24.5.2011 | 12:46
Leitað að öskuskýinu í dag.
Nú síðdegis er ætlunin að fara í mælingaflug yfir flugvellina í Keflavík, Reykjavík og á Ísafirði og kanna öskumagnið í loftinu. Þetta verður gert á vegum Isavia og það eitt eru mikilsverð tíðindi.
Mælingarnar í gær og í fyrradag auk könnunar úr lofti á útbreiðslu öskuloftins með tilheyrandi ljósmyndatöku sýndu svo ekki verður um villst að fráleitt var að loka þessum flugvöllum.
Með því að Isavia tekur þessar sjálfsögðu mælingar að sér, sem byggðar eru á samstarfi í gerð mælitækja á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og háskólans í Dusseldorf, er notuð sú tækni og þau tæki sem fyrir hendi eru til þess að kanna ástand mála en láta ekki nægja tölvuspár frá London sem fjöldi jarðvísindamanna og flugmanna, sem þekkja til, gagnrýna nú harðlega.
Ég hef í athugasemdum við bloggpistla mína verið atyrtur fyrir þátttöku mína í þessu máli og fullyrt að ég sé í fífldirfsku að leggja til að lífi þúsund flugfarþega verði hætt vegna lítilfjörlegra hagsmuna og að átt hefði fyrir löngu að svipta mig flugréttindum vegna glæfralegs flugs míns við gjósandi eldstöðvar á Íslandi í næstum hálfa öld, alls við 23 eldgos !
Líklega þyrfti þá að bæta við flugréttindum flugmannanna RAX og Ólafs Sigurjónssonar í Forsæti í Flóa, auk Harðar Guðmundssonar, en þessir flugmenn hafa mikla reynslu af flugi vegna eldgosa.
En verkin sýna merkin.
Í fyrra bönnuðu nokkrir alvitrir fjarstaddir tölvuspekingar í London, sem aldrei hafa séð eldgos, allt flug á Íslandi í nokkra daga þar sem sól skein á bláum himni en leyfðu það síðan þegar í Reykjavík var mesta öskufall, öskumistur og svifryk, sem mælst hafði þar !
Niðurstaða þeirra jarðfræðinga og flugmanna, sem mesta reynslu hafa af eldgosum og flugi í nánd við þau er einföld: Sjónin er besta mælitækið og mælingar í gær og fyrradag leiða þetta vel í ljós.
Þegar veðurskilyrði eru lík þeim sem verið hafa yfir landinu síðustu daga að hægt hefur verið að horfa yfir landið og helstu flugleiðirnar og taka undir með Jónasi Hallgrímssyni: "Landið er fagurt og frítt / og fannhvítir jöklanna tindar./ Himinninn heiður og blár. / Hafið er skínandi bjart" er ansi hart að nákvæmar og dýrar mælingar þurfi til að leiða í ljós það sem er svo augljóst.
Og þegar talað eru um "lítilfjörlega hagsmuni" er það einkennilegur mælikvarði sem lagður er á 750 milljón króna beint tap fluglfélaga í fyrra auk tapsins af völdum annarrar röskunar og röngu orðspori landsins.
Flugi aflýst til Bretlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar
Er það rétt sem haft var eftir veðurfræðingi í fréttum í gær að askan væri ekki hættuleg þotuhreyflum fyrr en hún væri orðin svo þétt að hún væri vel sjáanleg?
Ef þetta er rétt, þá er ljóst að viðbrögðin í fyrra voru allt of harkaleg. Þá var stórum svæðum lokað fyrir flugi vegna þess að hugsanlega væri aska í loftinu.
Það er vitað að askan eyðileggur þotuhreyfla, en er vitað hver þéttleiki hennar þarf að vera til að skaði hljótist af?
Ef sá þéttleiki þarf að vera svo mikill að hann sé sjáanlegur, er ljóst að sjónflug ætti að vera leifilegt.
Þær sögur sem til eru af slysum vegna þess að flugvélar hafi lent í öskuskýi eru flestar eða allar um að flugvélar hafi flogið beint inn í þétta ösku. Jafnvel eru sögur af því að vélar hafi lent í slíkri ösku, misst vélarafl en vélarnar síðan farið af stað aftur eftir að þær kólnuðu nóg til að öskuglerjungurinn losnaði. Þær hafi síðan náð að lenda.
En hversu þétt þarf askan að vera til að hún valdi usla?
Gunnar Heiðarsson, 24.5.2011 kl. 17:53
Einfalt að reikna tölur fyrir 1000km flug og 200 míkrógröm á rúmmetra. Gefum okkur að eins fermetra op sé á þotuhreyfilinn og þá fara 1E+06*200*1E-6=200g af ösku í gegnum hreyfilinn á 1000km vegalengd.
Hættumörkin eru sögð 10 sinnum meiri svo 2kg fara í gegnum hreyfilinn á þessari vegalengd. Þetta virðast ekki hár tölur þar sem þetta gerist á rúmum klukkutíma.
Ekki er hægt að reikna lengra, aðeins tilraunir með þotuhreyfil og öskumötun geta svarað þessu.
Sveinn Ólafsson (IP-tala skráð) 24.5.2011 kl. 18:38
Eftir mælingaflugið í fyrradag er svarið einfalt: Öskumagnið nálgast efstu leyfilegu mörk, 4000 míkrógrömm á rúmmetra, þegar skyggni er komið niður í 3-5 kílómetra líkt og var á Selfossi og í Ölfusi í þessu mælingaflugi.
Þá er askan orðin vel sjáanleg og tilsýndar lítur hún út eins og brúnn veggur í samanburði við loftið fyrir utan hana. Ætla að birta bloggpistil um þetta.
Ómar Ragnarsson, 24.5.2011 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.