Annað gildir um grasrótarflugið.

Gott er að heyra loksins jákvæðar fréttir af Landeyjarhöfn en því miður var ekki jafn bjart yfir fundi, sem eigendur lítilla flugvéla voru á í kvöld með fulltrúum frá Flugmálastjórn Íslands.

Fundarmenn urðu raunar fyrir áfalli þegar þeim varð nú fyrst ljóst, að í raun myndi stærstur hluti flugvélaflotans stöðvast óhjákvæmilega á þessu ári vegna nýs regluverks um viðhald og eftirlit, sem tekur endanlega gildi 28. september næstkomandi.

Samkvæmt því verður eftirlit og viðhald vélanna einkavætt í samræmi við kröfur EASA, sem er nokkurs konar samband flugmálastjórna í Evrópu og allar Evrópuþjóðir eru aðilar að nema fjórar þjóðir á Balkanskaga. 

Til að sjá um þetta eftirlit og viðhald þarf að vera til staðar fyrirtæki, sem hefur fengið til þess réttindi, en ekkert slíkt er til hér á landi, enda menn alveg óviðbúnir þessu og kostar minnst tvær milljónir króna að setja slíkt á stofn og minnst sex mánuði að gera það.

Jafnvel þótt farið yrði í slíkt myndi það ekki koma í gagnið fyrr en næsta vetur og því fyrirséð að flotinn mun stöðvast út árið að minnsta kosti. 

Nú þegar eru einhverjar vélar dottnar út og þeim mun fjölga við hver mánaðamót eftir því sem lofthæfið rennur út.

Þetta er þó ekki allur floti litlu vélanna því að undanþegnar eru flugvélar sem voru hannaðar fyrir 1955 og ekki framleiddar lengur en til 1975. Einnig allra minnstu fisflugvélarnar og heimasmíðaðar vélar. 

Er það sérkennileg útfærsla á auknu flugöryggi að kröfurnar séu meiri gagnvart nýrri vélunum en þeim eldri. 

Þetta er mesti afturkippur í grasrótarfluginu á Íslandi síðan það hófst fyrir 66 árum. 

Með því að innleiða þetta regluverk á Íslandi eru sérstaða landsins að engu höfð.

Ísland er eina landið í EASA sem er langt frá öðrum löndum úti í ballarhafi þannig að litlu flugvélarnar hér fljúga bara hér en ekki þvers og krusss á milli landanna á meginlandinu. 

Ísland er eina landið sem hefur ekki her og þjálfar því ekki flugmenn á þann hátt. Hér koma flugmennirnir úr grasrótarfluginu. 

Vegna smæðar þjóðfélagsins og fjarlægðar frá öðrum löndum getum við ekki leitað á náðir fyrirtækja í öðrum EASA löndum til að taka að sér eftirlit og viðhald. 

Fulltrúi Flugmálastjórnar Íslands var spurður á fundinum um ástæður þess að við gengum í EASA. 

Hann sagði að hún blasti við: Engin leið væri að halda uppi öflugum flugrekstri hér og stunda stórfellt millilandaflug nema að taka þátt í því eina alþjóðasamstarfi, sem væri í boði eins og sæist á því að nær öll lönd Evrópu væru aðilar að þessu samstarfi. 

"Við urðum að taka meiri hagsmuni fram yfir þá minni" sagði hann orðrétt. 

Af því má álykta að grasrótarflugið flokkaðist undir "minni hagsmuni".

Á sínum tíma voru 172 blaðsíður af efni sendar til flugvélaeigenda hér á landi. Þótt reynt væri að grufla í þeim var engin leið fyrir venjulegan borgara að átta sig á því hvað raunverulega myndi gerast.

Fundarmenn í kvöld fengu það hins vegar útskýrt á mannamáli á ca 5 mínútna kafla í ágætri og greinargóðri framsögu fulltrúa frá Flugmálastjórn. 

Gott hefði verið að sjá slíkt á blaði fyrr en nú. Það minnir á lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda. 

Hvað um það, - það liggur þá ljóst fyrir að TF-FRÚ verður ekki flogið meira á þessu ári og kannski ekki framar. 

Ég á hins vegar litið 120 kílóa eins manns opið örfis hangandi uppi í lofti á Samgöngusafninu í Skógum. 

