6.4.2011 | 11:06
Heima, frá vöggu til grafar.
Í aldir og árþúsund hafa börn fæðst og fólk andast á heima í faðmi fjölskyldunnar og svona var þetta hér á landi hjá allri alþýðu allt fram á síðustu öld.
Miðað við þennan ógnarlanga tíma eru hinir síðustu áratugir mjög skammur tími í sögu mannkyns, sem þetta hefur breyst, þannig að nú fæðast menn og deyja á sérstökum stofnunum.
Móðir mín heitin var fylgin sér og ákveðin kona og þegar hún átti mig, var hún ekki sátt við þáverandi yfirlækni á fæðingardeildinni eftir að hafa kallað hann fyrr á meðgöngutímanum heim til sín upp í lítið herbergi á hanabjálka í timburhúsi við Lindargötu, þegar leit út fyrir að hún myndi missa fóstur eftir að hafa dottið í stiganum upp í risið.
Læknirinn kom og skoðaði hana, en þegar hann var að kveðja leigusalann frammi á gangi sem lýsti kjörum unga kærustuparsins, þau ættu ekki neitt og tímarnir væru erfiðir (des ´39) heyrðist hann muldra: "Þú kallar á mig þegar það kemur."
Þetta heyrði móðir mín, reis upp í rúminu og kallaði: "Ef þér farið héðan eruð þér morðingi!" Það var ekkert verið að skafa utan af hlutunum!
Hann kom inn og gaf henni sprautu og fór ekki fyrr en hún leyfði það. Hún fór síðan á fæðingadeildina til þess að eiga mig, en eftir þetta átti hún næstu fjögur systkin mín heima í heimahúsi því að hún var ekki sátt við yfirlækninn.
Ég man ekki eftir því þegar Edvard og Jón fæddust, því ég var svo ungur þá, og þegar Guðlaug fæddist, var ég í sveit.
En ég man vel eftir því þegar Ólöf systir mín fæddist og það verður mér ævinlega ógleymanlegt, - ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að upplifa slíkan atburð í þessu umhverfi.
Þá var ég tæplega átta ára og þessi atburður var eftirminnilegasti atburðurinn, sem ég upplifði á æskuheimili mínu.
Yngstu systur mína, Sigurlaug, átti móðir mín síðan á fæðingardeildinni, enda 24 ár frá fæðingu elsta barnsins, og rykið, sem þyrlaðist upp eftir atburðinn 1939, hafði sest.
Ég tel að enda þótt enginnn deili um það að tæknilega sé best að fæðing og dauði eigi sér stað í besta læknisfræðilega umhverfi við bestu fáanlegu umönnun, sé í því fólgin óæskileg firring að jafn eðlilegir atburðir og fæðing og dauði hafa verið fjarlægðir af heimilunum.
Ég byggi það á reynslu minni af því að hafa verið viðstaddur fæðingu í faðmi fjölskyldunnar.
Það var óviðjafnanlegt.
Eiginmaðurinn tók á móti barninu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sendi þér þetta til gamans þar sem þú ert áhugamaður um þessa hluti ;-)
http://www.flickr.com/photos/gummip/5592850755/
Guðmundur Pétursson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 14:59
Sæll Ómar
Frábært að lesa þessa færslu og að sjá að þú metur það mikils að hafa orðið vitni að fæðingu systkina þinna inni á heimilinu. Ég vil samt gera eina smávægilega athugasemd í sambandi við „að tæknilega sé best að fæðing og dauði eigi sér stað í besta læknisfræðilega umhverfi við bestu fáanlegu umönnun".
Ég lít svo á að oft sé besta fáanlega umönnunin við lífslok að vera á heimili sínu umvafinn ástvinum. Það sama tel ég í sambandi við fæðingar og hef rannsóknir sem styðja það að í vel völdum tilfellum þá sé heimafæðing jafnvel áhættuminni en fæðing á stofnunum ;D
Góðar stundir, Gréta
Gréta (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 16:58
Það er mikið til í þessu, Gréta. Faðir minn heitinn var svo heppinn að eiga sex börn og tugi barnabarna þegar hann lá banalegu sína í um það bil mánuð sumarið 2002.
Okkur tókst að koma því svo fyrir að hann yrði helst aldrei einn allan þennan tíma heldur fyndi fyrir návist okkar. Þegar hann gaf upp öndina var fjöldi afkomenda hans hjá honum, las fyrir hann ljóð og hélt í höndina á honum.
Það sem mér fannst íhugunarefni var það að hjúkrunarfólkið sagði okkuar að þetta væri fátítt og raunar fjölmörg dæmi um það að fólk hafi dáið þarna í algerri einsemd án þess að nokkur hafi verið hjá þeim.
Algengt væri mikið afskiptaleysi ættingja á þessum síðasta spöl lífshaupsins.
Ómar Ragnarsson, 6.4.2011 kl. 19:29
Dásamlegur og fallegur pistill. Ræddi eitt sinn við ungan mann sem er alinn upp í hálfgerðum óbyggðum Alaska. Mamma hans var ljósmóðir og iðulega vildu konur frekar fæða hjá henni en í eigin húsnæði, t.d. vegna skorts á rafmagni o.þ.h. Hann sagði mér að hann væri mömmu sinni eilíflega þakklátur fyrir að fá að alast upp við slíkar aðstæður, þ.e. reglululegar fæðingar á heimili hans.
Sjálf hef ég fætt tvö af fjórum börnum heima. Það er óviðjafnanlegt. Þegar fyrsta barnið fæddist heima tók stóri bróðir, þá fimm ára, á móti! Hann hafði séð ógrynni af heimildarmyndum um fæðingar og fannst því eðlilegasti hlutur í heimi að vippa sér í fæðingarlaugina þegar pabbi hans sagði honum að barnið væri að fæðast. Hann kom sér fyrir í fremstu víglínu og hjálpaaði við að taka á móti systur sinni.
Nokkrum dögum síðar ræddum við atvikið. Hann var ótrúlega rólegur yfir þessu, en fannst samt fúlt að ég hafi prumpað á sig.
Langar annars að benda á heimasíðuna www.heimafaeding.is , en þar má meðal annars finna þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á heimafæðingum.
Eydís Hentze (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 23:35
Hvet þá sem ætla að fæða heima til að kynna sér Group B Streptococcus (GBS) og fá fræðslu hjá sínum læknum.
http://www.groupbstrepinternational.org/
Karl J. (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 10:26
Ég hins vegar hvet alla sem hafa áhuga á heimafæðingum að ræða það við sína ljósmóður :)
Var sjálf með Group B Streptococca og fæddi heima og myndi gera það aftur, ekkert því til fyrirstöðu að fá sýklalyf í æð í fæðingu (í bólus), auk þess sem að GBS er ekki frábending á heimafæðingu samkvæmt klínískum leiðbeinginum.
Sonur minn 6 ára talar iðulega um "manstu mamma þegar við áttum barnið okkar..." og er þá að vísa í fæðinguna :)
Gerður (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.