25.3.2011 | 23:49
Kannski til 2070?
Á áratugnum 1920-30 ríkti tiltölulega mikið frelsi í viðskiptum, enda áratugurinn kallaður "the roaring twenties" í Bandaríkjunum. Þótt hrunið í kauphöllinni í New York yrði í nóvember 1929, entist dýrðin út árið 1930 og var það ár með Alþingishátíðinni, stofnun ríkisútvarpsins og vígslu ýmissa bygginga glæsilegasta ár, sem Íslendingar höfðu lifað.
Ekki spillti að fá Graf Zeppelin, stærsta loftfar heims, í heimsókn.
1931 skall kreppan á af fullum þunga og setja varð gjaldeyrishöft og verndartolla, sem urðu til þess að innanlands var farið að framleiða alls konar hluti, sem áður höfðu verið fluttir inn.
Allt var þetta gert til bráðabirgða, en kreppan entist lengur hér á landi en annars staðar og náði sinni mestu dýpt 1939. Stríðsgróði Íslendinga var innilokaður í Bretlandi til stríðsloka, en var síðan notaður til að láta smíða nýtískulegasta togaraflota heims og í meðal annars í metinnflutning á bílum.
Þessi dýrð stóð svo stutt að í árslok 1947 var gjaldeyririnn búinn og við tók skömmtunar- og haftatímabil sem sló flestu öðru við, sem menn höfðu áður þekkt.
Aldrei gafst neitt tóm til að rífa niður tollmúrana og 1950 tók við margfalt gengi krónunnar og höftin héldust lengur hér en í öðrum löndum, þótt Íslendingar hefðu grætt á stríðinu og fengið meiri hlutfallslega Marshallaðstoð en nokkur önnur þjóð.
Það var skammarlegt siðferðilega séð að að nýta sér hernaðarlegt mikilvægi landsins til að fá Bandaríkjamenn til að friðþægja okkur með þessum framlögum.
Með Viðreisninni 1959 og inngöngu í EFTA 1970 var byrjað að slaka á tollverndinni, sem hafði haldið uppi margs kyns iðnaði, sem ekki var samkeppnishæfur.
En þessi tollvernd og gjaldeyrishöft, sem áttu að vera til bráðabirgða við upphaf kreppunnar entust í meira en 60 ár, allt fram á síðasta áratug aldarinnnar þegar síðustu leifar hennar hurfu loksins.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort gjaldeyrishöft, sem sett voru sem skammtíma úrræði til bráðabirgða í kjölfar Hrunsins og kreppunnar 2008 muni endast jafn lengi og hin fyrri, eða fram undir 2070.
Ef þau gera það er til lítils fyrir mig að pæla í því, því að þá yrði ég ekki einasta löngu dauður heldur börn mín líka.
Ekki sérlega uppörvandi pæling þetta! En um þetta gilda sannindin að maður verði að vera viðbúinn hinu versta og vona það besta.
Höft til 2015 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já. Gjaldeyrishöftin sem sett voru uppúr 1930 stóðu í um 60 ár. En alvarlegustu höftin stóðu í um 30 ár eða til 1960 þegar viðreisnarstjórnin var mynduð. Fram að þeim tíma voru algjör gjaldeyrishöft. Sérstök leyfi þurfti fyrir öllu innfluttu. Núverandi gjaldeyrishöft eru hrein veisla hjá því sem var allt til 1960. Mjög líklegt er að höft ríki hér meðan krónan er gjaldmiðilinn.
Sævar Helgason, 26.3.2011 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.