Aldrei að afskrifa líkur.

dscf0502_1083133.jpgAldrei skyldi afskrifa neitt alveg þótt líkur séu hverfandi.

Ef það væri alltaf gert myndi enginn spila í Víkingalottói. 

Ég get nefnt tvö af ótal dæmum úr mínu lífi varðandi þetta. 

Í sjö ár hef ég átt 38 ára gamlan jöklabíl af gerðinni Range Rover. 

Hér á myndinni af honum stendur tengdasonur minn, Friðrik Sigurðsson, maður Iðunnar, við hann, því að í glugga hans er Arsenal merki fyrri eiganda og mér fannst að vegna mikillar Arsenal-aðdáunar Friðriks ætti ég ekki að skipta um merki, þótt ég sé sjálfur "Púllari. 

Þessi gamli og þreytti jálkur, sem hefur reynst mér afar vel, er með  næstum því jafngamalli Nissan Laurel dísilvél og fyrir nokkrum árum sprakk "heddpakkning" í vélinni. Voru nú góð ráð dýr. 

Vinir mínir í Kistufelli tóku bílinn og byrjuðu svo að leita að pakkningu en fundu ekki. 

Ég bað þá um að gefast ekki upp en eftir að liðið var hálft ár og engin hafði fundist, þótt leitað væri á netinu um allan heim, gáfust þeir upp og báðu mig um að taka bílinn. 

Ég fór uppeftir, pantaði bíl frá Vöku, sem kom til að draga hann suður á Geymslusvæðið í Kapelluhrauni, en þar ætlaði ég að hirða dekkin og farga honum síðan. 

Í þeim svifum sem Vökubíllinn er að draga jeppann út á götuna kemur svipaður Range Rover niður götuna. Bílstjórinn stöðvar bílinn og kallar til mín, spyr hvað sé á seyði. 

Ég sagði honum allt af létta. "Hættu við þetta", sagði hann. "Ég á svona pakkningu." 

Ég spurði hann af hverju hann væri þarna á ferð. "Ég ætlaði ekki að vera hér á ferð," svaraði hann, "því ég villtist." 

Og þá vaknar spurningin: Hversu miklar líkur voru á því að einmitt á þessu augnabliki villtist eini maðurinn í heiminum, sem átti svona pakkningu á lausu, þannig að hann hitti á mig? 

Mig grunar að það gætu verið einn á móti tugum milljóna og það leiðir hugan að miklu dramatískari heppni. 

Fyrir rúmum áratug var ég í fréttaferð í Kverkfjöll og vildi meðal annars gera frétt til að vara við íshruni í frægum íshelli í Kverkjökli.

Þar höfðu einu sinni á sumri fallið gríðarstór þúsund tonna stykki  niður í hellismunnann og var ljóst, að ef hópur fólks væri þar á ferð þegar þetta gerðist gæti íshrun af þessari stærð valdið dauða fjölda fólks. 

Ég var einn á ferð og tók því myndir í tveimur atrennum: 

Fyrst stillti ég myndavélinni upp alveg í hellismunnanum og talaði þar um aðstæðurnar og hættuna. 

Síðan hljóp ég með myndavélina í um það bil 100 metra fjarlægði og lét hana ganga meðan ég hljóp á staðinn sem ég hafði áður staðið á, stillti mér þar upp í nokkrar sekúndur og hljóp  síðan aftur að myndavélinni til að klára myndatökurnar. 

Ég "súmmaði inn" á stóra bogadregna sprungu í ísveggnum yfir hellismunnanum, en í þann mund sem ég var á fullu "innsúmmi" eins og það heitir á tæknimáli, brá svo við, að sprungan fór að gliðna, svo að ég súmmaði hratt út og í þeim svifum hrundi um 1000 tonna ísstál yfir staðinn þar sem ég stóð aðeins mínútu fyrr! 

Hefði ég staðið þar mínútu síðar hefði það orðið minn bani því að mikil flóðbylgja úr ánni Volgu, sem rennur út um hellismunnann, reið yfir þann stað og margra tonna ískstykki þeyttust eins og skæðadrífa yfir svæðið! 

Í tengslum við þetta giskaði ég á líkurnar á tvennu: 

1. Líkurnar á því að hið árlega stórhrun gerðist á þeim tveimur sekúndum, sem myndavélinni var beint að sprungunnni í ísveggnum.  Niðurstaða: Ca einn á móti 30 milljónum! 

2. Líkurnar á því að ég hefði drepist:  Ca einn á móti milljón!

Raunar fórst kona í Hrafntinnuskeri nokkrum árum síðar þegar ísklumpur hrundi úr íshelli þar og lenti í höfði hennar. Það þarf ekki stóran klump til að verða manni að bana þegar hann hrynur úr töluverðri hæð á hann. 


mbl.is Líkurnar 1 á móti 5.814
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru milljónir, jafnvel tugi milljóna atburðir sem geta gerst sem eru ótrúlega ólíklegir. Þeir eru ekki allir að fara að gerast, en ekkert óeðlilegt við það að einhverjir þeirra gerist einhversstaðar, jafnvel á hverjum einasta degi. Fólk tekur bara meira eftir því þegar þeir gerast, en þegar þeir gerast ekki :)

Birkir (IP-tala skráð) 13.5.2011 kl. 10:09

2 identicon

Það merkilegasta í þessu öllu saman þykir mér þó að þér hafi tekist að eiga 38 ára gamlan bíl í sjö ár :)

Guðmundur Helgason (IP-tala skráð) 13.5.2011 kl. 11:38

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þvílík tilviljun Guðmundur, að þú, eini maðurinn í vetrarbrautinni sem ekki skilur þetta, skuli hafa álpast til að lesa þessa færslu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.5.2011 kl. 11:56

4 identicon

Og aldeilis órtrúleg tilviljun ofan á aðra tilviljun Axel, að þú, eini maðurinn í vetrarbrautinni sem ekki skilur athugasemd mína, skulir hafa álpast til að lesa hana....

Guðmundur Helgason (IP-tala skráð) 13.5.2011 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband