10.5.2011 | 19:57
Á að vera við Vatnsþróna.
Þegar ég var stráklingur og ólst upp í Stórholtinu var alltaf talað um að fara niður að Vatnsþró þegar rætt var um að fara niður á þann stað, sem nú heitir Hlemmur.
Vatnsþróin var réttnefni yfir þennan stað og ef styttan Vatnsberinn á nokkurs staðar vel heima, er það þar.
En þá þyrfti helst að endurgera Vatnsþróna og hafa við hana skilti með upplýsingum fyrir ferðamenn um hana og hvaða hlutverki hún gegndi forðum tíð.
Ég man þá tíð þegar mikið var rifist um styttuna Vatnsberann, en þá var jafnvel líka höfð uppi svipuð gagnrýni á styttu Ásmundar af Járnsmiðnum, hvort tveggja byggt á því að listamaðurinn ýkti fyrirmyndir sínar svo að afkáralegt væri.
Þessar raddir þögnuðu smám saman, enda eru þessar tvær styttur einhverjar þær mögnuðustu sem Ásmundur gerði og á að gera þeim hátt undir höfði.
Endurgerð Vatnsþró með Vatnsberanum hjá og tilheyrandi kynningarskiltum gæti orðið að aðdráttarafli fyrir ferðamenn og þarft verk að leiða nútíma kynslóðir og ferðamenn inn í kjör fortíðarinnar á þessum stað.
Vatnsberinn á leið í miðbæinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég var gamall nágranni Vatnsþróar í ein fjögur ár . Frá miðju sumri 1943 til miðsumars 1947 -ekki mjög hár í loftinu - en þó minnugur á þessa tíma.
Vatnsþróin var sett upp þegar Vatnsveita Reykjavíkur komst í gagnið og var henni ætlað það hlutverk að hægt væri að brynna hestum þar en miklar hestalestir fóru þarna um fyrir bílaöldina. Eitthvað var brynnt úr Vatnsþró þegar ég var þarna á Rauðarárstíg nr 11.
Þannig að hvort Vatnsberinn sé rétta minnismerkið þarna er álitamál. Vatnsberar báru vatn frá brunnum og í hús.
Vatnsberi Ásmundar er helgaður þeim.
Á þeim árum sem ég var þarna einkenndist umhverfið af Gasstöðinni,elsta húsi Egils Vilhjálmssonar og Sveinn Egilsson var að byrja sína miklu byggingu. En herskálabraggar fylltu svæðið frá Sveini Egilssyni og að Rauðarárstíg-þar sem nú er Hlemmur og einnig frá Agli og að Snorrabraut sem þá hét Hringbraut . Vatnsþróin var síðan austan Rauðarárstígs.
Sævar Helgason, 10.5.2011 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.