4.4.2011 | 07:31
Hvað um flök Glitfaxa og Goðafoss?
Ef hægt er að finna flugvélarflak á 4000 metra dýpi í miðju Atlantshafi, hlýtur að vera hægt að finna flak flugvélarinnar Glitfaxa, sem fórst út af Flekkuvík á Vatnsleysuströnd fyrir réttum 60 árum og liggur þar á litlu dýpi.
Flakið hefur verið skilgreint sem votur grafreitur og nýtur því 75 ára grafarhelgi. En eftir 15 ár ætti að verða hægt að finna það og komast að því hvað olli hinu mannskæða flugslysi, sem kostaði 20 manns lífið.
Ég hef verið að kanna líklegar orsakir að undanförnu og finnist flakið, má útiloka eða staðfesta nokkrar þeirra.
Af stillingu hæðarmælis vélarinnar má sjá hvort skekkja í henni hafi valdið því að flugmennirnir hafi talið sig fljúga hærra en þeir gerðu og flogið í sjóinn.
Höggið hefur verið býsna mikið, því að annars hefði ekki fundist brak úr gólfi vélarinnar.
Með því að rannsaka eldsneytisgeymana má sjá hvort bensínleysi hafi valdið því að hún hafi hrapað í sjóinn.
Grafarhelgi af flaki Goðafoss afléttist eftir átta ár og þá væri kannski hægt að finna forsetabílinn, sem Roosevelt Bandaríkjaforseti sendi með skipinu sem gjöf til forseta Íslands.
Flugvélarflak fannst í Atlantshafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Segjum sem svo að í ljós kæmi að hæðarmælir vélarinnar hafi ekki verið rétt stilltur.
En hvað með það, nema til að svala forvitni. Kannski nýr þáttur í kennslu í flugi, að stilla QNH. Ég held ekki. Látum vélina í friði þar sem hún er.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 10:30
Við viss veðurskilyrði(og úr hæð) þá sést móta fyrir henni úr lofti.
Karl (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 12:34
Hvernig ætlarðu að sjá það á bensíngeymunum hvort þeir hafi verið tómir fyrir 75 árum?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 12:45
Lang mikilvægast er þó að finna flakið af flutningaskipinu Suðurlandið, sem "fórst" norður af Langanesi á jólanótt 1986.
Fórst er sett innan gæsalappa, þar sem líklegast að skipinu hafi verið sökkt af annaðhvort rússneskum risakafbáti, sem dró á eftir sér njósnakapal, eða af breskum kafbáti sem sigldi í humáttina á eftir þeim rússneska.
Slík tilvik hafa gerst bæði fyrr og síðar og var þeim alltaf staðfastlega neitað af hermálayfirvöldum, uns bretónska fiskibátnum Bugaled Breiz var sökkt af breskum kafbáti undan S-A strönd Englands árið 2004. Þá þurfti franskur saksóknari að beita ítrustu brögum til þess að fá fram gögnin í málinu, en bretar hafa þó ekki viljað kannast við að þeirra kafbátur hafi verið að verki þar sem margir kafbátar voru á svæðinu á sama tíma og því hafa þeir neitað að greiða skaðabætur
Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/Bugaled_Breizh
Björn Jónsson
Björn Jónsson (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 13:26
Sammála Birni um að Suðurlandsmálið þarf að rannsaka. Það var í meira lagi dulafrullt og einhver undarleg tregða í gangi með að líta á það. Kannski var þetta Amerískur kafbátur. Það skýrði ýmislegt, því ef þetta hefði hugsanlega verið Rússi, þá hefði allt verið sett á annan endann.
Ég held að það sé vísast að leyfa flugvélinn að liggja sem grafreit því rannsókn á henni gæti kæmi ekki að neinum notum í dag, eins og menn benda á, auk þess sem það er ansi hæpið að einhver niðurstaða fáist yfirleytt. Látum hana bara vera.
Annars hafa flugvélarflök verið sótt niður á mikið dýpi undanfarna áratugi og það nokkuð oft.
Langar að benda þér á fína þætti, sem heita Air Crash Investigation , ég er viss um að þú munt hafa gagn og gaman af þeim þótt málefnið sé myrkt. Youtubesíðan sem ég linka á er með flesta þættina og líkast til opnast hún á Lockerbye slysinu.
Jón Steinar Ragnarsson, 4.4.2011 kl. 20:28
Það var frétt uppúr 1980 eða svo, hvar breskur kafbátur fór í nótina á dönskum fiskibát og dró hann rétt á kaf, en svo rifnaði nótin. Málið var upplýst skilst mér.
En fyrir kafbát að strauja á yfirðborðsskip á stærð við Suðurlandið, - það finnst mér undarlegt. Það hefði þá verið árekstur, þar sem turninn væri uppúr eða á sjónpípudýpi. Hvorugt er allt of "nútímalegt" í þeirri grein, enda er það lélegt hernaðartæki sem rekur nefið í frakt-hlunk sem mallar áfram á venjulegri sjóleið á sínu stími og segir úbbs.
Hefur nokkrum dottið í hug dufl? Sum dufl og sprengjur seinna stríðs eru enn virk, hvað þá eitthvað nýrra dó, - og eins og flöskskeyti getur slíku aðeins skolað til um heimshöfin.....
Væri það Rússabomba hefði hún getað komið með N-Íshafsstraumnum.
Nú, og með kafbáta svamlandi um allan sjó, þá væru það helst flot-trollin sem yrðu fyrir barðinu á þeim, enda mjög stór. Botnvörpur eru ekki svo umfangsmiklar, og svo bara þessir 2 vírar sem draga. En eru skráð tilfelli um slíka árekstra?
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 21:48
Fyllilega sammála að það þarf að komast í botn um Suðurlandsmálið.
Það er enn á huldu hvað virkilega gerðist.
Friðrik Friðriksson, 4.4.2011 kl. 22:01
Það vill til Jón Logi að einhverjum var bjargað af suðurlandinu og það er vitnisburður þeirra, sem vakið hafa þessar grunsemdir. Það varð engin sprenging, það var eitthvað sem rakst á skipið og sökkti því.
Kafbátar hafa líkast til vit á að halda sér frá fiskimiðum í flestum tilvikum. Suðurlandið var flutningaskip. Það var vitað um kafbát á þessum slóðum á sama tíma. It all adds up.
Hin opinbera skýring er í raun getgáta að miklu leyti. Þ.e. að lestun á síldartunnum hafi verið ábótavant og að farmur hafi losnað við brotsjó. Það er engin leið að sannreyna þetta nema með því að fara þarna niður og skoða. Ég er allavega ekki að kaupa þá skýringu. Hitt er annað mál að mannskaðinn hefði ekki þurft að vera svo mikill ef björgunarbátar og búnaður hefði verið í lagi.
Jón Steinar Ragnarsson, 4.4.2011 kl. 23:59
Það er samt nokk sem mælir gegn kafbáti í þessu tilfelli.
Kafbátar sigla annað hvort uppi, á sjónpípudýpi, eða fyrir neðan yfirborðssjó. Og þeir eru beinlínis til þess ætlaðir að taka eftir öðrum skipum sem allra allra fyrst!
Þarna var gróft í veðri, og venjulega eru þeir þá ekkert að hanga uppi, og nógu er djúpt þarna, - 3 km +.
En árekstrar hafa samt átt sér stað. t.d. nýverið milli kafbáta í kafi á æfingu.
Og samsæringarkenningar líka. Man einhver eftir sjónvarpsseríunni um þetta?
http://en.wikipedia.org/wiki/FV_Gaul
Svo eru hér slysafréttir
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1000721
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 09:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.