15.4.2011 | 12:55
Fordæmalaust?
Brottvísun Ríkarðs Arnar Pálssonar úr Hörpu á sama tíma og öðrum var leyft að vera þar hlýtur að vera dæmalaus uppákoma.
Að minnsta kosti hefur verið fært á spjöld sögunnar hverjir voru fyrstu gestir í húsum eins og Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu en ekki fylgir sögunni hvort eða hverjir hafi fyrstir verið reknir þaðan út.
Flest mál eiga sér aðdraganda og upptök en með fréttinni um brottvísun Ríkarðs fylgir ekki neitt slíkt.
Á meðan ekkert slíkt liggur fyrir svífur spurningarmerki hvað það varðar yfir vötnum þessarar óvenjulegu fréttar.
Vísað úr Hörpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hmmmm....gæti verið að hann hafi móðgað konuna? íslendingar eru svo mikið í þeirri deild þessa dagana móðgast og snúa upp á sig.
Steini (IP-tala skráð) 15.4.2011 kl. 13:14
Held frekar að hann hafi verið fyrir vinnandi mönnum !
Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 15.4.2011 kl. 15:43
Hann hafði fengið bréf tveimur vikum áður þar sem hann var látinn vita, að hann og aðrir af hans stétt, fengju ekki leyfi til að vera við fyrstu hljóðprufuna. Ástæðan var sú, að hljóðhönnuðir vildu fá að klára verkið sitt áður en fólk fengi að heyra hvernig það hljómaði. Mér finnst það ósköp skiljanlegt að fólk vilji ekki leyfa almenningi að sjá sína hönnun eða hvað sem það er að gera, áður en það klárar verkið og telur sig hafa klárað. Mér finnst hann dónalegur að mæta þrátt fyrir að hafa ekki mátt koma, og gera svo læti útaf því.
Díana Bryndís (IP-tala skráð) 15.4.2011 kl. 20:13
Þetta er nú ljóta fíflið, Mæti þótt honum hafið verið bannað það. Setjum hann í eilífðarbann !
Hannes (IP-tala skráð) 15.4.2011 kl. 23:33
Gott kveld, Ómar.
Við eigum Ríkarð þennan að sameiginlegum kunningja. Á föstudag [fimmtánda] sendi ég RÚV efrirfarandi skeyti:
“Ég,
Lúðvík Emil Kaaber,
Brekkusmára 3, 201 Kópavogi,
s. 861 8304,
bið yður vinsamlega að koma eftirfarandi athugasemd á framfæri við réttan aðila, sé hann ekki sá sem skeytið les:
Ég hef hlustað, að vísu á netinu en ekki í ríltæm, á fréttir kl. 16 í dag. Þar sagði að Ríkarði Erni Pálssyni, tónlistargagnrýnanda, hefði verið vísað út úr Hörpu í dag, og þaðan hafi hann farið “með hávaða og látum”.
Þetta er hryggilegt að heyra. Þetta gefur til kynna róstursaman, uppástöndugan og ölvaðan frekjudall – sem Ríkarður Pálsson er ekki. Hann var ekki undir áhrifum áfengis, og honum hafði verið tjáð að hann væri velkominn í Hörpu við umrætt tækifæri. Þetta leiðinlega atvik, sem mér virðist því miður Hörpu til nokkurs hnekkis en ekki Ríkarði, fór fram í bróðerni og kurteisi eins og honum er eiginlegt. Ekki er mér kunnugt um annað en að hið sama sé eiginlegt konu þeirri sem þessar upplýsingar eiga að vera eftir hafðar, sem er Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu. Hið hryggilega er, að hin tilvitnuðu ummæli geta varla byggst á öðru en a) afar vansæmandi uppspuna hálfu Steinunnar Birnu, sem út í hött er að ætla henni, eða b) frumhlaupi og hrapi að niðurstöðum af hálfu viðmælanda hennar á vegum RÚV, væntanlega af völdum vanþekkingar og skilningsleysis á þeim ástæðum, sem Steinunn Birna bar fyrir sig. Einnig getur að sjálfsögðu hugsast að Steinunn Birna hafi ekki hagað orðum sínum af fullnægjandi varfærni við blaðakonu, sem hún hefði átt að skynja að væri ekki nægilega kunnug því sem hún fjallaði um.
