"Kjörin harðstjórn."

Í greinargerð Sigurðar Líndals, prófessors, sem fylgdi gögnum þeim er Stjórnlaganefnd lét Stjórnlagaráði í té, nefnir hann hugtakið "kjörin harðstjórn."

Með því á hann við það að í þjóðfélagi með lýðræðisskipulagi geti verið sú hætta fyrir hendi að einn maður eða fámenn valdaklíka nái slíku heljartaki á þjóðfélaginu að smám saman fari þegnarnir að hætta að gera neitt það sem þeir halda að valdsherrarnir líti hornauga. 

Það er matsatriði hvar menn draga mörkin á milli harðstjórnar og styrkrar stjórnar. Harðstjórn, það að stjórna með harðri hendi, getur falist í fleiru en að fangelsa menn eða hefta ferðafrelsi þeirra.  

Þegar slík stjórn veldur því að menn, stofnanir og fyrirtæki eru "sett út í kuldann" og refsað á ýmsan hátt fyrir að vera ekki harðstjóranum þóknanleg í skoðunum eða athöfnum á skilgreiningin "harðstjórn" rétt á sér. 

Á tímabilinu 1999 til 2008 ríkti harðstjórn á Íslandi. Fyrri hluta tímabilsins var það ofurveldi eins manns með atbeina fóstbróður hans, sem skóp óttablandna þöggun á ótrúlega mörgum sviðum þjóðlífsins."

Þetta var þó "kjörin harðstjórn" því að þjóðin kaus tvívegis þá flokka til meirihluta á Alþingi, sem þessir menn voru búnir að svínbeygja svo mjög, að enginn þorði að æmta né skræmta í þingflokkum þeirra þótt tveir menn ákvæðu rétt si svona dag einn í mars 2003 að Ísland skyldi láta skrá sig á lista "viljugra þjóða" sem styddu ólöglega hernaðarinnrás inn í fjarlægt land. 

Síðari hluta tímabilsins tók síðan við ofurvald Græðgisbólunnar sem þessir tveir menn höfðu staðið að stórum hluta á bakvið með sjálftöku og einkavinavæðingu bankanna. 

Satt er það líklega, að engin stjórnarskrá getur komið í veg fyrir "kjörna harðstjórn." 

Hins vegar getur góð stjórnarskrá, þar sem leitast er við að dreifa valdinu, takmarka það í tíma og rúmi og auka siðferðilegar kröfur, unnið gegn því að grundvöllur til harðstjórnar og spillingar myndist.

Spillt valdakerfi í kringum einn mann hefur verið í Rússlandi. Það væri enn verra ef ekki hefði verið bannað í stjórnarskrá að sami maður gegndi forsetaembætti í meira en 8 ár í senn. 

Þess vegna getur núverandi forseti varað við því að valdafíkinn fyrrverandi forseti byggi upp aukna "kjörna harðstjórn." 


mbl.is Medvedev varar við samþjöppun valds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband