2.6.2011 | 14:49
Gamla góða trixið.
Grændalur er eitt þeirra svæða sem sett var inn í upptalningu í bæklingi sem Samfylkingin gaf út í aðdraganda kosninganna 2007 og bar nafnið "Fagra ísland".
Í þessari upptalningu voru tiltekin ákveðin svæði sem skyldu látin ósnortin.
Grændalur er talinn hafa hátt verndargildi í þeim gögnum, sem sýnd hafa verið úr Rammaáætlun.
Auk Samfylkingarinnar lögðu Framsóknarráðherrarnir Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og formaður flokksins fram lista yfir svæði sem ekki skyldi snert við nema að undangengnum sérstaklega nákvæmum rannsóknum og ekki nema með sérstöku samþykki Alþingis.
Meðal þeirra var svæði sem réttilega var nefnt Leirhnjúkur-Gjástykki.
Tveimur dögum fyrir kosningar leyfði Jón að farið yrði með bora inn í Gjástykki til borana og djöflast var með bora á bakka sprengigígsins Vítis og í námunda við Leirhnjúk við að bora eftir gufu.
Um þetta fréttist auðvitað ekkert fyrr en eftir kosningar.
Það er gamalt og "gott" trix að fá leyfi til "tilraunaborana" á svæðum, sem virkjanafíklar girnast. Við það vinnst tvennt:
1. Með því að eyða nógu miklum peningum í þetta er hægt að vísa til þess eftir á að þetta fé verði "eyðilagt" ef ekki verði haldið áfram og virkjað til fulls. Ef náttúruverndarfólk möglar er því kennt um að valda því fjárhagstjóni sem í raun var stofnað til á ósvífinn hátt af virkjanafíklunum.
2. Þegar búið er að valda nógu mikilli röskun með tilraunaborunum eins og gerist á svæðum þar sem lítið þarf til að valda miklum óafturkræfum umhverfisspjöllum með tiltölulega litlum framkvæmdum, er notuð sú röksemd að "hvort eð er" sé komin það mikil röskun að ekki verði aftur snúið.
Ofangreint trix hefur reynst vel og í ljósi þess má skoða það sem nú er að gerast varðandi Grændal.
Engar rannsóknir fyrr en rammaáætlun liggur fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er augljóst að leyfi til tilraunaborana er veitt með samþykki iðnaðarráðherra. Hvernig ætla náttúruverndarsinnar í Samfylkingunni að bregðast við því? Eru þeir nokkuð sofnaðir?
Guðmundur Guðmundsson, 2.6.2011 kl. 16:00
Er ekki rétt að endurskíra dalinn Vinstri-Grænidalur til að minna á hverra skömmin er, þegar til kemur?
Jón Steinar Ragnarsson, 2.6.2011 kl. 18:37
Jón Steinar Ragnarsson,
átti þetta að vera fyndið? Ertu búinn að kynna þér stefnuskrá Vinstri Grænna?
Samfylking og Framsókn bera ábyrgð á þessum aðgerðum, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.
Svala Georgsdóttir (IP-tala skráð) 3.6.2011 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.