23.5.2011 | 22:18
Rímar við mælingar dagsins.
Ég var að koma úr öðru mælingarfluginu í kvöld vegna öskudreifingar úr Grímsvötnum. Þetta flug er farið á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Ísland í samvinnu við Háskólann í Dusseldorf.
Mælingin í dag í aðflugsferli og fráflugsferli Keflavíkurflugvallar var með svipaða niðurstöðu og í gær, að öskumagn í lofti er langt, langt fyrir neðan þau mörk sem framleiðendur flugvélahreyflanna setja sem hámark öskumagns í lofti fyrir farþegaþotur.
Enn merkilegri var mælingin í gær í öskumekkinum, sem kaffærði Suðurlandsundirlendið þar sem skyggni í Ölfusi og Flóa fór niður í tvo kílómetra. Samkvæmt henni var þessi öskumengun nálægt þeim mörkum sem flughreyflafarmleiðendurnir setja og hefði manni þótt það ótrúlegt fyrirfram.
Þegar flogið var meðfram þessum öskumekki, var hann eins og brúnn veggur tilsýndar að sjá og lá meðfram ströndinni fyrir vestan Þorlákshöfn.
Ég var búinn í flugi fyrr um daginn að fljúga meðfram þessum mekki alla leið frá Vatnajökli og vestur til Selfoss og horfa á hvernig hann fór að þokast hægt og rólega í vestur frá Þjórsá þegar leið að kvöldi.
Á margar myndir af þessum skörpu skilum milli makkarins og heiðríkjunnar hreinu fyrir vestan hann þar sem flug var bannað.
Frétti af því að Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur hefði tekið undir það sem ég sagði í útvarpsviðtölum í morgun varðandi það að stórbæta má athuganir og mælingar þegar eldgos verða og koma í veg fyrir lokanir flugvalla og borð við megnið af þeim lokunum, sem voru í fyrra og í gosinu nú.
Útlitið gott fyrir flug til morguns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála þér, Ómar. Það virðist lítil skynsemi í því banni sem sett var á nú sem og í Eyjafjallajökulsgosi. Frá sjónarhóli venjulegra borgara er þetta eins og ofstækislegt bann án nokkurra raka. Himinninn heiður og blár og hafið skínandi blátt. Mökkurinn afgerandi afmarkaður fyrir flug. Hvar er hættan?
Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2011 kl. 23:14
Gott mál hjá þér Ómar, skynsemin í fyrir rúmi !
Jón Svavarsson, 24.5.2011 kl. 01:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.