Fer þangað sennilega í sumar, tek það niður, fæ vin minn til að gera við bilaða tvígengisvélina sem í því er og flýg á því eftirleiðis í þágu aukins flugöryggis í Evrópu. 


mbl.is Bjartsýni ríkir um Landeyjahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sennilega er þetta eitt af regluverkum ESB, sem er verið að lauma inní okkar stjórnsýslu.

Hið svokallaða aðildarferli er á fulli alls staðar bakvið.

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 05:41

2 Smámynd: Stefán Stefánsson

Svona er þetta með þá sem stjórna Íslandi hverju sinni.
Það er rokið til og tekið upp alls konar regluverk frá Evrópu (bæði á landi og í lofti) og horft framhjá möguleikum sem oft eru til staðar með undanþágur sem til eru vegna smæðar og legu landsins.
Oftast endar þetta með því að öryggi minnkar þegar upp er staðið.

Þetta er lýsandi dæmi um viðhorf Flugmálastofnunar og stjórnvalda að fórna hagsmunum þeirra minni fyrir þá stóru.
Þetta er vont mál Ómar.

Stefán Stefánsson, 17.3.2011 kl. 08:20

3 identicon

Hver þó í HOPPANDI!#"$%&%$#"#!! ARR.

Bara slegið af si svona.

Og nú spyr ég:

"Hann sagði að hún blasti við: Engin leið væri að halda uppi öflugum flugrekstri hér og stunda stórfellt millilandaflug nema að taka þátt í því eina alþjóðasamstarfi, sem væri í boði eins og sæist á því að nær öll lönd Evrópu væru aðilar að þessu samstarfi. "

Hvað meinar maðurinn? Er verið að stoppa millilandaflugið eða hvað? Og verður þá ekki flogið á Balkanskaga? Hvað með Bandaríkin, sem eru með annað system? Hvað með Bretana sem gleyptu ekki allan IAR pakkann eins og við? Hafa þessir kálhausar ekkert annað að gera heldur en að gleypa ALLT oní kok sem borið er á borð? Hvað hefði gerst ef að þetta regluverk hefði einfaldlega ekki verið samþykkt?

Og Ómar, REXinn er til sölu, nýupptekinn. Hann má sjálfsagt fljúga, nógu gömul hönnun og ég held ekki lengur í framleiðslu. Alveg eins og nýr og miklu meira tæki heldur en skaftið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 08:20

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Litlu ríkin á Balkanskaga reka ekki öflug flugfélög, sem þurfa að keppa á alþjóðamarkaði, eins og við gerum og vera samkeppnishæf á alla lund. Sá er stóri munurinn. Norðmenn, sem eru í svipaðri stöðu og við hvað snertir samskipti við Evrópu, töldu sig verða að gerast aðilar að EASA. Þeir eru þó hlutfallslega með miklu minni flugreksur á alþjóðlegum markaði. 

Þetta er raunsæi gagnvart því alþjóðaumhverfi, sem við komumst ekki hjá að vera hlutar af og þá mega "minni hagsmunir" sín lítils gagnvart "meiri hagsmunum." 

Það er hægt að skrá íslenskar flugvélar í Bandaríkjunum en það kostar líka mikla peninga og fyrirhöfn og flugkerfið þeirra virðist ekki mikið betra. 

Þeir eru líka búnir að skilja allra minnstu vélarnar frá og setja á stofn hliðstætt kerfi og er í Evrópu þótt það sé enn mikið skárra.

Parkinsonlögmál skrifræðisins er alþjóðlegt og það eina góða sem hægt er að segja um það er að það skapar atvinnu og minnkar atvinnuleysi og eykur þörfina á því að fólk mennti sig til að geta starfað í skrifræðinu. 

Ómar Ragnarsson, 17.3.2011 kl. 09:41

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er með þessa löggjöf, eins og svo margar aðrar, sem hér hafa verið teknar upp vegna tengsla okkar við ESB. Má t.d. nefna ökulögin, lög sem segja til um hversu lengi menn megi aka vörubílum. Þau voru samin há ESB (EB) og fyrir ökumenn innan Evrópu. Þar eru hvíldarstaðir og aðstaða fyrir ökumenn þessara bíla með stuttu millibil og því auðvelt að fara eftir þeim. Hér á landi er hins vegar engir slíkir staðir, einungis sjoppur og það sumstaðar með löngu millibili.

Því hafa menn hér á landi lent í því að fá á sig sektir vegna þessara laga, einungis vegna þess að þeir urðu fyrir töfum vegna ófærðar og náðu ekki til næsta staðar fyrr en of seint. Engar undanþágur eru veittar.

Þegar þessi lög voru sett, var talað um að ekkert mál yrði að setja upp hvíldarstaði fyrr ökumenn þessara bíla, þannig að þeir gætu fylgt lögunum, en ekkert hefur þó verið gert í því. Sama gæti skeð varðandi einkavæðingu viðgerðaraðstöðu fyrir smærri flugvélar. Slík aðstaða verður ekki sett upp nema menn sjái sér hagnað í því og vegna smæðar okkar er ekk víst að svo verði.

Það sem hentar í stórum samfélögum hentar sjaldnast þeim smærri.  Samt vil fólk festa þessar tengingar enn frekar og ganga í ESB.

Gunnar Heiðarsson, 17.3.2011 kl. 10:03

6 identicon

Lá það á borðinu að litlu vélarnar YRÐU að fara inn í þennan óskapnað?

Og, er ekki hægt að láta skoða lengur?

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 10:18

7 Smámynd: Þorkell Guðnason

Það er EKKI verið að fjalla um einkaþotur útrásarþjófanna, heldur verið að níðast á smávöxnum "reiðhestum" almennings með flugpróf.

Ég hef tengst grasrótum flugsins í marga áratugi.  Róðurinn hefur sífellt þyngst.  Nú kom náðarhöggið.  Hið hefðbundna einkaflug er lagt niður og öryggi þess þar með fullkomnað.  En ef við tökum samlíkinguna við "Fæðuöryggi þjóðarinnar"- þá er Flugöryggi þjóðarinnar - í þeim skilningi - alvarlega ógnað með þessu fávita brölti. 

Íslensku embættismennirnir virðast mér vera að tryggja sjálfum sér stöðu hjá evrópsku stofnununum og tilbúnir til allskyns óheillaverka í þeirra þágu.  Enginn skilningur er á því að við erum örþjóð sem býr á eyju, langt utan þess svæðis sem reglurnar miðuðust við.  Flugið - eina nothæfa samgönguleið þjóðarinnar, óx upp af þessari grasrót.

Flugmálastjórn - íslenska stofnunin sem um þetta fjallar hefur svo lítil bein tengsl við flug að leggja mætti að jöfnu við, ef hjá Vegagerðinni starfaði nánast enginn maður með bílpróf.   Þar á bæ hefur eftirlitshlutverkið lengst af verið í höndum flugvirkja, án flugréttinda, sem virðast hafa litið á flugvélaeigendur sem féþúfu og lítinn skilning sýnt á okkar aðstæðum en frekar gætt sjónarmiða og ímyndaðra atvinnuhagsmuna kollega þeirra.

Þótt ég sé og hafi verið skráður eigandi flugvélar í þrjá áratugi og ekki hafi staðið í innlendum stofnunum að senda mér rukkanir fyrir eftirlit með flugvélinni,  fékk ég  fyrstu boðin um þessar fráleitu ráðstafanir nokkrum dögum eftir gildistöku þeirra og þau komu - frá Litháen!!! - Þar var mér gerð grein fyrir því að flugvélin mín mundi ekki fá að fljúga framar,  nema ég reiddi fram fjárhæðir sem svaraði til andvirðis helstu líffæra, til að fá viðhalds-áætlun fyrir hana skráða í ræningjabælum.  Þá var öll vinnan og allur kostnaðurinn við sjálft viðhaldið eftir. 

Ég fæ ekki betur séð en leggja megi niður eftirlitsstofnunina sem stóð fyrir því að þetta regluverk var kokgleypt og dembt yfir okkur án nokkurrar viðvörunar.

Með þessu er 8 milljón króna flugvélin mín afskrifuð sem ónýt á Íslandi og þá lítið með 300m2 flugskýlið að gera, frekar en aðrar íslenskar fasteignir. - Hvernig reiknar maður svo núvirði ellefuhundruð flugtíma kostaðra úr eigin vasa og alls þess sem viðhaldi réttindanna hefur tengst? 

Ómar, - hafi nafni þinn og kollegar hans skömm fyrir!

Þorkell Guðnason, Eyrarlandi, Þykkvabæ

Þorkell Guðnason, 17.3.2011 kl. 11:25

8 identicon

Þetta er ekki í lagi. Orðið sérstaða er að vísu ofnotað, en hvað flugið varðar, á það rétt á sér. Áhugi og hrifning (enthusiasm) Íslendinga á flugi hefur alltaf verið ótrúlega mikill og því hafa Íslendingar, þessi fámenna þjóð, unnið afar merkilegt starf á svið “aviation”. Þetta er hluti af þjóðarsálinni. Þegar fólk í öðrum löndum kvartar og kveinar yfir hljóðmengun flugvéla, horfa Íslendingar upp í loftið fullir hrifningar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 12:03

9 identicon

Fyrir nokkrum árum hefði verið hægt að gera út á flugnám hérlendis fyrir erlenda nemendur og "tímasafnara", en því miður varð lítt úr því. Það var nefnilega ódýrara að fljúga einkavélum hér en t.a.m. í Þýskalandi, og frelsið í háloftunum margfalt meira. Og svo margbreytilegar landfræðilegar og veðurfræðilegar aðstæður, og þar á ofan, hinn langi sumardagur, þar sem hægt er að fljúga allan sólarhringinn.

Þetta þyngist nokk við þetta. Og ég sem ætlaði að fara að taka tíma í sumar!! Ómar, - ég fæ kannski bara að taka í skaftið í sumar....

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 15:23

10 identicon

Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér Jón Logi. Frelsið í háloftinu er ókostur, hvað þjálfun varðar, því allt verður léttar og minna krefjandi bæði hvað flugplan varðar og einnig hvað “voice” varðar. Þá gerir náttura landsins flugið hér auðveldara, þú erts strax kominn upp fyrir allar hæðir og hóla. Hér eru engur Alpar. Einnig er ísl. veðurfarið í mörgum tilfellum fluginu hagstætt. Sjaldan þoka, og á sumrin hættuleg þrumuveður (CBis) varla til. Þá er næturflug ekki aðeins hrifandi, heldur einnig góð þjálfu. 100% IFR.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 15:40

11 identicon

Auðveldara? Mestallt meginland Evrópu er EKKI alparnir. Meirihluti flugnámssvæða Evrópu er minna mishæðóttur en Ísland, og flatlendisbúi eins og ég þarf bara að fljúga 10 mínútur til að fésa fjall upp á næstum 6.000 fet. Greyi Bretarnir eiga ekkert svo hátt til að mynda, né norðurhluti Þýskalands, Frakklands, Benelux, S-Svíþjóð, og Baunaland.

Veðurfar? Fjallabylgjur, niðurstreymi, örar breytingar, mikill vindur. Það var ekki vegna rólegs veðurfars sem að verið var að prófa A-380 í vindi á Íslandi.

Þrumuveður? Vissulega lítil

Flugplan? Mjög frjálst. Auðvelt að æfa flug yfir mismunandi landslagi eftir hentugleikum og gáska veðursins. En það er alveg opið að taka stíft plan ef vill. Sem sagt báðir möguleikar opnir, ekki bara annar.

Þoka? Hehe, Ómar man örugglega hvað hratt dró þoku yfir Suðurlandið í sumar, og birti reyndar mynd af því á blogginu. Sjálfur hef ég lent í bráðalendingu úti í rassgati vegna mjög hraðrar þokumyndunar.

Og svo, - tímasafnarar fara gjarnan til Arizona, þar sem hægt er að fljúga mikið og lengi. Veðrið er gott, lítt um ský, og töluvert rými. Ég hallast að því að þetta sé fjölbreyttara hérna.

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 17:47

12 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Þakka þér fyrir að hreyfa þessu máli, Ómar. Einn athyglisverður þáttur er að allt þetta regluverk byggir á reglugerð no 216/2008 Evrópuþingsins og ráðherraráðsins. Þar segir í grein 5:

"It would not be appropriate to subject all aircraft to common rules, in particular aircraft that are of simple design or operate mainly on a local basis ...."

Þarna er gefin bein heimild til þess að settar verði sérstakar innanlandsreglur fyrir loftför af einfaldri gerð sem fyrst og fremst er flogið innanlands. Flugmálayfirvöld hafa (hingað til) þvertekið fyrir slíkt, allt skal regluverkað í drasl. Það er þó svolítið erfitt að sjá þörfina á slíku. Svifflugur skulu t.d. lenda undir þessu (og ekki annað séð en að svifflug á Íslandi leggist niður nú í sumar) og hefur hingað til amk ekki verið mikið um að íslenskar svifflugur fljúgi til annarra landa.

 

Hólmgeir Guðmundsson, 17.3.2011 kl. 18:31

13 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Manni dettur bara siglingastofnun í hug, þetta er álíka gáfulegt og bullið í þeim varðandi skemmtibáta og seglskútur

Haraldur Rafn Ingvason, 17.3.2011 kl. 19:03

14 identicon

Sæll Ómar,

 

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott!  Í framhaldi af fundi sem Félag Íslenskra Einkaflugmanna stóð fyrir með Flugmálastjórn s.l. miðvikudag finnst mér rétt og nauðsynlegt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri í ljósi umræðunnar.  Ljóst er af viðbrögðum aðila eftir fundinn að þær breytingar sem í gangi eru gagnvart einkaflugvélum eru að koma mönnum nokkuð á óvart, en mér finnst rétt að halda því til haga að fyrirtæki okkar Atlantsflug hefur frá haustdögum 2009 reynt að vekja athygli einkaflugvélaeigenda á því sem koma skyldi m.a. með auglýsingum í dagblöðum.

En hvað sem því líður þýðir ekki að fást við það sem liðið er og það er heldur ekki neitt sem við getum haft áhrif á. Líkt og aðrir hef ég áhyggjur af því hvert stefnir en reynsla mín gegnum árin hvað flugreglur og yfirvöld varðar eru sú að það eru yfirleitt bara tvær leiðir sem eru færar og það er annað hvort að aðhafast ekki neitt og kvarta og svo hin að vinda sér bara í verkið og klára það. Reynsla mín segir mér að seinni leiðin sé alltaf fljótfarnari og yfirleitt ekki svo erfið eða flókin heldur. Eins og fram kom í auglýsingu frá okkur um þessi mál og sem ég get sent þér kemur fram að Atlantsflug hefur CAMO leyfi og teljum við okkur getað aðstoða a.m.k. einhverja með AR og ARC mál, en félagið er í góðu samstarfi við Flugmálstjórn um þessi mál og tel ég mikin vilja hjá yfirmönnum sem og starfsmönnum þar að gera hvað þeir geta þegar álagið eyks á CAMO fyrirtæki við að óska eftir viðbótartegundum flugvéla inn á leyfi hjá sér. Atlansflug er í dag að vinna með aðilum með að fá viðbótartegund flugvéla inn á CAMO leyfi og vonumst við til að það ferli taki skamman tíma og er það í raun ákveðinn prófsteinn á framhaldið. Það er skoðun mín að samtök eins og Félag Íslenskra Einkaflugmanna geti og eigi að koma að því að vinna með CAMO fyrirtækjum í að auka við tegundir flugvéla á leyfum þeirra þ.e. þeirra sem vilja sinna þessum flugvélum og þannig sparað félagsmönnum þá vinnu og kostnað sem fælist í því að hver og einn sé að óska eftir að fá þjónustu fyrir sýna tegund flugvélar. Það er skoðun mín að aðilar sem taka að sér lofthæfiskoðun flugvéla séu einfaldlega að taka við verki sem yfirvöld hafa verið að framkvæmt árum saman og að menn verði að hafa það hugfast að lofthæfiskoðunin er það sem er kallað “SAMPLE” eða “Sýnishorna” skoðun annað ekki þannig að þeir sem taka að sér þetta tiltekna verk fara ekki að tæta vél og gögn í sig líkt og um innflutning á flugvél úr óþekktu umhverfi væri að ræða nema rík ástæða komi upp, það er bara ekki tilgangurinn með þessu.

 Ef áhugi er til að ræða þessi mál frekar er hægt að hafa samband við undirritaðan.  

Kveðja, 

Jón G Sigurdssonwww.atf.is  / info@atf.isPhone (+354) 899 2532

Jon G Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband