Þegar bakarinn bakaði vandræði.

Faðir minn var bakri og afi líka. Ég heyrði því ýmsar bakarasögur og veit að ein þeirra var sönn, raunar meira en 50 ára gömul.

Hún kemur mér í hug þegar ég les frétt um rottuna í brauðinu. Kona ein kom æf í bakaríið með brauð, sem hún hafði keypt og heimtaði skýringu bakarans á því að ryðgaður nagli var í brauðinu.

Bakarinn ætlað að reyna að snúa sig út úr þessu með því að afsaka þetta, en málið batnaði ekki við það þegar hann sagði: "Elsku frú, ég bið þig afsökunar á þessu en svona lagað getur alltaf komið fyrir" 

Við þetta varð frúin enn reiðari og tók talsverðan tíma fyrir bakarann, sem bakaði vandræði með svari sínu, að róa konuna niður. 

Rottur gátu komið við sögu í gamla daga þegar sum bakarí voru í kjöllurum eða bílskúrum. 

Ein magnaðasta sagan, sem afi minn Edvard sagði mér, var af rottum, sem stálu eggjum án þess að hægt væri að sjá hvernig þær færu að því, því að eggin voru uppi á borði. Greinilegt var að þett gætu aðeins verið rottur, en með engu móti hægt að ímynda sér hvernig þær kæmu eggjunum af borðinu niður á gólf án þess að brjóta þau. 

Bakarinn brá þá á það ráð um hásumar, þegar dauf birta komst inn í bakaríið, að útbúa fyrir sig athvarf þar sem hann gat vanist rökkrinu og fylgst með því sem gerðist án þess að rotturnar yrðu þess varar.

Um miðja nótt komu þær úr felum inn á gólfið og voru þrjár. Tvær stukku upp á borðið og veltu eggi fram á brún þess. Þar hringaði önnur rottan sig utan um eggið og lagðist á bakið með eggið uppi á kviðnum en hélt því föstu þar með fótunum. 

Hin rottan ýtti henni fram af borðbrúninni þannig að hún féll á bakið niður á gólfið án þess að eggið brotnaði. Þar kom þriðja rottan, beit í halann á henni og dró hana í burtu! 

Sagan sýnir að rottan er afar skynsamt dýr og engin tilviljun að aðeins tvö spendýr lifa allstaðar í jörðinni, allt frá heimskautasvæðum til frumskóga og eyðimarka. Það eru maðurinn og rottan. 


mbl.is Setti rottu í brauð og laug upp á bakara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sumir segja það að rotturnar séu lífverur framtíðarinnar. Þær nefnilega eyðileggja ekki lífrýmið sitt eins og við menn  gera.

Úrsúla Jünemann, 30.3.2011 kl. 19:16

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Rottan er lík okkur, enda eigum við sömu forfeður fyrir 65 milljón árum.

Aðalsteinn Agnarsson, 30.3.2011 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband