23.4.2011 | 22:19
Hvar og hvenær endar þetta?
Fyrir um 20 árum voru svonefndar DAT-spólur toppurinn í stafrænni tækni við hljóðupptökur. Á örfáum árum hurfu þær, bæði vegna nýrrar tækni og líka vegna þess hve DAT-tækin voru viðkvæm í stilllingum.
Fyrir tveimur árum voru á boðstólum kvikmyndatökuvélar fyrir DV, DV-Cam og H-DV spólur.
Nú eru þessar spóluvélar alveg horfnar úr venjulegum verslunum með kvikmyndatökuvélar og aðeins á boðstólum vélar með hörðum diski og engum spólum.
Fyrstu myndbandstökuvélarnar sem notaðar voru fyrir sjónvarp á Íslandi voru teknar í notkun sumarið 1981 í ferðum okkar Einars Páls Einarssonar, Páls Reynissonar, Vilmundar Þ. Gíslasonar og Sverris Kr. Bjarnasonar um landið til að taka upp fyrstu sjö Stiklu-þættina.
Ári áður hafði ég lokið við mynd um Eyðibyggðina á Hornströndum, sem tekin var á mjög grófa "pósitíva" fréttafilmu og hefur liðið fyrir það alla tíð síðan. Yfirmaður minn stóð í þeirri trú að sparnaður fælist í því að nota fréttafilmuna, sem framkölluð var af RUV, en Maríanna Friðjónsdóttir reiknaði það síðar út að ódýrara hefði verið að nota almennilega negatíva filmu, þótt hún væri dýrari í upphafi í innkaupi, og þyrfti að borga fyrir framköllun erlendis, því að auðvitað kostaði framköllunin heima fé, sem menn reiknuðu ekki inn í dæmið.
Draumur minn er sá að einhvern tíma verði þessi mynd, skot fyrir skot, tekin aftur og notuð nákvæmlega sama hljóðrásin sem snillingurinn Marínó Ólafsson vann fyrir myndina með tónlist eftir Gunnar Þórðarson, sem hann stjórnaði upptöku á.
Myndin hefur þá sérstöðu að á Hornströndum sést aldrei neinn lifandi maður þótt sýnd séu meðal annars tvö morð á svæðinu fyrr á öldum. Aðeins sjást tærnar á sofandi fóstbróður á brún Hornbjargs á meðan hinn hékk í hvönninni neðar í bjarginu eins og greint er frá í Fóstbræðrasögu. Þess vegna yrði auðveldara að taka upp myndina án hljóðsins.
Síðastliðin 20 ár hafa menn ætíð haldið að hraði tækniframfaranna hlyti að stöðvast og að komið væri að endimörkum. En engu er líkari en hraðinn hafi aldrei verið meiri en nú.
Spurningin er samt þessi: "Hvar og hvenær endar þessi rússíbanareið?"
Snjallsímarnir taka yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta mun engan enda taka. Þetta er bara spurning um að hoppa uppí lestina á réttu augnablikinu varðandi það hvað er hagstæðast hverju sinni.
Sumarliði Einar Daðason, 24.4.2011 kl. 01:06
Það er um að gera að koma öllu gamla efninu yfir á digital sem fyrst og hafa það geymt á fáeinum en gjörólíkum stöðum. Filmurnar og plöturnar eyðast líka. En það er fljótlegra að flytja stafrænu gögnin á milli miðla.
Sumarliði Einar Daðason, 24.4.2011 kl. 01:12
Tæknin hefur staðnað, hvort sem menn gera sér grein fyrir því eður ei. Á eldri myndböndum eru tvær físiskar rásir, myndin och hljóðið er alltaf sambærilegt eins og var við myndatöku. Þegar þetta er fært í stafrænt form, er hljóð og mynd skilin að. Myndin er sett í MPEG form, og samræmt með myndinni með því að skrá mínútur inn í myndina. Myndin och hljóðið eru tvær sjálfstæðar rásir, og því ofta sem slíkt veldur erfiðleikum við afspilun.
Tæknin sem notuð er, er frá 8'a áratugnum. Diskarnir sem notaðir eru, eru í raun ekki "bót" í sjálfum sér, því í flestum tilvikum er um að ræða miðil sem er viðkvæmari en áður. Má taka sjónvarp sem dæmi, hér er talað um þúsundir tíma, en lifi tími sjónvarps í dag er minni en áður, þrátt fyrir rökræður um hið andstæða. Tæknin fyrir kísilrásir er gömul, en með tíð og tíma er hægt að gera hana minni, og því koma fyrir "led" rásum í sjónvörpum, þar sem áður vöru ljósrör fyrir hverja "línu" í sjónvarpinu.
Tæknin er gömul, því sem hefur fleigt fram undanfarið er sá miðill sem hægt er að setja hann á. Hér má benda á "bláan" laser, í stað þess rauða, fyrir Blue-Ray í stað DVD. Sú staðreynd að menn hafa fleigt fram "smæðinni", hefur gert það að verkum að sjálf tæknin við forritun þessa hluta hefur verið í gagnstæða átt. Forrit sem gera hið sama og á 8'a áratugnum, nota þúsundfalt meira pláss og hundrað sinnum kraftmeiri tölvu. Því hæfni manna við forritun, hefur ekki þurft að vera góð.
Það sem átt er við, er að nú stöndum við á tímamótabraut. Því að smæð kísila er að ná takmarki sínu. það verður ekki hægt að auka það meir. Því verður ekki hægt að segja við þig að kaupa þér hraðvirkari tölvu til að keyra rusl forritið sem þú keyptir dýrum dómi. Myndavélin þín verður þannig að þú skiptir um minni í henni, því það dugar 1000 sinnum (skrift). Ábyrgð á notkun drifsins verður bara eitt ár, og allt framleitt í Kína, með þeim tilgangi að þegar árið er liðið þá er dótið ónothæft, eða þarfnast viðgerða. Gæðin eru lág, en mengdin stór.
Það var betra að lifa á tímum þróunarinnar, þegar allt var á veg upp ... þegar menn spiluðu upp úr útvarpinu, án þess að þurfa að hlusta á lög um það að það megi ekki taka upp það sem þú heirir eða sérð. þegar menn gátu byggt sér littla rellu, og flogið henni síðan. Eða lítin loftbelg og fyllt hann af heitu lofti, og flogið. Þetta var tími uppganga og frelsis ... við tekur tími banns, og hafta.
Hugsaðu þér börn framtíðarinnar, sem alast upp í slíku umhverfi ... það er skömm af því, að menn vissu ekki hvað var verið að berjast fyrir, og hverjir væru hver i þeirri baráttu.
"Leonid Cohen - Everybody knows"
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 08:13
Geymsla á gögnum í dag er afskaplega léleg og kemur aðalega tvennt til. Annarsvegar of örar tækniframfarir og hins vegar lélegur endingartími á þeim tækjum sem notuð eru til geymslu.
Segjum svo að afi gamli hafi skrifað sögu ættarinnar á gömlu Dos tölvuna sína í upphafi tölvualdar, hann var jú tæknisinnaður sá gamli. Eftir dauða hans finna ættingjarnir 5 1/2 tommu floppy diska sem sá gamli notaði til að geyma þessa merku heimild. Fyrst þarf að finna tölvu með svona drifi sem gæti orðið snúið þó líklega myndi það takast, allavega ennþá. Þegar tölvan loksins finnst þarf að finna forrit sem getur lesið skrárnar en það er líklega minnsta málið vegna þess að diskarnir eru ornir ónýtir.
Það má yfirfæra þetta yfir á yngri tækni, 3 1/2 tommu floppy, CD diska, DVD diska, allt er þetta úrelt tækni, bara mismunandi langt síðan hún var leyst af hólmi. Og forritin og skjalaformið er annar kapituli.
Síðan er allt fólkið sem, geymir allar stafrænu fjölskyldumyndirnar á harða diskinum á heimilistölvunni.
Einar Steinsson, 24.4.2011 kl. 12:41
En ef kall hefði skrifað með bleki í bók, þá þarf að eyðileggja hana.
Jón Logi (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 15:28
Hvaða hvaða.. flestir með einhverju viti taka backup á dvd diska af öllum fjölskyldumyndunum, geymir diskinn í hulstri á dimmum þurrum stað og hann getur enst í allt að 100 ár. Það er nú ekki slæm ending.. svo bara eftir svona 50 ár þá bara gera nýtt backup etc.
Runólfur (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 22:57
50-100 ár er við kjöraðstæður og jafnvel þá er ekkert öruggt, persónulega myndi ég ekki treysta skrifuðum diski eftir 10 ár.
Karl J. (IP-tala skráð) 26.4.2011 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.