Þrjóskast við með þokukenndum loforðum.

Framsóknarflokkurinn er furðuskepna. Í byrjun var hann frjálslyndur umbótaflokkur rétt vinstra megin við miðju í hægri-vinstri litrófi stjórnmálanna.

Eftir fimm ár verða liðin 100 ár frá stofnun hans og í þessi 100 ár hefur þessi flokkur alltaf haft eitthvað lík í lestinni, sem hefur komið í veg fyrir að hann næði þeirri stærð sem frjálslyndur miðjuflokkur á að geta náð.

Hann var ekki orðinn nema táningur þegar hann tók ástfóstri við eitthvert ólýðræðislegasta fyrirbrigði íslenskra stjórnmála, sem var afar ranglát kjördæmaskipan sem leiddi af sér alveg ótrúlegt misvægi atkvæða. 

Sem dæmi má nefna að fámennasta kjördæmið, Seyðisfjörður, með aðeins um 700 íbúa, hafði tvo þingmenn eftir kosningarnar 1949, vegna þess að auk hins kjördæmakosna þingmanns, komst annar frambjóðandi inn á þing sem uppbótarþingmaður vegna  fráleitra ákvæða þess efnis, að annað hvert uppbótarsæti féll í hlut þess frambjóðanda sem ekki hafði komist inn en hafði hæst hlutfall atkvæðanna í kjördæmi. 

Framsóknarflokkurinn hékk eins og hundur á roði á þessu óréttlæti lungann af síðustu öld og náðí sér í tvö önnur lík í lest sína, forréttindastöðu SÍS og síðan kvótakerfið.

SÍS féll fyrir tuttugu árum en síðan hefur Framsóknarflokkurinn haldið sig fast við að líma kvótakerfið við sig með öllum þess göllum.

Ein af höfuðröksemdunum fyrir því að viðhalda kvótakerfinu óbreyttu er sú, að núverandi kvótaeigendur megi alls ekki við því að missa neitt af kvóta sínum í hendur annarra.

Rekið var upp mikið ramakvein þegar strandveiðar bar á góma eða nokkur sú aðferð, sem gæti hleypt lífi í sjávarbyggðir, sem kvótakerfið hafði lagt yfir sína dauðu hönd.

Nú á að slá ryki í augu fólks með loðnum og þokukenndum yfirlýsingum um að auka nýliðun og rétta hlut deyddra sjávarbyggða án þess að nokkur tilraun sé gerð til að útskýra þessi innantómu orð nánar.

Framsóknarflokkurinn á sennilega eftir að ná hundrað ára aldri án þess að losa sig við það, sem gerir það að verkum að um þessar mundir styðja í skoðanakönnunum innan við 10% flokk, sem er hefur látið taka sig gildan sem aðili að Alþjóðasambandi frjálslyndra flokka.

Sem slíkur ætti hann að eiga möguleika á að ná miklu meira fylgi á miðju stjórnmálanna þar sem kjósendur eru flestir. En líklega verður hann enn við sama heygarðshornið þegar hann nær 100 ára aldrinum, höktandi áfram sem skugginn af því sem hann var á fyrsta áratug ævi sinnar. 

Ég hef kosið fleiri en einn flokk, fleiri en tvo og fleiri en þrjá síðan ég fékk fyrst kosningarétt í bæjarstjórnarkosningunum 1962. 

Aðeins einu sinni kaus ég Framsóknarflokkinn og sé eftir því. Það var í kosningunum 1974 þegar ég þóttist sjá að það stefndi í samstjórn Íhalds og Framsóknar og ég vildi að ekki yrði farið of geyst í að fylgja eftir undirskriftasöfnuninni "Varið land". Vildi leggja mitt af mörkum til þess að staða flokksins yrði ekki of veik í því máli í komandi stjórnarsamstarfi. 

Mér finnst leitt að hafa ekki getað kosið frjálslyndan umbótasinnaðan miðjuflokk eins og Framsóknarflokkinn ætti að vera, nema einu sinni.  En völdin, sem kjötkatlar valdanna á grunni ranglátrar kjördæmaskipunar færðu flokknum, spilltu honum svo mjög að hann hefur aldrei borið þess bætur.

 

 

 

 


mbl.is Blönduð leið í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Þú hefur greinilega ekki lagt á þig að kynna þér almennilega það sem þú ert að ræða um og það er miður.

Framsóknarflokkurinn er eina von islenskra stjórnmála í dag.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 9.4.2011 kl. 00:30

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef aðeins í höndunum það sem segir í frétt mbl.is. Kannski að Eyjólfur hressist þegar fólk fær að sjá nánari útfærslu á hinum innantómu orðum þess sem við höfum í höndunum nú.

Ómar Ragnarsson, 9.4.2011 kl. 00:40

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ómar. Ég er að mestu sammála þér um framsóknarflokkinn. Hann var mikilvægt afl í íslenskum stjórnmálum en er það ekki lengur. Þó reynt hafi verið að yngja upp í forystunni og bæta stefnuna eitthvað hafa kjósendur ekki tekið því vel. Líklega er hlutverki hans að ljúka.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2011 kl. 09:04

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Guðrún María, Þetta var býsna afdráttarlaus ályktun. Það er ástæða til að vona það besta um hinn unga og nýja formann þessa gamla stjórnmálaflokks. En Framsóknarflokkurinn þarf flestum öðrum flokkum fremur að skilgreina sig upp á nýtt og þarf þá um leið að gera ýmsa áhrifamenn óvirka.

Nú væri það fjarri mér að gera lítið úr sómadrengnum Jóni Eðvald Friðrikssyni sem er fulltrúi Norðulands í sjávarútvegsnefnd Framsóknar. Jón er hinsvegar framkvæmdastjóri Fisk Seafood á Króknum og heldur utan um aflaheimildirnar sem eru eignfærðar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Getum við náð sátt! um þetta deilumál við þjóðina með því að láta hagsmunatengda einstaklinga stýra því verki?

Árni Gunnarsson, 9.4.2011 kl. 09:16

5 identicon

„Framsóknarflokkurinn er eina von islenskra (sic!) stjórnmála í dag.“

Jæja! 

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.4.2011 kl. 09:18

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ps. Þetta innantóma slagorð um sáttina við þjóðina er auðvitað bara gömul della sem Halldór Ásgrímsson notaði ævinlega til að drepa málinu á dreif.

Þetta mál snýst um réttlæti.

Réttlætiskennd okkar er mikils metin og þó mest af okkur sjálfum. Það er engin von til þess að það gangi upp í réttlætiskennd kvótagreifa að sklila þjóðinni aftur því sem hann hefur nýtt sér endurgjaldslaust

Árni Gunnarsson, 9.4.2011 kl. 09:22

7 identicon

Þeir "kvótagreifar" sem þurftu að kaupa sér kvóta til að mega fiska, hafa ekki neinu að skila, nema þjóðin vilji þá endurgreiða þeim það sem þing hennar skilgreindi sem seljanleg verðmæti, og þeir greiddu eða skuldsettu sig fyrir.

Einfalt, en þó ekki.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.4.2011 kl. 11:28

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þeir sem byrjuðu með kvótann fengu hann gefins, um það verður ekki deilt, og tvennt verður að athuga í þessu sambandi.

1. Með kvótabraskinu var verðið spólað upp í fáránlegar hæðir, allt að þrefalt hærra verð en í næstu löndum og í kringum þetta falska verðmæti sópuðust mikil verðmæti út úr greininni. 

2. Gaman væri að láta rekja að hve miklu leyti viðskiptin með kvótann voru í raun á pappírnum þegar um varða að ræða kennitöluflakk og sameiningu fyrirtækja í eigu sömu eða skyldra aðila. 

Ómar Ragnarsson, 9.4.2011 kl. 18:08

9 identicon

Það er rétt, - gefins var hann. Það byggðist reyndar á því að hinir sömu voru að fiska, - þeir sem að fiskuðu fengu kvóta úthlutað, sem svo sveiflaðist eftir því sem skert var eða aukið.

En þeir sem sjálfsagt urðu úr þessu ríkastir, eru þeir sem hættu og seldu þegar það var hægt. Þess vegna er það absolút mál að gera sér grein fyrir því að þeir sem eru með kvóta sem þeir hafa keypt verða að njóta sanngirni. Þeir fengu ekkert gefins margir hverjir. 

Og þetta er töluvert að skoða, - flækjur sem ná áraraðir aftur í tímann.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 10:57

10 Smámynd: Magnús Gunnarsson

Alveg er það með ólíkindum að lesa þessa dellu, eftir allar skerðingar á aflaheimildum bæði vegna minni fiskstofna og vegna handvirkra aðferða pólitíkusa var það eina færa leiðin að heimila framsal á aflaheimildum.

Magnús Gunnarsson, 10.4.2011 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband