29.5.2011 | 01:39
Eftirsókn af nýjum toga. Lada Sport-upplifun.
The Economist tekur réttan pól í hæðina þegar það telur eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum geta skapað auknar tekjur af ferðamennsku á Íslandi.
Ástæðan er sú, sem kom fram í viðtali sem ég tók við bandarískan ferðamálaprófessor fyrir meira en áratug þegar þeim markhóp, sem hraðast fjölgaði var lýst sem ferðafólki sem vildi upplifun undir kjörorðinu "get your hands dirty and your feet wet!"
Hvers kyns kynni af lífsbaráttu (survival) og ævintýrum þar sem yfirstíga þyrfti erfiðleika verður keppikefli æ fleiri ferðamanna. Lítið dæmi: Fyrir nokkrum árum prófuðu tvær bílaleigur með nokkurra ára millibili að kaupa nokkra Lada Sport jeppa sem voru langódýrstu jepparnir.
Rétt er að taka það fram að hvergi í heiminum voru þessi jeppar nefndir þessu nafni nema á Íslandi. Í raun og veru heita þeir Lada Niva en snjallir sölumenn þeirra hér fengu leyfi framleiðendanna til að kalla þá Lada Sport.
Í fyrstu virtist þetta vera mislukkað og fyrri bílaleigan gafst upp þegar viðskiptavinirnir komu úr ferðum með húna, upphalara og fleira slíkt í höndunum, sem hafði losnað.
Seinni bílaleigan var heppnari að því leyti til að þá voru verksmiðjurnar að taka sig á eftir slæman tíma í sögu framleiðslu bílsins fyrstu árin eftir að kommúnisminn féll.
Þá komust ósvífnir fjáraflamenn yfir verksmiðjurnar og gæðin, sem aldrei voru neitt til að hrópa húrra fyrir, hrundu.
Um þessar mundir er þessi bílaleiga að endurnýja flotann af Lödu sport.
Ástæðan er tvíþætt.
Í fyrsta lagi koma til landsins ferðamenn sem ferðuðust um landið sem ungt fólk fyrir 20 til 30 árum og vildu upplifa að nýju svipað ferðalag og þá.
Í öðru lagi eru þetta ferðamenn sem sækjast eftir ævintýri sem er fólgið í því að fara á jafn grófgerðum og ódýrum bíl um jeppaslóðir og vilja síður vera á dýrari og vandaðri jeppa.
Smá viðbót um Lada Niva. Þegar þeir komu fram 1977 fólst í þeim bylting í hönnun svona bíla. Þeir voru á gormum allan hringinn og með sjálfstæða fjöðrun að framan, ekki á grind heldur með heilsteypta skel og með sídrif, alltaf í fjórhjóladrifinu.
Auk þess voru þeir af mjög heppilegri stærð, svipaðri og Suzuki Vitara og Daihatsu Feroza 12 árum síðar.
Lada Niva var fyrsti fjórhjóladrifni "crossover" jeppinn en rétt á undan honum hafði Subaru komið fram með fjórhjóladrifinn "crossover" jeppling.
Ég tel Lada Niva ekki til jepplinga heldur til ekta jeppa. Veghæð er 22 sm og bílinn er með háu og lágu drifi. Þar að auki er hærra undir kvið en á flestum jeppum og í því sker Nivan sig algerlega frá jepplingunum.
Lada Niva mun eignast fastan sess á "naumhyggju-bílasafninu" sem mig dreymir um að setja á fót, því að þau ár sem hann hefur verið og er fáanlegur á Íslandi, er þetta ódýrasti jeppinn.
Frábær hönnun að miklu leyti á sínum tíma, langt á undan sinni samtíð, enda virðist hann ekki geta "dáið" og vikið fyrir nýtískulegri jeppum frá sama framleiðanda heldur alltaf markaður fyrir hann bæði heima og erlendis.
Dæmi um nýtingu á rými er það að varadekkið er undir vélarhlífinni og því er farangursrýmið miklu meira en Suzuki Vitara,sem er af svipaðri stærð. .
Báðir þessir bílar eru léttir, Súkkan þó léttari þótt hún sé á grind.
Auðveldara er að setja stór dekk undir Súkkuna og eyðslan er minni því að Ladan eyðir heldur meiru en stærð, þyngd og vélarstærð segja til um.
Vélin og kramið allt er að vísu grófgert en þó var vélin frá upphafi með yfirliggjandi kambás, sem ekki var algengt 1977.
Nú er til dæmis farið að flytja hann inn til Bretlands og fullyrt að nú hafi verið útrýmt ýmsum afar billegum og lélegum smáhlutum í honum eins og pakkningum, hosum og leiðslum, sem gerðu eigendurna gráhærða á árunum frá 1992 og fram yfir aldamót.
Náttúrufegurð fremur en Wall Street á túndrunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þekkti Þjóðverja sem komu hingað og leigðu sér Lada til þess ferðast á. Þau voru yfir sig hrifin. Það er mjög áhugaverður markhópur ferðamanna sem kemur til þess að upplifa erfiðar aðstæður. Gott innlegg.
Sigurður Þorsteinsson, 29.5.2011 kl. 06:00
lada sport er einstaklega mjúk í torfærum.. hef átt svona bíl og var ánægður með hann
Óskar Þorkelsson, 29.5.2011 kl. 09:06
Lada var topp bíll, Altaf á topnum.
Leifur Þorsteinsson, 29.5.2011 kl. 09:56
Það var nú einu sinni sagt, sennilega í gríni þó, að rússarnir hefðu tekið Range-Roverinn hans Spaskys sem hann fékk eftir einvígi aldarinnar, skrúfað hann allan í sundur og smíðað eftir honum Lödu Sport, en bara ekki tekist betur til!
Sigurður Aðalsteinsson (IP-tala skráð) 29.5.2011 kl. 11:53
Range Rover var tímamótabíll í þróun aldrifsbíla. Með gormafjörðrun á öllum hjólum og sídrif.
Lada Sport var smækkuð útgáfa sjö árum síðar, líka með gormafjöðrun á öllum hjólum og sídrif en þar að auki með sjálfstæða fjöðrun að framan og heilsteypt "boddí".
Lada Sport var mun hrekklausari í akstri en Bronco og Vitara, Feroza, Fox og Jimny voru allir meira "á toppnum" en Lada Sport, en allum þessum bílum hef ég ekið þúsundir kílómetra á misjöfnum vegum.
Ómar Ragnarsson, 29.5.2011 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.