30.5.2011 | 17:11
Ýmsar spurningar varðandi Hess.
Flugferð Rudolfs Hess til Bretlands 10. maí 1941 hefur lengi verið einn af dularfyllstu atburðum stríðsins og raunar dæmalaust í heimssögunni að staðgengill valdamesta manns heims fari slíka ferð.
Ýmislegt hefur verið skrýtið við þessa ferð, til dæmis það hvernig það mátti verða að Hess gæti tekið heila tveggja hreyfla herflugvél traustataki og flogið henni svo langa leið yfir eigin landi og síðan allt norður til Skotlands.
Einnig það að það liðu tveir sólarhringar þar til stjórnvöld í Þýskalandi sögðu eitthvað um málið. Þá var loks í yfirlýsingu gefið í skyn að Hess hefði misst vitið nánast eins og um ofskynjanir væri að ræða.
Það hefði verið afar mikils virði fyrir Þjóðverja að fá Breta til liðs við sig á þessum tíma og ekkert óraunhæft að halda að þeir væru til í það.
Nokkru fyrr þetta vor hafði Charles Lindbergh haldið ræðu í Bandaríkjunum og gagnrýnt Breta fyrir að etja þjóðum Evrópu í vonlaust stríð gegn Þjóðverjum. Ástæðan lá þá ljós fyrir: Þjóðverjar höfðu vaðið yfir Balkanskagann og Bretar farið þar herfilegustu hrakfarir.
Hér heima á Íslandi voru Bretar að leggja veg ofan byggða milli Elliðaárdals og Hafnarfjarðar sem hlaut heitið "Flóttamannavegur" í munni Íslendinga, því að auðséð væri að Tjallarnir ætluðu að nota hann á flótta undan Þjóðverjum þegar þeir kæmu.
Áhrifamiklir aðilar höfðu árum saman verið hallir undir Þjóðverja meðal Engisaxnesku þjóðanna. Joseph Kennedy sendiherra Bandaríkjamanna í London hafði talið ráðlegast fyrir Breta að þiggja boð Hitlers í júlíbyrjun 1940 þar sem hann sagðist "höfða til skynseminnar" og bauð Bretum frið með loforði um að í staðinn myndu Þjóðverjar vernda breska heimsveldið og eyða hverjum óvini þess.
Játvarður konungur hafði verið hallur undir Þjóðverja og þegar Þjóðverjar gersigruðu Frakka í júní 1940 voru uppi raddir meðal ráðamanna í Bretlandi að skoða það að semja frið.
Sjálfur hafði Winston Churchill viðhaft hin verstu orð um Stalín og ógnarstjórn hans.
En hann var samt aldrei í vafa hver stefnan ætti að vera og valið væri einfalt: Nasisminn og stefna Hitlers væri með slíkum eindæmum villimannleg að aldrei skyldi við það unað.
Hess flaug til Bretlands sjö vikum áður en innrásin í Sovétríkin hófst og ljóst virðist að hefðu Bretar þá gengið til liðs við Þjóðverja eða samið við þá frið hefði það ráðið úrslitum um leifturstríðið sem í vændum var.
Þegar Bretar lýstu umsvifalaust yfir stuðningi við Rússa eftir innrásina var Churchill spurður hvort það skyti ekki skökku við að gerast vinur Stalíns sem hann hafði formælt svo mjög áður.
Churchill var fljótur til svars: "Nasisminn er þvílík villimennska að þótt ég þyrfti að gera bandalag við Djöfulinn sjálfa gegn honum, þá myndi ég áreiðanlega finna einhver vinsamleg orð til að segja um hann í neðri málstofunni."
![]() |
Hitler vissi um flugferðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er virkilega góð samantekt hjá þér, þótt ég leyfi mér að bæta smá punktum við hana.
Þetta kom mér reyndar ekkert á óvart, - það var mjög rökrétt hjá Þjóðverjum að leita hlutleysis frá Breta hálfu, og á þessum tímapunkti lá það ljóst fyrir að afstaða Breta gagnvart Þýskalandi myndi verða Þrándur í götu innrásarinnar. En ég ætla að byrja á einum punkti, - hversu rökrétt það hefði verið fyrir Þjóðverja að losna við Breta úr stríðinu á þessum tíma.
"Af hverju" kunna sumir að spyrja. Ekki voru Bretar með herstyrk þarna austur frá.
En það er flóknara en svo. Og Hitler var búinn að reka sig á það, og svo var hann líka búinn að reyna ákveðna nálgun við fasistastjórnina á Spáni, - Franco.
Hérna kemur málið:
Hafið: Bretar réðu miklu á hafinu, og Þýski flotinn hafði nær eingöngu það hlutverk að halda þeim í skefjum. Bretar viðhéldu hafnbanni á Þýskaland, sem kom sér ekki vel. Og svo voru ákveðnar leiðir lokaðar fyrir Öxulveldin, - sjóleiðin um Gíbraltar hefði verið lykilatriði með samgöngur Þjóðverja með lið að botni Svartahafs, og sama gilti um lokaða leið um Bosporus. Báðar hefðu opnast ef Bretar hefðu verið til friðs.
Og af hverju Svartahaf? Jú, það hefði þýtt mikla flutningsgetu herafla þar suður um, inn á svæði (t.d. Sevastopol) þar sem hægt er að hefja hernaðaraðgerðir miklu fyrr en norðar, - mánuði fyrr en við Moskvu, að minnsta kosti.
Til sönnunar þessari kenningu má nefna það að þetta var einmitt aðalatriði fundar Hitlers með Franco, - hann vantaði hjálp eða a.m.k. ferðafrelsi til að beita Þýska hernum til að taka Gíbraltar. T.d. Járnbrautaflutninga og Spænskar lestir (Önnur sporvídd).
Loftið: Í orrustunni um Bretland varð það dagljóst að Bretar yrðu ekki unnir úr lofti, og flugvélatjón Þjóðverja var það mikið vegna Breta árið 1940, að það jafnast á við þann loftstyrk sem notaður var við innrásina í Sovétríkin. Þar fyrir utan þurfti að binda u.þ.b. hálfan loftstyrk Þjóðverja allt frá Íshafi suður til Miðjarðarhaf, aðallega vegna Breta.
Herstyrkur: Af sömu ástæðu urðu Þjóðverjar að binda mikinn mannafla í hernumdu löndunum. Búast mátti við áhlaupum Breta (sem reyndist vera svo, þótt smá væru í sniðum), skemmdarverkum, og uppþotum. Mannaflinn sem bundinn var, var minni en innrásarliðið, en engu að síðar meiri en t.d. björgunarlið Zhukovs á austur-Síberíu línunni, - sá herafli bjargaði Moskvu frá falli.
Viðskipti/aðföng: Það tengist að miklu hafnbanni Breta, sem stöðvaði (!) m.a. það að Þjóðverjar gætu átt viðskipti við t.d. Bandaríkin, og svo bara restina af heiminum. Það eru ekki bara hergögn sem vinna stríð, heldur hráefni alls konar, - timbur, gúmmí, fægætari málmar til flókinnar vinnslu (var vandamál!), farartæki, fóður/matur, klæði og allt hvaðeina. Þýski herinn sem hélt af stað með allt sitt hafurtask til stríðs við Sovétríkin, hann var að mestu fluttur fyrir HESTöflum. Stæsti reiðtúr sögunnar.
(Ómar, þú ættir að taka viðtal við fyrrum riddaraliðsdýralækni Wehrmacht í leiðangrinum, Karl Bruckner á Hellu)
En, - sem sagt, nóg af ástæðum til að meta það kalt að það væri betra að hafa Breta til friðs meðan kljáðst yrði við Sovétið. Miklu miklu betra.
Seinni spekúlering kemur svo síðar....
Jón Logi (IP-tala skráð) 31.5.2011 kl. 11:24
Áhugaverð lesning hjá þér og Jóni Loga. Hvar er hægt að fræðast meira um þennan Flóttamannaveg? (Til dæmis legu hans.) Ég hafði ekki hugmynd um hann.
Sumarliði Einar Daðason, 31.5.2011 kl. 17:27
Thetta var nu alveg vitad thar sem ad kallinn var trur Foringjanum til daudadags. Hitler vildi aldrei strid vid vesturveldin en thau vildu strid, ma. til ad komast utur kreppunni. Rudolf Hess framdi ekki sjalfsmord, hann var myrtur thar sem ad thrystingur jokst um ad hann yrdi latinn laus og bandamenn vildu ekki ad sannleikurinn kaemi i ljos. Hann var ekki daemdur fyrir stridsglaepi, heldur sinn thatt i ad hefja "arasarstrid". Sidan ma geta thess ad hann var eini fangi Spandau fangelsinsins i um 25 ar. Talandi um omannudlega medferd a fongum!
Jakob Jonsson (IP-tala skráð) 31.5.2011 kl. 19:14
Ég heyrði sögu/samsæriskenningu einmitt um þetta í Skotlandi, þegar ég var að þvælast þar fyrir mörgum árum... Hugsaði ekki mikið um hana þá frekar en maður gerir svona venjulegast...
-
Hún var einhvernvegin á þann veg að þessi tilraun til enn eins friðarsamkomulagsins milli Þýskalands og Englands sem var verið að koma á hafi verið að einhverjuleiti á ábyrgð Játvarðs, fyrrum konungs Breta...
-
O.S.S (sem mig minnir að leyniþjónusta Breta hafi þá kallast) hafi hinsvegar ákveðið að egna gildru í áróðursskyni fyrir Hess og Þjóðverja, með vitund og vilja þáverandi konungs, Georgs... Bróður Játvarðs sem varð í skyndi að taka við konungstigninni, óviljugur, eftir þessa "frekjulegu afsögn Játvarðs..." Einsog Georg konungur á að hafa látið hafa eftir sig... (Ekki skammast í mér ef kemur svo í ljós að einhver annar á að hafa sagt þetta... Ég hef sagnaþulinn einungis fyrir þessum tilvitnunum...)
Það átti víst s.s að hafa andað köldu á milli þeirra bræðranna vegna þessa... Og Játvarði var víst aldrei fyrirgefið af bróður sínum, Georg konungi... (Ég veit að þessi breski konungs-dúddi kallaði sig "Georg" ég bara man ekki númer hvað... Og ég biðst afsökunnar á því...)
-
En með gildrunni, sem heppnaðist fullkomlega í framkvæmd, var ætlunin að bæði gera Þjóðverjum neyðarlega skráveifu í áróðursskyni með handtöku Hess, sjálfs gullkálfs þriðja ríkisins og eftirlæti Hitlers...!
-
Semog að uppræta óánægjuraddir og þetta stöðuga væl frá breska aðalinum um að það væri lang skynsamlegast í stöðunni að semja eina andskotans ferðina enn við Hitler... Sérstaklega þar sem þriðja ríkið var umþaðbil að fara að lemja á vondu, ljótu kommúnistunum í austri...
-
Átti þessi aðgerð O.S.S að sýna aðlinum að fyrst konungur kom svona fram við sjálfan bróður sinn... Þá var það nokkuð öruggt að engum vettlingatökum yrðu þeir aðalsmenn Breta teknir sem ekki veittu ríkisstjórn og konungi skilyrðislausan og algjöran stuðning við stríðsreksturinn.
Sem stóð, og gerði allt stríðið, mjög höllum fæti og vildu margir á þeim tímapunkti kenna þessum taglhnýtingum innan úr aðlinum að mestu um þennan slóðahátt og tafir breskra stjórnvalda... Meir að segja voru þeir, vegna þessara endalausu friðar- og sáttaumleitanna, sagðir bera ábyrgð ófara fyrri ríkisstjórnar Breta s.s á samningi Chamberlains og Hitlers í aðdraganda stríðsins sem Bretum sveið víst ægilega... Sem er samt svakalega langsótt...!
-
Á Winston að hafa sagt þetta samfélagsdrepandi friðartal...!
-
En það fylgir sögunni að Breski aðallinn var mjög tvístígandi í aðdraganda stríðsins... Hann hafi átt miklar eignir á meiginlandinu sem aðallinn óttaðist um kæmi aftur til styrjaldar í Evrópu...
-
Það fylgdi margt annað skrýtið þessari sögu... En ég bara veit ekki hvort það skiptir svosum einhverju máli...
-
En...!
Um örlög Hess sagði þessi saga frá dáldið sérstökum atburðum (ef sannir eru...) sem ég hugsaði nú ekkert svo sérstaklega útí þá... En verður þó að fylgja...
-
Málið var að Hess á að hafa tryggt sig gagnvart mögulegum svikum Breta vegna þessarar ferðar... Hann á að hafa tekið afrit af öllum bréfum, skilaboðum og sendingum sem bárust Þjóðverjum frá friðar-aðlinum í Bretlandi, og komið fyrir á "góðum", öruggum stað... (sem er væntanlega bankahólf í Sviss...?)
-
Og þá lenntu Bretar íðí...! Því í þeim gögnum á að hafa komið í ljós mjög vafasöm samskipti verulega háttsettra einstaklinga í breskusamfélagi, jafnvel talað um drottinssvik ákveðinnar harðlínuklíku mjög háttsettra breskra aðalsmanna vilhöllum nasismanum...
-
Í því sambandi skaut persónu Játvarðs, fyrrum konungs, upp aftur og aftur sem höfuðpaur og ef ekki jafnvel sem aðal hvatamaður þessara þreyfinga við erlent ríki sem var komið í stríð við sjálft breskaheimsveldið...
-
Þótti það koma of nálægt Georg konungi sjálfum... Allavega þótti það óæskilegt, vegna þess að það var talið grafa undan tiltrú almennings á yfirstjórn ríkisins á stríðstímum, að láta það fréttast hversu mikil og heit óeining var innan breska aðalsins og þá stjórnkerfisins í aðdraganda stríðsins sem náði allaleið inní sjálfa fjölskyldu konungs, það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hversu illa þetta hefur komið við konung og fjölskyldu hans alla... Því breska konungsfjölskyldan er jú þýsk... Allavega að uppruna...!
-
Við styrjaldarlok var Hess svo látinn dúsa, við nokkuð óeðlilegar aðstæður, í Spandau fangelsinu einsog allir vita... Þangað til hann lést... Svo ekki hafi verið talin hætta á að þessu óþægilega leyndarmáli bresku konungsfjölskyldunnar yrði ljóstrað upp...
-
Þið viljið eflaust fá að vita hver sagði mér eiginlega þessa sögu/samsæriskenningu...?
Jú, í Skotlandi voru feðgar kynntir fyrir mér... Þeir voru tengda- og dóttursonur ráðsmannsins á skoska sveitarsetrinu þar sem Hess dvaldi sem fangi til styrjaldarloka... Þar á Hess að hafa lifað nokkuð eðlilegu lífi... Fór víst á veiðar með ráðsmanninum o.sv.l... Átti víst að vera nokkuð viðkunnulegur maður við fyrstu kynningu... En það eru líka flestir bankastjórar þannig að það er víst ekkert að marka...!
-
Kv. Sævar Óli Helgason
Sævar Óli Helgason (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 13:20
Jakob hefur sjálfsagt verið viðstaddur í Spandau, en skal þó uppfræddur um það að hann Hess var ævilangt innilokaður að kröfu Rússa. Þeir vildu helst fá hann til sín, en það hefði verið talsvert harðari traktering en Spandau, hvar vaktirnar voru sundurskiptar af bæði Rússum og Vesturveldunum.
Myrtur? Efast um það, enda ekkert í því fólgið að hann dræpist af öðru en eðlilegum orsökum en niðurlæging. Það hefði líka verið hægt að myrða hann fyrr, nú eða láta það líta eðlilegar út. Lampasnúra var það þó, enda hafði kallinn ekki mikil önnur örugg amboð.
En ráðgátan, - og þó ekki ráðgátan, - er þessi: Af hverju var Hess að þessu?
Gamla kenningin var sú að hann hefði tekið þennan séns einn, og ætlað á eigin spýtur að ljúka stríði við Breta. Hann átti vini á Bretlandi, t.d. hertogann af Hamilton, sem hann ætlaði að hitta.
Sé það rétt að Hitler hafi verið með í plottinu er það enginn skandall, - hann vildi losna við óþægindin af Bretum, - þeir voru illvígur þyrnir í holdi hans í áætlunum hans um lífsrými austur frá. Þetta er ekkert nýtt, sbr. "appeal to reason" sumarið 1940, þar sem hann sagðist ekki sjá neina ástæðu til að stunda hernað á hendur Bretum, Þjóðverjar væru sigurvegarar, og það væri best að láta þetta gott heita.
En...Bretar voru ekkert á því að gefa sig, þótt þeir hefðu engin efni á að standa í þessu stríði. Lestu vel Jakob, því að stríðið setti Breta tæknilega á hausinn svo snemma sem 1940. Þjóðverjar þurftu aftur á móti beinlínis á landvinningastríði að halda til þess að fóðra sína þenslu. Ágætis útrásarmenni þar að verki.
Hefði það verið gert af þjóðverja hálfu, fyrir opnum tjöldum að leita friðar við Breta, kynni það að hafa gert Sovétmenn tortryggna. Og Hitler hefði aldrei getað nálgast Bresku þjóðina sjálfur á þessum tímapunkti. Það var því ekki vitlaust að reyna friðarumleitun bak við luktar dyr, hvort heldur það hefði verið Hess í eigin umboði eða ríkisins alls. En áheyrn fékk hann ekki.
Og ekki ljóstraði hann þessu upp við vin sinn, búðarstjórann í Spandau, sem eyddi hundruðum klukkutíma í samræðum við hann.
Enda....skiptir það eiginlega engu máli hvort Hitler vissi eða ekki. Og hafi hann vitað, hefði hann kannski getað valið annan betri fulltrúa. Eða sendinefnd. Kannski mátti Hess bara missa sín?
Jón Logi (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.