlega dónaskapur við konur. Hvar voru feministar eiginlega að skakklappast þegar þetta var gert? Fyrir skömmu var ég að koma frá FRA með Icelandair og við hliðan á mér sátu hjón á besta aldri. Konan var mjög myndarleg, en þó komin á þann aldur að hún vill ekki að spurt sé hvaða ár hún sé fædd. Hún keypti eitthvað í vélinni og borgaði með korti. Flugfreyjan, kurteis og vingjarnleg, bað um kennitölu hennar. Hún svaraði ekki, svo flugfreyjan endurtók spurninguna. Konan segir þá við hana; þú sérð hana á kortinu. En af hverju tók ég eftir þessu? Vegna þess að flugfreyjan var í tvígang að spyrja konuna hversu gömul hún væri. En slíkt gerir maður ekki.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.3.2011 kl. 21:30

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef aldrei skilið afhverju aldur kvenna á tilteknu lífsskeiði, er eitthvert feimnismál.

Hégómi og ekkert annað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2011 kl. 00:16

3 Smámynd: V

Að konur skammist sín raunverulega fyrir aldur sinn tel ég að séu hreinar ýkjur. Ég held að það sé líklegra að sumar haldi hreinlega að það sé ætlazt til þess af þeim. Hvað sem því líður, þá er þetta hreinn hégómi.

Eini tilgangurinn sem gæti verið með því að ljúga til um aldur sinn fyrir rosknar konur er etv. vonin um að komast í kynni við yngri menn en ella, þar eð það er neyðarlegt í augum sumra karlmanna að vera á föstu með konu sem er (mikið) eldri en þeir sjálfir, nema þær séu velefnaðar. En þótt þær geti logið til um aldurinn, geta þær ekki logið til um útlitið nema fara í andlitslyftingu. Alveg eins og offitusjúklingur getur ekki logið sig grannan við persónuleg kynni. Og eins og allir vita, þá komast allar lygar upp um síðir.

Tilgangur unglingsstúlkna að ljúga sig eldri, ef þær eru bráðþroska, er annað hvort að geta stundað kynlíf auðveldar eða til að geta farið inn á skemmtistaði með aldurstakmarki. En þetta gildir líka unglingsstráka. Áður fyrr á Íslandi voru notuð nafnnúmer, sem ekki voru tengd fæðingardag. Þá urðu unglingar að ganga með nafnskírteini, sem sumir reyndu að falsa með misjöfnum árangri. Í pólítísku lífi hins vegar getur mótífið fyrir svona lygar hjá unglingsstúlkum verið að koma pólítíkusum eins og Berlusconi, sem dregur til sín ungar konur í krafti valda sinna og charisma, á á kaldan klaka.

Það versta við notkun kennitalna á Íslandi er ekki að aðrir geta séð fæðingardaginn/aldurinn, heldur hversu opið kerfið er. Allir gætu, ef þeir hefðu áhuga á því fengið alls konar upplýsingar um hvern sem er í gegnum síma eða netið, bara með því að þekkja nafn og kennitölu, sem er aðgengileg í þjóðskránni gegnum netbanka. Í Danmörku hins vegar eru upplýsingar um kennitölu trúnaðarmál og ekki aðgengilegar óviðkomandi persónum, einmitt til að koma í veg fyrir misnotkun.

V, 15.3.2011 kl. 00:27

4 identicon

Hégómi segið þið Gunnar og Liberty. Það má vera. En stórfurðulegar þykja mér skoðanir Liberty á samskiptum kynjanna ef aldursmunur er á, þar sem konur eru eldri :) Eitthvað skortir á lífsreynslu þar auðsjáanlega, en hún mun nú koma með tíð og tíma. Ég hef sjálf aldrei skammast mín fyrir aldur minn og aldrei hikað við að gefa upp mína kennitölu en við fólkið höfum bara ekki öll sömu sýn og sömu skoðun á hlutunum. Ég get vel skilið að sumum finnst fólki hreinlega ekki koma það við hvað það sé gamalt. Hégómi, það má vera.

assa (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 08:55

5 identicon

Konan mín er og verður 29 ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 08:59

6 Smámynd: V

Mamma mín hélt þessu líka fram árum saman. Í hvert skipti sem hún átti afmæli, þá sagðist hún vera orðin 29 ára. Svo þegar ég sjálf var orðin tvítug, spurði ég hana hvort hún hefði átt mig þegar hún var níu ára. Þá varð henni ljóst, að baráttan við Elli kerlingu var töpuð.

V, 15.3.2011 kl. 13:46

7 Smámynd: Vendetta

Að halda aldri sínum leyndum fyrir ókunnugum skiptir engu máli og hefur engar afleiðingar. Það sem er alvarlegra er lífsviðurværi fólks þar sem það getur ekki haldið aldri sínum leyndum. Þá er ég að tala um það sem er kallað aldursfasismi á vinnumarkaðnum gagnvart launþegum sem eru eldri en ca. 45 ára með venjulega menntun, sem ekki eru í stjórnunarstöðum. Ég veit ekki hvað þetta er útbreitt á Íslandi en í Danmörku er þetta mikið vandamál fyrir þennan hóp.

Í sumum fyrirtækjum eru sumir starfsmenn, og þetta á einkum við konur, hreinlega reknir þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri, og aðrar yngri ráðnar í staðinn. Þ.e.a.s. starfsmaður með mikla þekkingu og reynslu á sínu sviði er rekin(n), en annar/önnur er ráðin sem er algjörlega blaut á bak við eyrun. Eitt sinn þegar ég vann á verkfræðistofu í Kaupmannahöfn, þurfti ég að biðja tækniteiknara að útbúa teikningu fyrir verkefni. Þetta var fyrir tíma AutCad, svo að allt var teiknað með tússi á sérstakan glæran pappír. Reyndasti og elzti teiknarinn var í fríi svo að ég bað annan teiknara, stelpu um tvítugt að gera teikninguna og gerði hún það (þetta var lítið fyrirtæki með aðeins tveimur teiknurum ráðnum). Svo þegar hin kemur úr fríinu, þá sér hún strax, að þessi umrædda teikning er kolvitlaus, því að stelpan (sem þó hafði próf sem tækniteiknari) hafði ekki fylgt neinum staðli. Hún fer þá sjálf í það að gera nýja teikningu í réttri stærð og með réttum strikabreiddum skv. stöðlum. Fáeinum mánuðum síðar var þessi reyndari rekin vegna aldurs, en sú unga, óreynda hélt starfi sínu. Reynslan skipti engu máli, einungis aldurinn.

Þegar ég skrifaði að þetta ætti einkum við um konur, hangir það saman við þá staðreynd að konur hafa að jafnaði lægri menntun en karlar, amk. í Danmörku. Sem gerir það að verkum, að í vissum starfsstéttum með "millimenntun" er mikill meirihluti kvenna og í öðrum starfsstéttum með "æðri" menntun (længerevarende uddannelse)eru nær einungis karlar. Ég ætla ekki að fara að gizka á orsakirnar fyrir þessu, enda er margt sem spilar þar inn í.

Þetta er það sem eldra fólk í Danmörku upplifir, að það sé hunzað þegar það sækir um atvinnu, einungis vegna aldurs. Þetta eldra fólk (>50) kallast grátt gull og maður eða kona sem hefur meiri og fjölbreyttari starfsreynslu en 60 þingmenn og bankastjórar samanlagt, sem gæti verið akkur fyrir fyrirtækin vegna þessarar reynslu, verða annað hvort að

  • vera atvinnulaust næstu 15 árin þar til þau fara á eftirlaun,
  • fara á örorkubætur (förtidspension) ef þau gefast upp
  • taka vinnu sem ófaglærðir, þrátt fyrir menntun sína og starfsreynslu, fyrir lág laun.

Ég veit ekki hvernig þetta er hér á Íslandi. Mig grunar þó, að þetta viðhorf vinnuveitenda sé ekki svo útbreitt hér. Kannski er öðruvísi vinnumarkaðsfasismi í gangi hér: Mismunun gagnvart starfsmönnum/umsækjendum sem ekki eru tengdir eða skyldir stjórnendum fyrirtækjanna.

Vendetta, 15.3.2011 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband