Farþegar til alls vísir.

Það er sama hvort flugvélarnar eru litlar eða stórar, - farþegar þeirra geta ekki síður valdi óhöppum og slysum en flugmennirnir.

Ég hafði ekki flogið nema í eitt ár þegar fyrsti farþeginn gerði mér lífið leitt. Ég ætlaði að fljúga á fjögurra sæta vél til Hornafjarðar ásamt undirleikara mínum, Hauki Heiðari Ingólfssyni og konu hans, Sveinrósu Sveinbjarnardóttur, og var beðinn um að taka með mér lögregluþjón úr Reykjavík, sem samkomuhaldara á Höfn vantaði til að sinna löggæslu. 

Þegar maðurinn kom út á flugvöll kom í ljós að hann var vel við skál og gerðist uppivöðslusamur þegar ég harðneitaði að taka hann með austur. 

Þegar ég kom austur fékk ég skömm í hattinn því að ekki veitti af löggæslu á fjölmennu balli um kvöldið. 

Enda fór allt úr böndunum eftir ballið, fylliraftar léku lausum hala og brutu rúður og dyr í húsum. 

Var neitun minni kennt um en mér þó sýndur skilningur. Ég er þó á því að miðað við hegðun lögreglumannsins á Reykjavíkurflugvelli hefði hann allt eins verið líklegur til að ganga í lið með skemmdarvörgunum, sem gengu berserksgang eftir ballið í Höfn. 

Eitt sinn var ég beðinn um að fljúga með hjón til Reykjavíkur og vildu þau taka hund sinn með. 

Ég var tregur til en þau höfðu fötu meðferðis fyrir hundinn og komu auk þess með hann deyfðan af dýralækni svo að hann lá sem dauður væri. 

Fyrir þrákelkni eigenda hundsins og grátbónar lét ég til leiðast að reyna flugtak. 

Hundurinn var bundinn tryggilega niður og síðan var farið í loftið. Þá brá svo við, að hundurinn, sem virtist hafa verið í dái, rankaði við sér og trylltist gersamlega. Sem betur fer var rétt kominn í loftið þegar þetta gerðist og flýtti mér að fara þröngan hring og lenda áður en hundurinn ylli usla í vélinni. 

Sumarið 1986 tók ég að mér að fljúga með hreindýr frá 200 ára afmælissýningu Reykjavíkurborgar austur á Djúpavog. Vélin var TF-HOF, tveggja hreyfla fimm farþega flugvél. 

Þetta var hreindýrskálfur og var deyfður og komið fyrir liggjandi aftur í flugvélinni þar sem aftursætin höfðu verið fjarlægð. Dýrið var í neti og tryggilega niðurnjörvað. 

Ferðin með dýrið gekk vel þar til ég var staddur yfir ofanverðum Breiðamerkurjökli. Þá fór hreindýrið að brjótast hart um og sparka og vildi svo ótrúlerga til, að því tókst á einhver óskiljanlegan hátt að sparka þannig í læsingu hurðarinnar á farangurshólfinu, að hún hrökk upp og hreindýrið rann hálft út um farangursdyrnar!

Flugvélin hristist og skalf og ég var hræddastur um að dýrið myndi með hamaganginum komast það langt út úr vélinni að það truflaði loftflæðið yfir hæðarstýrið aftast á vélinni. 

Ég reikna með að það fólk á jörðu niðrir sem sá flugvélina fljúga lágt yfir þjóðveginum í átt að Fagurhólsmýri hafi varla trúað sínum eigin augum að sjá hálft hreindýr hanga út úr vélinni! 

Á flugvellinum var hægt að ganga betur frá dýrinu þannig að algerlega væri útilokað að það sparkaði hurðinni aftur upp og tókst mér að klára þessa óvenjulegu flugferð farsællega. 

Villidýr eru þó ekki hættulegustu farþegarnir. 

Á flugi á TF-FRÚ með fjóra menn fyrit mörgum áratugum rann skyndilega æði á þann sem sat við hlið mér. Hann þreif í stýrið sín megin og þrýsti því fast og eldsnöggt fram með þeim afleiðingum að flugvélin stakkst beint á nefið áður en ég gæti rifið í stýrið á móti. 

Allir í vélinni hentust upp í loftið í öryggisbeltunum og allur sandur á gólfunum og annað lauslegt í vélinni hentist upp í þakið. 

Þessi flugvélargerð er aðein hönnuð til að þola tæp 2g í öfugu álagi en fór örugglega vel yfir það mark þegar þetta gerðist. 

Þegar ég grennslaðist fyrir um hugsanlega orsök þessa snögga æðis, sem stóð raunar aðeins í nokkrar sekúndur, kom í ljós að líklega hefði maðurinn neytt slæmrar blöndu af fíkniefnum þess tíma, þ. á. m. LSD-ofskynjunarlyfsins. 

Hann hafði að vísu verið með syndandi augnaráð þegar hann settist upp í vélina en enginn átti von á þessu uppátæki hans sem hefði getað kostað okkur alla fjóra lífið. 


mbl.is Farþegar í annarlegu ástandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta eru alveg ótrúlegar sögur hjá þér Ómar. Takk fyrir þær

Sævar Helgason, 16.3.2011 kl. 21:29

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég sem hef verið að horfa á Air Crash Investigationa undanfarið. En hreindýr!

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.3.2011 kl. 22:10

3 identicon

Hreindýr er ekki neitt neitt. Maðurinn er búinn að taka þá áhættu að fljúga með MIG!

Jón Logi (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband