28.3.2011 | 09:57
Ekki algert einkamál.
Skeggvöxtur og hárvöxtur eru skilgreind sem einkamál en það er ekki alveg svona einfalt.
Við sjáum í þessum marsmánuði að útlitið, sem mottan gefur, hefur áhrif út í frá.
Satt að segja man ég varla eftir átaki til þess að efla góðan málstað, sem hefur verið auglýst betur en með motturæktuninni í þessum mánuði.
Mottan hefur litað hversdaginn en líka vakið blendin viðbrögð. Hún hefur fallið vel í kramið hjá flestum og persónulega þykir mér vænt um það, að vegna þess að faðir minn heitinn var með mottu síðastu árin sem hann lifði, segja margir að hún minni þá á hann.
"Þú ert bara alveg eins og karlinn" er algengt viðkvæði.
Allir tengja hana að sjálfsögðu við átak Krabbameinsfélagsins en þegar kemur að því að meta áhrif hennar á útlit mitt, skiptist í tvö horn, því að til eru þeir sem finnst hún ljót og sumum beinlínis herfileg.
Það get ég vel skilið, því sjálfum finnst mér hún of mislit og tjásuleg.
Kolbrún Bergþórsdóttir hrópaði upp yfir sig þegar hún sá mig: "Guð minn almáttugur hvað þetta er ljótt!"
Og konan mín fer ekki ofan af því að hún sé ömurleg og að þessu leyti er hún bara alls ekki einkamál mitt. Með því að umbera mottuna í heilan mánuð leggur hún fram sinn skerf til þess að vekja athygli á þjóðþrifamáli Krabbameinsfélagsins.
Þeir sem kjörnir voru á stjórnlagaþing 1851 (Þjóðfundur) til að sýsla við stjórnarskrá landsins, voru margir með yfirskegg, sem var vinsælt á allt fram á 20. öld.
Það er kannski í stíl við það að halda mottunni en ég held nú samt að hún muni fjúka 1. apríl í samræmi við loforð mitt þar um við konuna mína.
Hafa misjafna heimild til að safna skeggi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.