Flestir eru jafnari en sumir.

"Sumir eru jafnari en aðrir" segir í bók Orwells þar sem vitnað er í þau lög, að allir skuli jafnir.

En allt fram á okkar daga hefur víða ríkt ástand þar sem þessi orð eiga við í ýmsum blæbrigðum, allt yfir í það ástand í málum minnihlutahópa eins og samkynhneigðra, að "flestir eru jafnari en sumir." 

"Frelsi-jafnrétti-bræðralag" voru einkunnarorð frönsku stjórnarbyltingarinnar og í stjórnarskrá Bandaríkjanna stóð að allir menn væru jafnir, þar skyldi ríkja jafnrétti í hvívetna.

Annað kom þó í ljós varðandi þrælahaldið í Ameríku og þurfti borgarastyrjöld til að afnema það næstum 90 árum síðar og mikla baráttu öld eftir það til að afnema misréttið sem viðgekkst enn varðandi réttindi minnihlutahópa í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar.

Varðandi nýja stjórnarskrá Íslands þarf að huga að þessu. Þótt í henni myndi standa að á Íslandi skuli ríkja jafnrétti í hvívetna sýnir reynsla annarra landa að það er ekki nóg, heldur þarf að hafa til hliðsjónar mannréttindaákvæði í sáttmálum Sameinuðu þjóðanna, þar sem orðið hefur að hnykkja á þessu ákvæði varðandi hina ýmsu þjóðfélagshópa, svo sem fatlaða og samkynhneigða. 

Þótt Ítalía sé í ESB þar sem mannréttindi eiga að vera í hávegum höfð, ríkir enn misrétti hjá Ítölum, sem kemur glögglega í ljós varðandi deilur um auglýsingu IKEA í landi þeirra. 

Þegar andmælt er því að hafa upptalningu á helstu þjóðfélagshópunum í ákvæði um jafnrétti og mannréttindi er sagt, að slík upptalning auðveldi að stunda misrétti utan þeirra hópa sem taldir eru upp. 

En í sáttmála SÞ er sett undir þennan leka með orðunum "...svo sem..." á undan upptalningunni þegar rætt er um þjóðfélagshópana, sem nefndir eru. Sem sagt: Tryggt skal jafnrétti milli þjóðfélagshópa, "svo sem" vegna kyns, aldurs, stöðu, uppruna, fötlunar, kynhneigðar...o. s. frv. 

Ítalir standa enn á svipuðu stigi gagnvart samkynhneigð og Bandaríkjamenn gagnvart þrælahaldi allt fram yfir miðja nítjándu öld þrátt fyrir allt mannréttindahjalið. 


mbl.is Ikea-auglýsing fer fyrir brjóstið á Ítölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„Ítalir standa enn á svipuðu stigi gagnvart samkynhneigð og Bandaríkjamenn gagnvart þrælahaldi allt fram yfir miðja nítjándu öld þrátt fyrir allt mannréttindahjalið.“ 

Áttu ekki örugglega við tuttugustu öld?

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 11:47

2 identicon

Ómar það er alveg sama hvernig stjórnarskráinn er og mannréttindasáttmálar eru ef ekki er farið eftir þeim,það þarf að byrja á að siðvæða hina útúrspilltu stjórnmálastétt og embættismannastétt,öðruvísi eru þessi plögg ekki pappírsins virði,eins og dæminn sanna.

magnús steinar (IP-tala skráð) 24.4.2011 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband