Mikilsverð breyting.

Í kosningabaráttunni 2007 var það á stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar sem nú er lagt til hjá Stjórnlagaráði, að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn og að vægi þingforseta og þingnefnda sé aukið sem löggjafa og eftirlitsaðila gagnvart framkvæmdavaldinu.

Þetta fékkst lítt eða ekki rætt í kosningabarátunni, ástandið var svo mikið "2007", allir uppteknir og uppnumdir af ljóma græðgisbólunnar.

Hugmyndin núna er sú að ráðherrar mæli ekki lengur fyrir frumvörpum á þingi, heldur verði talsmaður eða formaður viðkomandi þingnefndar að gera það. 

Breytingin verður til þess að ekki kemur aftur upp það ástand, sem oft hefur ríkt, að heilu og hálfu þingflokkarnir hjá smærri flokkum hafi verið ráðherrar. 

Það hefur verið sett fram sem mótrök við því að ráðherrar séu ekki þingmenn, að enda þótt þeir hafi ekki atkvæðisrétt eða tillögurétt, megi þeir eðli máls samkvæmt, sitja þingfundi og svara þar fyrirspurnum eða bregðast við því sem er að gerast í umræðum. 

Af því leiði að í þingsalnum fjölgi stórlega hverju sinni þeim, sem eru í stjórnarmeirihluta. 

Ég tel þessi rök ekki halda. Reynslan sýnir að í umræðum á þingi, einkum umræðum um heit mál, hafa stjórnarandstöðuþingmenn talað meira en stjórnarþingmenn og hvað eftir annað átt "ræðukónga" Alþingis. 

 


mbl.is Ráðherrar víki af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

 Sú hugmynd sem nú er uppi að ráðherrar segi af sér þingmennsku en hafi
jafnframt aðgang að ræðustól Alþingis tel ég mjög varhugaverða. Þrátt
fyrir að þessi aðgerð hafi vissulega göfugt markmið, að takmarka völd
ráðherra gagnvart þinginu, þá eru miklar líkur á að niðurstaðan yrði þver
öfug.

Völd þingmeirihlutans og þar með ráðherranna gætu aukist gríðarlega. Litlu
máli skiptir hvort varamenn yrðu kallaðir á þing í stað ráðherranna.
Ráðherrarnir yrðu ennþá skipaðir af valda- og áhrifamestu einstaklingunum
innan hvers flokks. Fyrir því er löng hefð í íslenskum stjórnmálum.

Völd ráðherra munu ekkert minnka við þessa ráðstöfun nema að forminu til.
Þeir verða ennþá skipaðir af sterkustu og reyndustu meðlima flokksins,
þeir hafa ennþá allt embættismannakerfið í ráðuneytinu til að vinna fyrir
sig frumvörp, þeir hafa ennþá launaða aðstoðarmenn og þeir munu ennþá hafa
aðgang að ræðustól Alþingis.

Ekki má vanmeta það sterka tæki sem ræðustóll Alþingis er. Hann er besta
leið þingmanna/ráðherra til að koma sjálfum sér á framfæri í fjölmiðlum.
Ráðherrarnir yrðu áfram fyrirferðamiklir í sölum Alþingis.

Einnig er líklegt er að varaþingmennirnir sem yrðu kallaðir inn fyrir
ráðherrana myndu einfaldlega lúta vilja ráðherranna í einu og öllu. Þeir
væri reynsluminnstir og með minnsta fylgið á bakvið sig. Auk þess gæti
meirihlutinn losað sig við þá af þingi ef þeir væru ósáttir við stefnu
stjórnarinnar. Það væri gert með breyttri ráðherraskipan.

Í lok hvers kjörtímabils hefði svo starfandi meirihluti á að skipa mun
fleiri reyndum þingliðum en stjórnarandstaðan.

Þrátt fyrir að markmiðið sé göfugt, að minnka völd ráðherra gagnvart
þinginu, tillagan hljómi vel í eyrum margra þá er það mitt álit að þessi
breyting gæti haft gagnstæð áhrif og aukið liðstyrk stjórnarliðsins sem
nemur fjölda ráðherra hverju sinni.

Þessi hugmynd getur ef til vill gengið í þroskuðum þingræðisríkjum
Skandinavíu þar sem einnig er hefð fyrir minnihlutastjórnum og
ákvarðanatöku með víðtækri sátt allra flokka. Á meðan íslensk
þingræðishefð hefur ekki náð viðlíka þroska tel ég ekki ráðlegt að
ráðherrar verði látnir víkja sæti.

Tryggvi (IP-tala skráð) 12.5.2011 kl. 14:43

2 identicon

Svolítið sama sinnis. Ráðherrarnir þyrftu hreinlega að vera ráðnir, - ópólítiskt, - bara eins og framkvæmdarstjóri í fyrirtæki eða þannig, og ég held að það sé langur vegur í að það gerist hérna á Íslandi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.5.2011 kl. 14:55

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við erum ekki búinn að klára þetta endanlega og höfum rætt um það að tryggja, að þingið hefði aðgang að sömu sérfræðingum og ráðuneytin.

Ég benti á það í umræðum í Stjórnlagaráði í dag að auðvitað gætu ráðherrar farið á svig við ætlun okkar með því að láta eftir sem áður vinna tillögur í ráðuneytunum og gaukað þeim síðan að formönnum þingnefnda til að leggja þau þar fram. 

Á móti þessu kemur að sé einhver dugur í nefndarformönnum, sem með þessu nýja fyrirkomulagi fá aukið vægi, hafa þeir og nefndarmenn meira á bak við sig til að hamla gegn ráðherraræðinu enda misstu ráðherrarnir tíu atkvæði samtals á þingi til að beita. 

Við vonumst einnig til að með þessari breytingu verði þingmenn örvaðir til að láta meira að sér kveða. 

Þeir sem ekki vilja breyta neinu vilja óbreytt ástand, sem felst í því að einstakir stjórnarþingmenn finna til þess að vera áhrifalausir að mestu og afgreiðslumenn fyrir ráðherrana, og stjórnarandstöðuþingmenn algerlega áhirfalausir. 

Erlendur sérfræðingur um gerð stjórnarskráa, sagði hér í fyrirlestri á dögunum, að  við værum of fá í Stjórnlagaráði og tíminn allt of stuttur. Af því leiðir að ef við færum út á þá braut að breyta í svipað fyrirkomulag og í Frakklandi eða Bandaríkjunum, myndi við þurfa miklu lengri tíma til að standa fyrir svo gagngerum breytingum sem hefðu áhrif í gegnum alla löggjöfina og stjórnkerfið. 

Ómar Ragnarsson, 12.5.2011 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband