Langhlaup.

Framtak þeirra Einars Bárðarsonar og Loga Geirssonar við að takast á við ofþyngd fyrir opnum tjöldum er mjög þakkarverð. Gildir þá einu hvort eða hvernig þetta tekst, því að um er að ræða alveg sérstaklega erfitt heilsufarsvandamál sem er eitt það versta í heiminum.

Þynging fólks gerist oftast á býsna löngum tíma, jafnvel áratugum. Hún er lúmsk af því að hún gerist oftast svo hægt.

Einu gildir hvort menn gangast undir snarpt og öflugt átak, eins og virðist vera uppi á teningnum hjá þeim Loga og Einari, eða taka þetta hægt og bítandi og horfa til langs tíma, raunar fram til þess sem eftir er af ævinni. 

Því miður er það þannig að í langflestum tilfellum þegar menn létta sig með áköfu átaki, að það sækir fljótlega í sama farið aftur og jafnvel því hraðar sem átakið var snarpara. 

Það eru nefnilega takmörk fyrir því hve hart er hægt að ganga að líkamanum hvað næringu snertir, því að hann þarf lágmark af fitu, orku og vökva til að heilsan sé í lagi. 

Ef ekki er haldið áfram eins og í langhlaupi þegar nokkurra vikna eða mánaða átaki er lokið, er voðinn vís. 

Fíkn i sykur og fitukenndan mat eins og súkkulaði er sama eðlis og önnur fíkniefnavandamál. 

Fíklar þekkja að áreiti hefur mikið að segja og þegar menn eru að venja sig af neyslunni er áríðandi að halda sig frá öllu sem er freistandi. 

Gallinn við mat er hins vegar sá að við verðum að borða og komumst ekki hjá því að rekast á góðgætið hvar sem við erum. 

Auk þess eru afmæli hér og veitingar þar auk helgardaganna sem alltaf eru þungir í skauti. 

Ég var í góugleði sem er nokkurs konar ættarmót í fyrradag og þurfti að taka mér tak í hörðum, hljóðum rökræðum við sjálfan mig:

"Ég er vanur að fá mér ábót í svona veislum á "nammidögum", jafnvel nokkrum sinnum. Er nokkuð að því þótt ég geri það núna?"

"Jú, það er mikið að því. Þú varst góðu afmælishófi í gær uppi í Leirársveit og sagðir það sama við þig þá." 

"En ég get alveg náð þessu til baka næstu virku daga með því að vera bara duglegri þá." 

"Af hverju að vera gera það erfiðara með því að slaka of mikið á núna? Af hverju þarftu endilega að fá þér ábót? Er ekki nóg að smakka bara svolítið á góðgerðunum og standa sig?" 

 

Jafnvel þótt maður leyfi sér svolítil frávik einn dag í viku má ekki gleyma því að jafnvel undantekningarnar geti farið úr hófi fram og það er ekki endalaust hægt að fresta því til morguns, sem hægt er að gera í dag.

Eins og í hverri annarri meðferð við fíkn er þetta langtímaviðfangsefni þar sem aldrei má missa sjónar á nauðsyn þess að vera á tánum hvern einasta dag og sleppa aldrei tökum á verkefninu. 

Ég sendi þeim Einari og Loga þakkir og hvatningu sem einn af tugþúsundum íslenskra sálufélaga þeirra í þessum málum. Ég þarf að vísu aðeins að taka af mér um tíu kíló en það virðist vera nógu erfitt samt. 

 


mbl.is „Vonlaust að létta Einar Bárðar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að eiga við aukakílóin er endalaust verkefni. Það þekki ég á sjálfum mér. Góð frænka mín orðaði það svo að ,,þau" vilji alltaf koma aftur heim og helst bjóða vinum sínum með. Gangi ykkur vel, Einar og Ómar - og Geir: farðu varlega með vin minn hann Einar. Ekki misbjóða með töffaraskap, þannig næst aldrei árangur!

Jón Þórðarson (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband