11.5.2011 | 17:09
Alltaf "slæmt lestrarveður" í maí.
Í minningunni var alltaf "slæmt" veður til að lesa fyrir próf þegar ég var ungur. Þurfti alltaf að vera sólskin, logn og hiti.
Auðvitað var þetta ekki alveg svona en maí eru nú einfaldlega einn af þremur björtustu mánuðum ársins, hæstur loftþrýstingur og meira um það að í gangi sé norðlæg eða norðaustlæg vindátt hér syðra en í öðrum mánuðum.
Eina undantekningin sem ég man eftir var einhvern tímann á síðasta árutug liðinnar aldar, þegar voru þokur og súld meginhluta maí.
Þetta góða maíveður átti kannski sinn þátt í því að ég varð ekki lögfræðingur.
Ég sat einn svona maídag í húsi sem ætlað var laganemum við Aragötu og las kröfurétt fyrir fyrrihlutapróf í lögfræði.
Ég horfði út um gluggann yfir í Vatnsmýrina þar sem fuglar sungu í logni, sólskini og hita.
Allt í einu tók ég ósjálfrátt viðbragð, lokaði bókinni, stóð upp og gekk út í vorið með þá skyndileg en skýru ákvörðun í huga, að það að kunna kröfurétt út í hörgul yrðu ekki örlög mín. Síðan hef ég aldrei stigið fæti inn í þetta hús við Aragötuna.
Til útskýringar má geta þess að ég var kominn býsna langt, búinn með "fýluna", hagfræði og almenna lögfræði og kominn af stað í þessu fyrrihlutaprófi og þetta var því býsna örlagarík ákvörðun.
En kröfuréttur þótti mikið torf og þjónaði svipuðum tilgangi og anatómía í læknisfræði sem þolraun fyrir nemendur þessara fræða.
Eftir að kröfurétturinn hafði verið innbyrtur sem og fyrrihlutaprófið var maður að byrja að verða "jússósa" og öðlast "júridískan þankagang."
Ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Á þessum tíma var ég kominn upp fyrir haus í verkefnum sem skemmtikraftur, leikari og texta- og tónsmiður og nokkrum árum síðar datt ég inn í sjónvarpið þar sem stærstur hluti ævistarfs, sem ég hafði aldrei ætlað mér, beið mín.
Ég ætlaði á þessum árum að fara út í pólitík og laganámið var þá algengasta leiðin. Mér fannst stjórnarfars- og stjórnskipunarréttur skemmtilegar greinar en kröfurétturinn var önnur Ella.
Ef til kennd hefðu verið stjórnmálafræði við Háskólann hefði ég farið í þau og þá líklegast út á þá braut í lífinu.
Nú sýsla ég um hríð á gamals aldri við þessi fræði með mjög góðu fólki og það er engin hætta á að ég standi hér upp og gangi út í bjart vorið frá þessu verkefni.
Próflestur í sól og sumaryl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kæri Ómar
Mikið afskapleg er ég feginn að þú gerðist ekki lögfræðingur. Þó að ég sé viss um að þú hefðir staðið þig með sóma í því starfi eins og öðru sem þú gerir þá hefði það verið mikill skaði fyrir land og þjóð hefðir þú ekki orðið skemmtikraftur og fréttamaður.
Einar Steinsson, 12.5.2011 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.