26.5.2011 | 01:22
Ein af tíu merkilegustu eldstöðvum jarðar.
Jarðvísindamenn hafa í alþjóðlegu verki valið tíu merkilegustu eldstöðvar jarðar, þar af sjö ofansjávar.
Ein þessara sjö eldstöðva eru Grímsvötn.
Hekla, Snæfellsjökull, Fujijama, Kilimanjaro, Vesuvius og fleiri þekktustu eldfjöll jarðar komast þar ekki á blað.
Grímsvötn komast svona hátt vegna hins einstæða samspils ísss og elds sem þar er.
Slík eldfjöll eru fleiri og stórkostlegri hér en annars staðar og Grímsvötn eiga íslenska keppinauta svo sem Kötlu og Kverffjöll.
Eyjafjallajökull sýndi líka takta.
Ég hef áður bloggað um þetta og þið getið fundið það með því að nota leitarreitinn vinstra megin á síðunni og sett þar inn orð eins og "Grímsvötn", "Vorferð Jöklarannsóknarfélagsins" o. s. frv.
Ég ætla að setja hér inn eina og eina mynd eftir hendinni, sem teknar voru í flugferð í Grímsvötn í kvöld og er þar horft ofan í hið risavaxna gímald, sem gígurinn er og sést að bráðnandi ísinn er byrjaður að mynda sjóðandi tjarnir eða stöðuvötn. Af þessum einstæðu vötnum dregur Vatnajökull nafn.
Það var erfitt að komast í Grímsvötn í dag, aðeins hægt að komast þangað í krókaleiðum og úr norðri.
Það gekk á með skúrum og það var ókyrrt eins og sást á kvikmyndum sem teknar voru í þessari ferð.
Á leiðinni austur mætti ég nokkrum jöklajeppum á leið frá Jökulheimum til byggða og maður iðar í skinninu að fara á minnsta jöklajeppa landsins eða minnsta Toyotajöklajeppa landins þarna upp eftir.
En Stjórnlagaráð verður að hafa sinn gang og þar er í gangi heillandi vinna.
Ofan á eldgosið bættist síðan það verkefni að halda flugvöllum landsins opnum með því að fljúga stöðug mælingaflug á flugleiðunum út frá Suðvesturhorninu, alls sex ferðir.
Minnkandi gosvirkni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú hefur einstakt lag á að útskýra svona náttúrufyrirbæri án þess að gera það flókið. Alltaf áhugavert að lesa pistlana þína.
Sumarliði Einar Daðason, 26.5.2011 kl. 03:14
Einhver áhöld eru um það af hverju Vatnajökull dregur nafn sitt. Grímsvötn er ein skýringin en það er hrein ágiskun.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.5.2011 kl. 08:58
Ertu með tengil á eða lista yfir hinar níu?
Marinó G. Njálsson, 26.5.2011 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.