Ég fæ það ekki þolað að vegið sé á þennan hátt að Ríkarði, sem ávallt og ætíð er kurteis heiðursmaður. Misskilningur og frumhlaup afsakar það ekki. Þetta verður að leiðrétta.
Til að gæta heiðurs og sóma RÚV legg ég hér með til að Ríkarður verði beðinn afsökunar á þeim orðum sem tilvitnuð voru, og tekið fram að þau hafi ekki átt við rök að styðjast. Eðlilegt er einnig að Ríkarði verði veittur kostur á að tjá sig um þær skýringar, sem Steinunn Birna hefur veitt eða kann að veita á atvikinu.
Með vinsemd og þakklæti fyrir alla verkvöndun,
Ofangreindur Lúðvík Emil.”
Sem sagt, hið eina sem ég, og að ég held Rikki líka, hef að athuga við þetta [tiltöulega litla] mál, er orðfærið “með hávaða og látum” í fréttum RÚV kl. 16 á föstudag. Væri þeim orðum ekki fyrir að fara, væri eiginlega allt í lagi. R var að vísu skiljanlega hissa, þegar honum var vísað út, en þú veist það [nánast] eins vel og ég, að engum ofstopa var fyrir að fara, og síst af hans hálfu.
Í gær hringdi ég í fréttastofu RÚV og spurði hvort skeytið hefði komist til skila. Var mér sagt að svo væri, og yrði því svarað. Var að skilja á viðmælanda mínum að fréttamaður hefði haft þessi orð eftir Steinunni Birnu, og þar sem svo væri, stæðu þau. Fór ég þess á leit að hringt yrði í St. B. og hún spurð hvort þessi orð væru rétt heftir henni höfð. Lítið var gefið út á það. Svar við skeyti mínu hefur ekki borist mér enn.
Eftir því sem mér hefur skilist kveðst St. B. hafa hringt í Moggann fyrir um tveimur vikum og tjáð honum að blaðamenn væru boðnir, en ekki gagnrýnendur. Sé það rétt hefur Mogganum láðst að skýra R frá því. Þá er það kannske ritstjórinn, sem ábyrgð ber á þessu litla atviki Reyni hver sem vill að koma þeirri ábyrgð fram.
Jafnvel þó að Steinunn Birna, RÚV eða ritstjórinn sjái sóma sinn í að biðja Rikka afsökunar á orðunum “hávaða og látum”, er samt nokkur hali eftir, en annars eðlis, og varðar frekar stöðu tónlistar í landinu andspænis fjárhagslegum hagsmunum, en heiður einstakra manna. Rikki hefur spekúlerað í hljómburði Hörpu vakinn og sofinn allt frá hornsteinslögn. Hann hefur áhuga á hinum raunverulega hljómburði (“ómvist” og “heyrð”, svo að notuð séu hans eigin íðorð), frekar en á mikilvægi þess fyrir rekstrarframtíð Hörpu, að sköpuð sé fyrirfram jákvæð ímynd um þau atriði. Þarna var komið í veg fyrir að hann gæti notið einstaks tækifæris til að fylgjast með því frá byrjun, þegar nýtt tónlistarhús er tekið í notkun – tækifæris sem ekki kemur aftur. Vitanlega hefði Rikki tekið því vel og með skilningi, hefði honum verið sagt að mikilvægt væri fyrir verktaka eða hönnuði að ekki væri fjallað opinberlega um ómvist og heyrð áður en húsnæðið er komið í endanlegt form. En með tilliti til ríkra ímyndarverndarhagsmuna var talið öruggara að koma í veg fyrir að hann gæti það ef hann skyldi vilja skaða Hörpu og hönnuði hennar - sem er út af fyrir sig anzi langsótt hugmynd. Þannig er leitast við að fara að um ríkis- eða hernaðarleyndarmál, en frá sjónarmiði saklauss tónlistaráhuga og listvináttu er ansi langt gengið.
Kveðja,
Lúðvík Kaaber.
LÚÐVÍK EMIL KAABER (IP-tala skráð) 17.4.2011 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.